Sólveig Eiríksdóttir í krísu
Tilefni af þema næstkomandi blaðs „25 ára krísan“ fengum við til liðs við okkur nokkra gestapenna sem segja frá sinni 25 ára krísu. Annar til þess að stökkva til er matgæðingurinn, matarhönnuðurinn og lífsstílsgúrúinn Sólveig Eiríksdóttir. Oft betur þekkt sem Solla á Grænum kosti en hún rekur á á veitingastaðinn Gló. Solla er fædd 1960 og átti sína krísu um miðjan níunda áratuginn.
Hjartað leitaði í listina
Maímánuði er að ljúka, árið er 1985. Ég búin að búa eitt ár á Íslandi eftir að hafa verið sjö ár í Köben. Þar lærði ég að vera handmenntakennari og ég hafði hlakkað til að koma heim og byrja að kenna. Núna er ég alveg rugluð. Hélt að ég hefði verið búin að finna mitt „mission“, alltaf búin að ætla mér að verða kennari, en það eru að renna á mig tvær grímur. Og þetta var alveg fyrir utan það að ég fékk námið mitt ekki metið til jafns við sambærilegt nám hérna heima, þrátt fyrir að það væri á háskólastigi í skóla sem erfitt var að komast inní.
Síðan voru launin mjög lág, ekki nóg fyrir mat og húsnæði, en við dóttir mín vorum í fríu fæði og húsnæði hjá foreldrum mínum. Ég sá reyndar um alla eldamennsku í staðinn þannig að þetta var „win/win“. Mér fannst ég vera svolítið „fokkt“. Ég var búin að fá sumarvinnu í eldhúsinu í Kerlingarfjöllum og ætlaði að nota sumarið til að finna út hvað tæki við næsta vetur. Það sem hafði komið mér á óvart var að ég hlakkaði til á hverjum degi að koma heim og elda. Þar fékk ég útrás fyrir sköpunarþörfinni við að búa til nýjar uppskriftir. Ég var grænmetisæta og foreldrar mínir, dóttir og bræður voru að fíla matinn vel.
Ég hringi í pabba minn og við tókum spjallið. Það sem kom út úr því samtali var að hann hvatti mig til að fylgja hjartanu og finna ástríðuna mína upp á nýtt. Það væri það besta sem ég gerði í stöðunni. Hann var þess fullviss að menntunin mín frá Köben myndi gagnast mér, kannski bara ekki eins og ég hafði planað upphaflega. Það sem róaði mig var að hann sagði: „Lífið er svo óútreiknanlegt og sem betur fer er ekki hægt að ákveða allt út fyrirfram, en ef þú ert trú sjálfri þér þá verður ferðalagið skemmtilegt og allir áfangastaðirnir gera þig ríkari“.
Hann reyndist sannspár, ég byrjaði að vinna hjá fatahönnuði í tvö ár, fór síðan í Myndlista- og Handíðaskólann (nú Listaháskóli Íslands) í fimm ár og beint þaðan að vinna Á Næstu Grösum, stofnaði minn eigin stað, Grænan Kost sem ég átti og rak í tólf ár, var sjálfstætt starfandi kennari með grænmetisnámskeið með allan tímann og endaði á að taka við rekstri Gló sem telur nú fjóra veitingastaði og eina búð. Ég hefði aldrei viljað hafa neitt væri öðruvísi!
Umsjón: Kristinn Pálsson