Ragna Sigurðardóttir nýr formaður SHÍ
Ragna Sigurðardóttir, nemi í læknisfræði, er nýr formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ragna var kjörin til að gegna embættinu á svokölluðum skiptafundi SHÍ sem fram fór í Odda í dag þegar nýtt Stúdentaráð tók jafnframt við störfum, en nýr meirihluti var kjörinn í byrjun febrúar.
Frétt Stúdentablaðsins: Nýr meirihluti í Stúdentaráði
Á fundinum var Ási Þórðarson, sálfræðinemi, jafnframt kjörinn til að gegna embætti varaformanns ráðsins, Sigmar Aron Ómarsson, lögfræðinemi, var kjörinn hagsmunafulltrúi ráðsins og þá var Ragnar Auðun Árnason stjórnmálafræðinemi, kjörinn lánasjóðsfulltrúi SHÍ.
Tveir sóttust eftir embætti formanns SHÍ, þær Ragna Sigurðardóttir og Nanna Hermannsdóttir, sem báðar sitja í Stúdentaráði fyrir hönd Röskvu. Sem fyrr segir var það Ragna sem hlaut brautargengi í kosningunni og var hún kjörinn formaður með 18 atkvæði af 27 eða 66,7%. Þeir Ási, Sigmar Aron og Ragnar Auðunn voru einir í kjöri.
Áður en gengið var til atkvæðagreiðslu héldu þær Ragna og Nanna stutta tölu þar sem þær meðal annars buðu nýja Stúdentaráðsliða velkomna til starfa. „Ég verð að segja það, að eitt það besta sem ég hef gert er að taka þátt í stúdentapólitík - ótrúlegt en satt,” sagði Ragna meðal annars í ræðu sinni. „Við gegnum mikilvægu starfi og það er hagsmunagæsla stúdenta,” sagði Ragna jafnframt og kveðst hún hlakka til að leiða hagsmunabaráttu stúdenta við Háskóla Íslands.