Elliði Vignisson í krísu

Elliði Vignisson er einn þekktasti bæjarstjóri landsins og kannast allflestir við hann. Elliði er þriðji gestapenni Stúdentablaðsins sem segir frá sinni 25 ára krísu en brátt styttist í næsta tölublað sem einmitt fjallar um það efni. Elliði er með BS gráðu í sálfræði og starfaði sem kennari um árabil. Hann er fæddur 1969 og er því ungur maður á 90‘s tímabilinu.

Sálfræðingur sem varð bæjarstjóri

Ég var 25 ára árið 1994.  Þá bjó ég í Reykjavík, stundaði nám í HÍ, fyrst í sálfræði og svo kennslufræði.  Ég hlustaði á Led Zeppelin, vann sem barþjónn og spilaði handbolta með Gróttu.  Handboltinn tók minni tíma en ætla mætti þar sem ég varði löngum stundum í að taka út leikbönn.  Ég hafði þá búið um stund með Berthu, núverandi konu minni, og við tekið ákvörðun um að verja ævinni samann.  Þar var ég heppnari en hún.  Ég veit það núna að margt af því sem ég taldi áhyggjur þá voru það ekki.  Það hvort ég myndi falla í persónuleikasálfræðinni og þar með ekki fá námslán.  Það hvort konan á 3. hæð myndi gera alvöru úr því að hringja í lögregluna næst þegar það yrði partý.  Það hvort bíl druslan myndi duga út veturinn.  Allt er þetta dæmi um eitthvað sem mér fannst alvöru áhyggjur þá en er til baka litið bara notaleg minning um góðan tíma.  

Okkur Berthu langað að ferðast, djamma og gera svo margt sem var algert rugl. Oftast nær létum við það bara eftir okkur.
Elliði ásamt tengdamóður sinni á tíunda áratugnum.

Elliði ásamt tengdamóður sinni á tíunda áratugnum.

Peninga átti ég aldrei.  Ég fjármagnaði námið með námslánum, sumarvinnu og nokkurri vinnu með skólanum.  Ég man vel þá tíð að fara út í búð og kaupa hvítt skyr og matarkex frá Frón.  Ekki af því að mig langaði í það.  Mig langaði í bláberjaskyr og Homeblest.  Maður varð hinsvegar að láta aurana duga.  Að láta það fara saman að vera blankur og ábyrgur við það að vera ungur og lífsglaður er ekki auðvelt.  Okkur Berthu langað að ferðast, djamma og gera svo margt sem var algert rugl.  Oftast nær létum við það bara eftir okkur.  Það fjármögnuðum við með því að láta þá annað á móti okkur.  Við drukkum ekki, reyktum ekki og ef við vorum til dæmis að reyna að fjármagna ferð erlendis er vart hægt að tala um að við höfum borðað. Að minnsta kosti þá eitthvað ódýrt.  Matur snérist eiginlega meira um inntöku á próteini en gæði.  Föt keypti maður nánast aldrei og stundum sleppti maður því meira að segja að vera með síma.  Í dag er ég því feginn að hafa látið smátt á móti mér fyrir stórt.

Oftast nær mætti ég illa í tíma og lagði meira upp úr lestri og sjálfnámi. Í hroka mínum fannst mér oft betra að lesa bara bókina frekar en að láta einhvern segja mér hvað stóð í henni.

Háskólatíminn fannst mér algerlega geggjaður tími.  Engin vinna, hvorki fyrr né síðar hefur fært mér meiri gleði.  Það að fá að stunda nám við úrvalsaðstæður innan um fólk fullt af einhverri orku sem maður veit að á eftir að móta framtíðina er magnað.  Það hentaði mér líka mjög vel hvað námið var mikið sjálfsnám.  Oftast nær mætti ég illa í tíma og lagði meira upp úr lestri og sjálfnámi.  Í hroka mínum fannst mér oft betra að lesa bara bókina frekar en að láta einhvern segja mér hvað stóð í henni.  Mér fannst líka ótrúlega magnað að fá reglulega tækifæri til að kafa ofan í eitthvað efni og læra það dýpra en mér óraði fyrir að væri mögulegt.  Ef einhver vildi borga mér laun væri sennilega enn í fullu námi.

Á þessum tíma vissi ég ekkert hvað ég ætlaði að starfa við í framtíðinni.  Ætlaði í mannfræði, sat kynningafund í félagsfræði, keypti bækur í stjórnmálafræði en fór svo í sálfræði.  Ég ætlaði aldrei að verða ríkur og því markmiði hef ég hingað til náð.  Ég vissi líka að menntun myndi ekki gera mig að meiri manni en vonandi að meira manni.  Ég vissi eiginlega það eitt að lífið væri langhlaup og í því gæti menntun orðið manni góðir skór.  Það hefur sannarlega gengið eftir.  Það eru margar leiðir til þroska, menntun er ein af þeim. Sú leið hentaði mér.

Elliði stundar gjarnan þjóðaríþrótt Vestmannaeyja, sprangið, uppábúinn í lakkskónum.

Elliði stundar gjarnan þjóðaríþrótt Vestmannaeyja, sprangið, uppábúinn í lakkskónum.

Mætti ég mæla til ungs fólks í þessari stöðu í þeim tilgangi að ráðleggja þeim þá myndi ég segja: „Hlustið ekki á neinn sem mælir til ykkar í þeim tilgangi að ráðleggja ykkur.  Þið eruð sjálf sérfræðingar í ykkar lífi.  Takið ábyrgð á ykkur sjálf og verið viss um oftast nær uppsker fólk eins og það sáir“.

Umsjón: Kristinn Pálsson

SjónarmiðGuest User