LinkedIn heimsækir Háskóla Íslands

/LinkedIn

/LinkedIn

Framavika Háskóla Íslands fer fram í næstu viku, dagana 13.-17. febrúar. Dagskrá Framavikunnar samanstendur af fjölbreyttum fyrirlestrum, viðburðum og vinnustofum en meðal þess sem verður á boðstólum eru fyrirlestrar á vegum fulltrúa LinkedIn. Það er Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ) sem stendur fyrir dagskránni.

„Þetta eru fulltrúar frá LinkedIn á Norðurlöndum en þeir eru að kynna sig í völdum háskólum á Norðurlöndum og þeir völdu HÍ,” segir Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi hjá NSHÍ, í samtali við Stúdentablaðið. „Þetta er frábært tækifæri fyrir stúdenta og ánægjulegt fyrir Háskóla Íslands að fá þessa kynningu og heimsókn.“

LinkedIn er faglegt alþjóðlegt tengslanet og munu fulltrúarnir halda tvo fyrirlestra á Litla-torgi í Framavikunni, 14. og 15. febrúar, þar sem þeir kynna fyrir nemendum hagnýt ráð til að koma sér á framfæri við atvinnurekendur út um allan heim. 

Mikilvægt að nota tækifæri á meðan á háskólanámi stendur

„Við erum flest öll með einhverja stafræna mynd af okkur á netinu og atvinnurekendur vilja sjá hvernig hún birtist – maður er googlaður,“ segir Jónína og bætir við „að það skipti máli að huga að því hvernig maður vill undirbúa sig fyrir atvinnulífið en ekki bíða fram að síðasta árinu.“ Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands leitast í sífellu við að bæta og þróa þjónustuna fyrir stúdenta en NSHÍ veitir heildræna náms- og starfsráðgjöf. Að sögn Jónínu veit hluti nemenda hreinlega ekki af þeirri þjónustu sem NSHÍ veitir, allt frá einstaklingsráðgjöf til námskeiða hvers konar og fræðslu, yfir í ráðgjöf til að undirbúa skrefin yfir á atvinnumarkað.

Tækifæri gefast með Tengslatorgi

„Ég held að stúdentar átti sig ekki alltaf á því hvað HÍ er vel tengdur, hérlendis sem erlendis og vel metinn,“ segir Jónína en HÍ er í hópi 250 bestu háskóla í heimi samkvæmt lista Times Higher Education sem er mikill styrkur fyrir stúdenta. Þá er HÍ einnig á öðrum lista Times Higher Education, Global University Employability Ranking-listanum svokallaða, yfir þá háskóla í heiminum sem þykja skila hvað öflugustum nemendum út í atvinnulífið. Þetta er í fyrsta skipti sem HÍ kemst inn á þann lista sem er byggður á mati stórs hóps alþjóðlegra fyrirtækja. „Ég hoppaði hæð mína af gleði fyrir hönd stúdenta þegar ég sá þetta, þetta kom skemmtilega á óvart,“ segir Jónína.

/NSHÍ

/NSHÍ

„Svo kemur þessi frábæra viðbót, Tengslatorgið, sem var ýtt úr vör í fyrra,“ segir Jónína. Tengslatorgið er vettvangur fyrir fyrirtæki til að auglýsa laus störf til umsóknar sem nemendur geta skoðað og sótt um í gegnum Ugluna. NSHÍ var falin umsjón með Tengslatorgi og að sögn Jónínu „gefur Tengslatorgið færi til að tengja saman fyrirtæki og þann mikla mannauð sem er í Háskólanum,“ en hún annast samskipti við fyrirtæki vegna Tengslatorgsins.

Sem fyrr segir fer Framavika HÍ fram í næstu viku en ítarlega dagskrá vikunnar má kynna sér á Facebook-viðburði vikunnar og á heimasíðu NSHÍ. Auk heimsóknar fulltrúa LinkedIn verður boðið upp á vinnustofu í ferilskrárgerð og starfsferilsmöppu auk þess sem tveir fyrrum nemendur, Eva Ýr Gunnlaugsdóttir hjá Mannauðsdeild Össurar og Helga Rún Runólfsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt, flytja erindi. Allir viðburðir Framaviku eru opnir og án endurgjalds og hvetur Jónína alla stúdenta við HÍ til að kynna sér dagskrá vikunnar.

Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi hjá NSHÍ Mynd/NSHÍ

Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi hjá NSHÍ Mynd/NSHÍ