Vesturbæjarlaug: „Spa almúgans“
Það þarf ekki að leita lengi í nágrenni háskólans til að finna sannkallaða vin í lærdómseyðimörk námsmannsins: Vesturbæjarlaug. Þar stígur gufa upp úr heitum pottum frá morgni til kvölds og andrúmsloftið ilmar af klór og fögrum fyrirheitum. Laugin er samkomustaður allra kynslóða, en þar fara fram sundæfingar grunnskólabarna jafnt sem heldri borgara hverfisins. Háskólanemar eru engin undantekning og eiga þar margir stund milli stríða í amstri dagsins.
Sérstaða sundlauga er ekki síst fólgin í netleysinu sem þar ríkir. Símar eru með öllu óheimilir, bæði inni í klefum og í lauginni sjálfri. Þannig á sundfólk ekki annarra kosta völ en að veita umhverfi sínu athygli og staldra við í eigin hugsunum. Hvort sem farið er í kaldan pott eða heitan, syntar hundrað ferðir eða engin, þá er endurnærandi að dvelja um stund ofan í vatni undir berum himni. Góð sundferð þarf ekki heldur að vera háð sérstökum veðurskilyrðum, en fátt er betra en kaldir rigningardropar þegar legið er í heitum potti.
Í Vesturbæjarlaug má oftar en ekki sjá sömu andlitin frá degi til dags. Sumir koma í þeim tilgangi að spjalla við aðra gesti en aðrir eiga sinn griðastað í gufunni þar sem þeir láta streituna líða úr líkamanum í heitu og röku loftinu. Venjur fólks eru mismunandi og ástæður fyrir sundferðunum margar. Stúdentablaðið náði tali af nokkrum fastagestum Vesturbæjarlaugar og fékk þá til að deila sundvenjum sínum með lesendum.
Baldvin Flóki, heimspeki:
„Í hvert skipti sem ég smeygi mér í pottinn í Vesturbæjarlaug minnist ég þess hve mikil lífsgæði felast í sundlaugum Íslands. Þessi einfalda líkamsnautn að baða sig í heitu vatni í hvaða veðri sem er, hvort sem það er í úrhellisbirtu eða undir svellköldum norðurljósunum, trompar allt amstur hversdagsins. Maður finnur hvernig námsleiðinn bráðnar, hvernig þreyttir vöðvar fyllast nýjum krafti og hvernig meðvitundin þakkar sjálfri sér eins og að loknum góðum jógatíma. Og fyrir veikgeðja áreitissjúklinga eins og mig getur þetta verið góð leið til að losna undan klóm samfélagsmiðlanna. Ef vel liggur á manni hendir stundum að maður dýfi sér í djúpa endann og yrði á bláókunnuga, jafnvel að fyrra bragði. Sundið dregur fram það besta í mér og ég hugsa að Íslendingar væru almennt geðstirðari ef við nytum ekki þessarar stórkostlegu menningar.“
Elín Inga, blaða- og fréttamennska:
„Ég dýrka Vesturbæjarlaug, næstum tilbið hana, ég er ekki að djóka. Gufan í Vesturbæjar hefur eitthvert andlegt gildi fyrir mig, ég get svo svarið það. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið einhvers konar hugljómun þegar ég hugleiði þar.
Ég fer helst alltaf ein í sund og það er mjög framarlega í forgangsröðuninni minni að gefa sjálfri mér þennan tíma til að næra mig. Það er svo heilandi að vera í vatni og frelsandi að vera fáklæddur, leyfa sér að fagna líkamanum sínum eins og hann er. Ég held að símaleysið skipti líka mjög miklu máli, það eru svo fáir staðir þar sem maður er alveg frír frá sítengingunni og getur bara leyft sér fullkomlega að vera.
Sundrútínan mín er mér svolítið heilög. Ég syndi alltaf smá – mjög, mjög hægt. Ég hef stundum notað möntrur með sundtökunum ef mér líður þannig, annars einbeiti ég mér bara að önduninni. Að synda er svo góð hugleiðsla, fyrir utan auðvitað að liðka líkamann. Svo slaka ég í heita og einbeiti mér aftur að önduninni minni í kalda. Labba hring á bakkanum eftir kalda, meðtek áhrifin á líkamann og einbeiti mér á meðan að hugsunum sem hafa að gera með sjálfsmildi. Ég enda síðan yfirleitt á gufuhugleiðslunni. Þegar ég pæli í því er ég eiginlega í einni samfelldri núvitundaræfingu frá því ég stíg inn í Vesturbæjarlaug.
Ég held ég hafi kannski aldrei pælt í því áður hvað hver sundferð er mikið missjón, missjónið verandi að auka vellíðan. Að gera alla þessa hluti er orðið mér svo hversdagslegt, á sama tíma og það er hálf heilagt. Mér líður í hvert sinn sem ég fer í Vesturbæjarlaug eins og ég sé að fara í spa. Kannski eru sundlaugarnar bara nokkurs konar spa almúgans. Allavega, ég mæli með sundrútínunni minni – hún er algjör töfraformúla fyrir geðheilsuna.“
Lísa Björg, hagnýt menningarmiðlun:
„Ég reyni að fara í sund einu sinni í viku ef að letipúkinn í mér leyfir. Oftast dreg ég eina eða tvær vinkonur með mér af Stúdentagörðunum en mér finnst líka gott að fara ein, koma mér fyrir í einum af heitu pottunum og loka augunum um stund. Það virkar eins og hugleiðsla á mig. Mér finnst ekki gaman að synda og hef ekki synt síðan í síðasta sundtímanum í grunnskóla. Í alvöru. Ástæðurnar mínar fyrir að fara í sund eru annars eðlis. Sundum þarf ég nauðsynlega að fara í sturtu eða að slaka á eftir stressandi dag/viku. Þá jafnast ekkert á við tilfinninguna sem fylgir því að fara upp úr lauginni, húðin hrein og mjúk, smeygja mér í hrein nærföt og kósý peysu og halda af stað út í kalt haustloftið. Ætli uppáhaldshluturinn minn við að fara í sund sé ekki bara að fara upp úr, eins furðulega og það hljómar.“
Magnús Jochum, almenn bókmenntafræði:
„Á síðasta ári þurfti ég nauðsynlega að komast í einhverja hreyfingu svo ég yrði ekki snemmbært gamalmenni. Ég ákvað að fá mér árskort í Vesturbæjarlaugina sem ég endurnýjaði núna í síðustu viku. Á þessu ári hefur laugin orðið að eins konar heilsumiðstöð fyrir mér og ég fer þangað að minnsta kosti fjórum sinnum í viku.
Ég reyni að breyta rútínunni reglulega en fastir liðir eru útiklefinn og Garðabæjarpotturinn. Þegar því er lokið getur maður tekið sundsprett í djúpu lauginni, spjallað við kunningja, stokkið í gufuna/sánuna, spilað swasket (sundkörfubolta) eða framkvæmt harakiri í kalda pottinum.
Nýlega uppgötvaði ég undur lyftingasalarins sem er líklega einn sá versti á landinu. Það er hálf fyndið hve lítill og illa lyktandi hann er. Svo er hann sírakur eftir blauta sundlaugargesti og tækin eru bæði fá og léleg. Þar liggur sjarminn, að geta tekið vel á því þrátt fyrir ógeðfelldar aðstæður. Eftir þessa uppgötvun reyni ég alltaf að kíkja í salinn áður en ég fer í laugina.
Ég stend áfram mína vakt í haust og vona að ég geri einhverjar fleiri uppgötvanir.“