„Mér þykir vænt um Háskólann“
Tómas Guðbjartsson, yfirlækni á Landspítala Íslands og prófessor í skurðlæknisfræði, þarf vart að kynna fyrir fólki en hann varð landsþekktur á einni nóttu eftir að hafa bjargað Sebastiani Andrzje Golab, sem hafði fengið hnífsstungu í gegnum hjartað, á drengilegan hátt. Tómas var í kjölfarið kosinn maður ársins 2014 á Bylgjunni og Vísi og hefur verið mikið í umræðunni seinustu vikur vegna þátttöku sinnar í Endurreisn, herferð Kára Stefánssonar í átt að endurreistu heilbrigðiskerfi hér á landi.
Inntaka 48 læknanema á ári er ekki nóg
Tómas var ekki með stefnuna setta á læknisfræði þegar hann hóf sína menntaskólagöngu í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann hafði hugsað sér verkfræði eða verkfræðiskyld fög, en hafði þó alltaf gaman að líffræði og mannslíkamanum þá sérstaklega. Hann byrjaði smátt og smátt að uppgötva hvað honum þótti gaman að vinna með fólki og á tveimur seinni árum menntaskólagöngunnar fór hann að velta læknanáminu fyrir sér fyrir alvöru. Á þeim tíma sem hann skráði sig í læknanám voru ekki inntökupróf heldur ákveðin sía - „numerus clausus“, hálfu ári eftir að kennsla hófst á haustönn þar sem teknir voru inn 32 stúdentar. „Þetta var svolítið sérstakt en samt gaman, það gekk mjög vel og þá hélt ég áfram,“ segir Tómas. „Mér þótti alveg gífurlega gaman að náminu í svo til öllum fögum og þó að kennslan hafi ekkert alltaf verið með neitt nýjasta nýtt þá þótti mér samt heilt yfir kennslan góð og vera mikill agi í náminu, kannski svolítið prófa-orienterað og það má alveg gagnrýna það. En svona heilt yfir fannst mér ég fá rosalega góða menntun“. Þegar hann kom út, bæði til Svíþjóðar og síðan Bandaríkjanna, fannst honum hann að mörgu leyti hafa mjög góðan grunn miðað við þá sem hann var að keppa við.
Honum þykir mjög ánægjulegt að hann sé núna orðinn prófessor við deildina og fái að kenna mikið. „Mér þykir mjög vænt um háskólann og er mjög ánægður með hvernig margt hefur þróast, en ég náttúrulega þekki það kannski best í minni deild“. Hann telur hópana sem eru teknir inn núna í inntökuprófunum breiðari heldur en þá sem sóttu námið þegar hann gerði það. Skýring á því gæti verið að í inntökuprófinu eru spurningar sem snúa að siðfræði og almennri þekkingu og segir Tómas það mjög mikilvægt að hafa nemendur með fjölbreyttan bakgrunn.
Það hefur verið mjög mikið í umræðunni núna innan háskólans, þá sérstaklega innan læknadeildarinnar, um hvort að það eigi að fjölga nemendum sem teknir eru inn í inntökuprófunum. Tómas segir það alveg augljóst að inntaka 48 læknanema á ári nægir ekki til að sinna eftirspurn og til að fylla stöður á Íslandi þá er verið að reiða sig að hluta til á fólk sem hefur verið mikið í til dæmis Norðurlöndunum eða í Slóveníu og Ungverjalandi. „Þetta er mikilvægur hópur sem er reynt að taka vel á móti þegar hann kemur heim úr sínu námi, og sem betur fer hafa margir komið aftur heim og starfað hér“. Hins vegar segir Tómas einnig vera takmarkanir á því hvað er hægt að taka á móti mörgum og að það sé engin illska heldur býður ástandið á spítalanum einfaldlega ekki upp á meira. „Núna eftir klukkutíma er ég með klíník svokallaða, þar sem ég fer yfir sjúkratilfelli með nemunum mínum og við höfum í engan sal að venda. Það eru gríðarleg þrengsli hvað varðar kennslurými og aðstöðu og ég hef alls ekki sett mig á móti því að taka á móti fleiri nemendum en ég hef jafnframt tekið fram að ég held að gæðin í dag í klíníknáminu séu góð og ég er ekki til í að gefa afslátt af gæðunum með því að fjölga, það verður þá að fylgja því fjárveiting,“ segir Tómas að lokum.
Setja verður markið hátt þegar kemur að endurreisn heilbirgðiskerfisins
Tómas var fyrsti viðmælandinn á eftir Kára Stefánssyni til að koma fram í myndbandi fyrir Endurreisn. Hann tekur virkan þátt í herferðinni og telur það alveg ljóst að eitthvað mikið þurfi að gerast til að breyta ástandinu, alveg sama hvernig tölurnar eru skoðaðar. Tómas lítur á þessi 11% sem markmið eða „slogan“ herferðarinnar sem er svo mikilvægt vegna þess að einhversstaðar þarf að setja markið, þó að það sé ekki endilega alveg raunhæft. „Án þess að hafa markmið þá þokar okkur ekkert í rétta átt, við verðum að vita hvert á að stefna. Það er kannski ekki hægt með einu pennastriki að koma 11% af vergum þjóðartekjum til heilbrigðiskerfisins en Kári hefur verið ötull við að stíga fram og segja hlutina eins og þeir eru dálítið kröftuglega, stundum þarf það til að fá athygli“.
Skurðlæknar ekki lengur kóngar í ríki sínu
„Lengsta aðgerð sem ég hef tekið þátt í varði hátt í sólarhring,“ segir Tómas en honum finnst það nánast ótrúlegt hvað maður getur staðið lengi án þess að þurfa að fara á klósettið eða borða þegar maður er einbeittur. Þetta telur hann þó vera þjálfun eins og allt annað - „þegar þú veist að þú átt aðgerðardag þá færðu þér kannski ekki fjóra kaffibolla um morguninn, þú færð þér hálfan“. Hann segir það vera ofsalega mikilvægt að vera við góða heilsu, hreyfa sig reglulega og halda líkamanum í formi vegna þess hve mikið líkamlegt álag er á skurðlæknum, ekki síður en andlegt, til að geta staðið inni á skurðstofunni tímunum saman.
Tómas eyðir gífurlegum tíma í stórar aðgerðir á hjarta og lungum sem margar hverjar taka á bilinu 3 – 4 tíma. Hann lítur á aðgerðirnar sem tækifæri til að kenna, enda prófessor í skurðlæknisfræði, og hann er alltaf með nemendur í aðgerðum hjá sér. „Mér finnst alveg rosalega gaman að kenna, ég væri náttúrulega ekki góður prófessor ef ég væri bara að kenna fræðilega“. Dagur Tómasar er fullur af adrenalíni sem honum þykir mjög gaman en viðurkennir þó að geti verið krefjandi. Stundum fæst hann við erfið vandamál sem er mikilvægt að taka ekki mikið með heim. „Það verður að vera hægt að taka á vandamálunum og vinna úr þeim á jákvæðan hátt og halda einbeitingu í næstu aðgerð. Þetta er mikil æfing og ég legg áherslu á þetta við nemendurna mína til að þjálfa þau upp í þessu“. Staðan hefur mikið breyst og hann segir sjálfur að hann hafi fengið slappa þjálfun í þessu á sínum tíma og því harðari lendingu þegar það kom að vandamálum.
Það skiptir hann miklu máli að fólki líði vel í kringum hann inni á skurðstofunni vegna þess að til að ná góðum árangri í aðgerðum er teymisvinna mjög mikilvæg. „Í gamla daga voru hjartaskurðlæknar eins og konungar í ríki sínu og öskruðu á alla hina og allir voru hræddir við þá, tími þeirra guða er sem betur fer liðinn“. Aðspurður um rútínu fyrir aðgerðir er svarið einfalt, hann passar sig alltaf á því að vera kurteis, heilsa öllum og reyna að vera glaður til að byggja upp góða stemningu í kringum aðgerðina „það er bara auðveldara, en ég stend ekki í vinstri skóinn í 10 sekúndur eða eitthvað álíka, ekkert svoleiðis ritúal“.
Eftirminnilegasta augnablikið að taka á móti syninum
Nokkur augnablik standa upp úr á ferli Tómasar en honum þykir eðlilega mjög gleðilegt þegar vel tekst til. „Tilfelli þar sem fólk kemur inn með litlar lífslíkur en framhaldið gengur mjög vel er eitthvað sem gefur manni gott veganesti í þessa vinnu og hvetur mann áfram,“ segir Tómas. Honum finnst hann hafa verið mjög heppinn í sínu starfi, kynnst skemmtilegu fólki, sem og fengið að kynnast sjúklingum persónulega og fylgt þeim eftir. „Eftirminnilegasta augnablikið á mínum náms- eða læknaferli er samt þegar ég tók sjálfur á móti syni mínum, sem er 25 ára í dag“. Tómas var í starfsnámi á kvennadeildinni á þessum tíma og hafði alls ekki hugsað sér að taka á móti sínu eigin barni „ég hafði einhvernveginn ekki hugsað um það en um það bil 20 mínútum áður en barnið fæddist þá fór ég í hanska og galla af því að ég sá að þetta gekk vel og það var mjög ánægjulegt“. Þá hafði hann tekið á móti fimm börnum áður þrátt fyrir að vera ekki fæðingalæknir. „Þó að ég sé skurðlæknir þá er þetta náttúrulega ótrúlega gefandi, og þetta er mér svo minnisstætt, ég var líka það ungur þarna. Ég segi það oft að það að vera fæðingalæknir eða ljósmóðir hlýtur að vera með því stórkostlegra sem þú gerir vegna þess að þú ert að sjá nýjan einstakling koma í heiminn og það er stórkostlegt,“ segir Tómas að lokum.
Viðtal: Hörn Valdimarsdóttir
Ljósmyndir: Kristinn Ingvarsson