Ólýsanlegt þakklæti og gleði
Margir þekkja verkefnið Jól í skókassa. Það felst í því að Íslendingar búi til jólagjafir fyrir börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika í Úkraínu. Gjafirnar eru settar í innpakkaðann skókassa og í þeim eru leikföng, nammi, skóladót, föt og hreinlætisvörur. Skókassarnir eru síðan sendir til Úkraínu. Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna en þar er mikið atvinnuleysi og fátækt. Þar er einnig mjög hátt hlutfall fatlaðra barna og unglinga sökum Chernobyl-slyssins árið 1986. Íslensku skókössunum er meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra sem búa við sára fátækt. Megintilgangur verkefnisins er að gleðja börn sem sum fengju annars ekki jólagjöf. Verkefnið hefur verið í gangi síðan 2004, en þá söfnuðust 500 kassar. Það vatt uppá sig og seinustu 10 ár hafa safnast u.þ.b. 5000 kassar á ári. Í fyrra voru 5110 kassar sendir út og vonandi verða kassarnir enn fleiri í ár.
Kössunum er vel fylgt eftir, farið er yfir þá alla og þeir settir í gám. Eimskip, sem er stærsti styrktaraðili verkefnisins, flytur gáminn frítt til Evrópu. Íslenskir sjálfboðaliðar fylgja kössunum út og taka þátt í að afhenda börnunum þá.
Það er stór hópur fólks sem kemur að verkefninu. Sjálfboðaliðar eru allt árið að undirbúa og redda öllu mögulegu, t.d. að útvega styrki, snýkja tóma skókassa og auglýsa og kynna verkefnið. Einnig eru saumaklúbbar og hópar sem hittast reglulega og t.d. prjóna sokka eða húfur fyrir krakkana.
Foreldrar, skólar og æskulýðsstörf líta oft á þetta sem tækifæri til þess að kenna börnum að gefa, fræða þau um misskiptingu auðs og þæginda í heiminum og að það séu forréttindi að búa á Íslandi, fá pakka og eiga foreldra, hús, mat og föt.
Ég er ein af þeim sem fóru til Úkraínu seinustu jól og tóku þátt í útdeilingu gjafanna. Það geislaði ólýsanlegt þakkæti og gleði úr augum barnanna þegar þau fengu gjafirnar. Þau höfðu sum aldrei fengið gjafir áður og skildu hreinlega ekki af hverju fólk einhversstaðar á Íslandi væri að gefa þeim gjafir. Aðstandendur barnanna voru líka mjög þakklátir. Það var samt erfitt að sjá svona mikla fátækt og lélegan aðbúnað. Peningar sem safnast í verkefninu eru notaðir í uppbyggingu á stöðunum, t.d í þvottavélar og rúm.
Hvernig á að búa til kassa?
1. Pakkið tómum skókassa inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann.
2. Ákveðið fyrir hvaða aldur og kyn pakkinn sé. Aldurshóparnir eru eftirfarandi; (3-6), (7-10), (11-14) og (15-18). Skrifið kyn og aldur á miða og límið ofan á kassann.
3. Setjið 500 - 1000 krónur í umslag og leggið efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
Hvað á að setja í kassann?
Til þess að allir kassarnir séu svipaðir skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum eftirtalinna flokka í hvern kassa:
· Leikföng: T.d. litla bíla, bolta, dúkku, púsl, bangsa eða jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.
· Skóladót: T.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur, pennaveski, skæri eða vasareikni.
· Hreinlætisvörur: Óskað er eftir því að allir setji tannbursta, tannkrem og sápustykki í kassana. Svo má setja greiðu, snyrtitösku, þvottapoka eða hárskraut.
· Sælgæti: T.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
· Föt: T.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.
Ef þú vilt getur þú líka sett mynd af þér ásamt nafni og heimilisfangi og/eða netfangi ofan í skókassann. Þá getur viðtakandinn sett sig í samband við þig.
Hvað má ekki setja í kassann?
Mikið notaða eða illa farna hluti.
Matvörur.
Stríðsdót, t.d. leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífa.
Vökva, t.d. sjampó, krem eða sápukúlur.
Lyf, t.d. vítamín, hálsbrjóstsykur eða smyrsl.
Brothætta hluti, t.d. spegla eða postulínsdúkkur.
Spilastokka. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, óskum við eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana
Það má líka koma með staka hluti eða ófullgerða kassa. Ef þú átt mikið af vel með förnum leikföngum (ekki mjög stórum), snyrtidóti, hárdóti, litum, stílabókum o.fl. þá má endilega koma með það eitt og sér. Sjálfboðaliðar fara yfir alla kassana til þess að gæta samræmis. Það er fínt að hafa aukalega af öllu til þess að fylla upp í aðra kassa eða hreinlega búa til fleiri.
Hvert á að skila kössunum?
Tekið er á móti kössunum í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 alla virka daga kl. 9:00 – 17:00. Síðasti skiladagur er laugardagurinn 10. nóvember, á milli kl. 11:00 – 16:00 á sama stað. Í lok október eru kössum safnað saman úti á landi og hægt er að kynna sér móttökustaði og tímasetningar inni á Facebook síðu verkefnisins.
Dagana 1. og 2. nóvember verður móttöku- og upplýsingastöð á Háskólatorgi frá ellefu til þrjú. Gríptu kassann með í skólann og sparaðu þér ferðina niður á Holtaveg! Þar munum við líka svara öllum spurningum sem kunna að vakna og verðum með tóma kassa ef þig vantar.
Facebook: Jól í skókassa
Snapchat: joliskokassa
kfum.is/Jól í skókassa
Sími: 588 8899