Nokkur góð ráð varðandi uppsetningu ferilskrár

Þegar háskólanámi lýkur tekur vinnumarkaðurinn við. Nú kemur allt sem lært hefur verið að góðum notum, framtíðin er rétt að byrja.

Þegar sótt er um vinnu þarf að hafa nokkra hluti á hreinu. Fyrir utan atvinnuviðtalið er ferilskráin lykilatriði. Ferilskráin er eins og talstöð við mögulega yfirmenn þína, þín fyrstu kynni við þá eru í gegnum hana. Margir lenda þó í vandræðum og gera ýmis mistök við gerð ferilskrárinnar. Blaðamaður Stúdentablaðsins heimsótti Jakobínu Árnadóttur, ráðgjafa hjá Capacent, og spurði hana út í hvað er gott að hafa á ferilskrá, og hvað skal forðast.

Vel upp sett ferilskrá:

Góð mynd

Ef ferilskráin á að vera góð, er vel þess virði að fara í passamyndatöku, til dæmis í passamyndaklefann Kringlunni eða hjá ljósmyndara.

Letur

Vandaðu val á letri og ekki hafa texta of stóran. Óformleg rannsókn hefur sýnt að trúverðugleiki texta er hvað mestur sé letrið Baskerville notað. Sömu sögu er að segja um letrin Times og Garamond.

Störf

Best er að telja upp þau störf sem þú telur skipta máli hvað varðar hæfni þína í vinnuna sem þú ert að sækja um. Muna að hafa það nýjasta efst.

Ítarleg námslýsing

Það er ekki nóg að telja bara upp alla skólagönguna þína – segja þarf nánar frá því. Hvaða braut, hvaða áherslur tókstu, fékkstu einhver verðlaun, varstu dúx? Ef verið er að sækja um starf sem þýðandi er rosalega sterkur leikur að segja frá því ef þú vannst einhver verðlaun við útskrift. Ef þú gerðir eitthvað flott lokaverkefni sem tengist vinnuni, eða varst valinn í eitthvað verkefni, er mjög gott að segja frá því.

Félagsstörf

Á þessum aldri skipta félagsstörf miklu máli. Jakobína segist horfa mjög mikið á það hvort fólk hafi verið að gera eitthvað annað en bara að stunda nám og starf. Voruð þið í nemendaráði í menntaskóla, eða einhverju sambærilegu? Skrifa það með! Varstu í hljómsveit? Skrifa það með! Hefur þú verið sjálfboðaliði? Skrifa það með! Stundakennari í háskóla? Skrifa það með!

Áhugaverð sumarstörf og verkefni

Margir hafa sinnt athyglisverðum störfum sem gott er að nefna. Áhugaverð nýsköpunarverkefni líta alltaf vel út og viðburðir eins og Gulleggið gera ferilskrána alveg ómótstæðilega.

Tungumálakunnátta

Kanntu einhver fleiri tungumál en íslensku og ensku? Þá er upplagt að skrifa þau niður og segja aðeins frá þeim. Ef þú hefur búið erlendis er gott að taka það fram í sambandi við tungumálakunnáttu.

Tölvukunnátta

Kunnátta á Excel, Word og önnur skrifstofuforrit eru mikilvæg viðbót. Ef þú kannt að forrita eða eitthvað svoleiðis, er það auðvitað haft með.

Einkunnir

Ef þú slóst í gegn í háskólanum einkunnalega séð, er vel séð að senda þær inn. Þetta er til dæmis sérlega mikilvægt fyrir þá sem námu lögfræði. 

Einfaldleiki

„Minna er meira“ þegar kemur að ferilskrá. Hún á að vera einföld og auðlesin, en samt áhugaverð. Þú hefur allan efniviðinn í reynslu þinni og það er óþarfi að bæta ofan á það.

Illa upp sett ferilskrá:

sizzy.1-page-001.jpg

Mynd

Alls ekki hafa mynd af djamminu, eða mynd sem augljóslega er búið að kroppa aðra manneskju af. Það ber vott um ófagmannleg vinnubrögð.

Letur

Forðastu að nota sjálfgefin letur í forritum eins og Calibri eða Arial. Í stað þeirra skal nota Helvetica eða Akzidenz. Ekki blanda samærilegum leturgerðum og forðist alla skrautskrift.

Störf

Ekki skiptir máli að telja upp hvert eitt og einasta starf. Reyndu að telja upp störf sem skipta máli fyrir þá vinnu sem þú ert að sækja um. Kassavinna í Krónunni þegar þú varst 15 ára skiptir því ekki miklu máli.

Óvönduð vinnubrögð

Farðu með ferilskrána eins og hún sé ritgerð. Vandaðu stafsetningu og málfar, og fáðu einhvern til að lesa yfir hana. Stafsetningar- og málfarsvillur bera án alls vafa vott um trassaskap eða metnaðarleysi af hálfu umsækjanda. 

Óskýr framsetning

Ekki skrifa of stuttar setningar, né vera með einhvern orðaflaum. Skipulegðu ferilskrána vel og vertu viss um að hún sé ekki of erfið í lestri, ekki hafa allt í belg og biðu.

Engar krúsídúllur

Ekki vera of frumleg(ur) við gerð ferilskrárinnar. Forðast skal allar óþarfa skreytingar og fegrunaraðgerðir. Ekki hafa hana í „landscape“ eða í einhverju öðru skringilegu formi, nema auðvitað að þú sért að sækja um mjög skapandi vinnu.

Mikilvægast er að vanda vinnubrögð og hafa hana nógu einfalda, en samt passa að allt sem þarf að vera á henni sé til staðar. Hafðu þessa punkta í huga og gangi þer vel í atvinnuleitinni!


Umsjón: Arnór Steinn Ívarsson

Uppsetning ferilskráa: Kristinn Pálsson