Skólinn minn: Þorsteinn Guðmundsson

Hvað ertu að læra og á hvaða ári ertu?

Ég er að læra sálfræði og er nú að ljúka fyrsta ári.

Hvers vegna valdirðu sálfræði?

Ég hef alltaf haft áhuga á fólki. Bæði hvernig og hvers vegna, fólk hagar sér á þann hátt sem það gerir og ekki síður hvernig hægt er að breyta hegðun og líðan fólks (sjálfur meðtalinn). Ég finn líka að margir eru hissa og jafnvel hneykslaðir á því að ég sé að standa í þessu. Það gleður mig.

Þorsteinn Guðmundsson

Hver er besti kúrs sem þú hefur setið?

Ég get ekki gert upp á milli þeirra, þetta er allt mjög fróðlegt og vandað. Það hefur verið mjög skemmtilegt að komast í það núna á vorönn að vinna verkefni og ritgerðir vegna þess að þá getur maður dálítið reynt að sameina það sem maður hefur lært í ólíkum námskeiðum.

Hvað er það besta við Háskóla Íslands?

Ætli það sé ekki bara metnaðurinn sem maður finnur bæði hjá nemendum og kennurum. Ég hef ekki fundið fyrir öðru en allir vilji standa sig vel. Ég hef líka smekk fyrir vondu uppáhellingarkaffi þannig að ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum með það.

Hvaða breytingu myndir þú helst vilja sjá tengda skólanum?

Ég hef ekki mótað mér skoðun á því. Það er mikill fjöldi sem hefur nám á fyrsta árinu í sálfræðinni og kennslan tekur mið af því. Ég hlakka til þess að kennslan verði aðeins persónulegri eins og mér sýnist hún nú reyndar þegar farin að verða.

Hvaða samgöngumáta notar þú til þess að komast í og úr skóla?

Bíll, strætó, hjól og fætur. Ég er alæta á samgöngumáta.

Ef þú værir í námi erlendis hvaða land, staður eða skóli yrði fyrir valinu?

Kannski Bretland eða Bandaríkin. Annars verð ég bara að viðurkenna vanþekkingu mína í þessum efnum. Ætli ég segi ekki bara eins og Groucho Marx: „Ég get ekki hugsað mér að tilheyra neinum klúbbi sem myndi samþykkja mig sem meðlim“.

Ef að þú fengir að gegna hvaða starfi sem er, hvar yrðu kraftar þínir best nýttir?

Ég er í mjög góðu starfi sem gengur út á að segja sögur. Vettvangurinn er leiklist, uppistand, ritstörf og ræðuhöld. Ég er ekki í nokkrum vafa um að námið í sálfræði mun hjálpa mér að sinna því betur. Svo væri ég reyndar líka til í að vera neðansjávarvísindamaður, kokkur, sundmaður eða keyra langferðabíl.

Hvað gerir þú af þér til afþreyingar og yndisauka?

Ég nota tímann til að vera með fjölskyldu og vinum. Ég er umkringdur skemmtilegu fólki þannig að ég þarf ekki annað en að opna eyrun til að njóta lífsins. Göngutúrar úti í náttúrunni eru líka einstaklega gefandi. Þá fæ ég frí frá öllu þessu skemmtilega fólki og get notið þess líka.

Hvaða skemmtilesning er á náttborðinu þínu núna?

Ég var síðast að glugga í A Confederacy of Dunces. Það er alltaf hressandi að lesa um bjána. Mínar uppáhaldsbækur eru flestar um bjána. Don Kíkóti og Góði dátinn Svejk eru bækur sem ég les reglulega.

Hvað þarftu að meðaltali langan nætursvefn?

Sjö, átta tímar nægja mér. Ég hef reyndar líka allt mitt líf stundað það að leggja mig í klukkutíma á daginn. Ég er gríðarlega góður í að leggja mig, ég gæti jafnvel trúað að ég sé Íslandsmeistari í því.

Ertu „A“ eða „B“ manneskja?

Ætli ég sé ekki A manneskja. Ef ég geri eitthvað af viti þá er það á morgnanna. Ég heimskast svo upp yfir daginn og á kvöldin er ég yfirleitt orðinn bæði tregur og stjórnlaus.

Ertu byrjaður að plana frí eða ferðalög sumarsins?

Nei, ég er nú ekki farinn að hugsa svo langt. Við hjónin höfum gaman af því að leigja okkur sumarbústað til dæmis í Brekkuskógi. Það er alltaf huggulegt. Ég efast ekki um að við gerum það í sumar.

Ef þú mættir sækja hvaða tónleika sem er, hvað yrði fyrir valinu?

Ég myndi vilja fara á tónleika með Miles Davis. Hann var merkasti tónlistarmaður sem uppi hefur verið og það er ekki lítið.

Ef þú gætir á einu augabragði breytt einhverju þrennu í þínu lífi, hverju myndirðu breyta?

Ég vildi að ég væri ríkari, klárari og gæti flogið.

Kláraðu eftirfarandi setningu: „Á unglingsárunum vissi ég ekki...“

Að ég væri bæði sætur og skemmtilegur.

 

Viðtal: Kristinn Pálsson

Mynd: Håkon Broder Lund