Takk, Photoshop!

Ívar Sigurðsson 

Ívar Sigurðsson 

Í hvert sinn sem ég sé mynd á Facebook eða Instagram sem hefur augljóslega verið lagfærð stafrænt til að fegra viðfangsefnið, þá er ómögulegt fyrir mig að gera ekki grín að því. Hvern heldur fólk að það sé að blekkja þegar það minnkar mitti sitt stafrænt svo mikið að baðherbergið verður kúpt inn á við eða pússar bólurnar svo ákaft af andlitinu að Barbie virðist vera raunsæ fyrirmynd?

Þrátt fyrir þetta hef ég sjálfur stundað myndbreytingar fyrir samfélagsmiðlana. Á Facebook-síðu minni eru þónokkrar myndir sem ég eyddi mörgum stundum í að fullkomna, hvort sem það var uppröðunin á blýöntum hjá vintage ritvélinni minni eða val á síu svo að ég virtist hafa verið á ströndinni í nokkra mánuði frekar en í klukkutíma fyrir tveimur árum. Ég hef orðið vitni að mörgum taka myndir af máltíðunum sínum, merktar með skemmtilegum myllumerkjum eins og #blessed eða #meatlessmonday, en þó eru þær oftar af vel röðuðum salötum en af franskbrauðssamlokum með malakoffi.

Þessi mynd, sem birtist á Instagram, er vandlega stílfærð. 

Þessi mynd, sem birtist á Instagram, er vandlega stílfærð. 

En hver getur áfellst okkur fyrir þessa ástundun? Það er ekki eins og hver einasti af þessum einstaklingum sem Mark Zuckerberg kýs að kalla vini þína sé raunverulega náinn þér. Sjálfur myndi ég aldrei deila neinum raunverulegum hluta lífs míns með nema sex af þeim þrjúhundruð og þremur sem gefst kostur á að sjá myndirnar mínar. Handa hinu fólkinu er betra að setja fram ímynd af hinum farsæla Ívari, sem er stöðugt í ritstörfum með fullkominn kærasta, því meirihlutinn af þessu fólki sér bara eina og eina mynd sem gæti engu að síður haft einhver áhrif á afdrif mín.

Það er vel þekkt fyrirbæri að mannauðsstjórar skoði síður starfsumsækjenda til að ákvarða hversu vel þeir myndu passa í starfsumhverfið, og af því að það sem þú settur inn á netið er í eðli sínu brotakennt, þá eru líkur á að þeir dragi rangar ályktanir. Eins og þú hafir ofnæmi fyrir heftum því þú tweetaðir hversu mikið þú hnerrar í pappírsvinnu, eða að þú sért rasisti einfaldlega því þú hefur stundað eineltisherferð gegn innflytjendum. Síðan er auðvitað staðreynd að ekkert á netinu hverfur þaðan í alvörunni, ég myndi ekki vilja að sagnfræðingar framtíðarinnar flettu upp síðu hins mikla Ívars og dregðu þær ályktanir að ég hafi verið órakaður nörd sem hafði óhóflegan áhuga á teiknuðum hákörlum.

Það er þó ekki eins og við netvædda kynslóðin séum sú fyrsta til að breyta þeirri mynd sem að við gefum heiminum af okkur. Það myndi enginn halda því fram að hatturinn hans Van Gogh hafi litið eins vel út í raun og veru og eins og hann málaði hann eða að Habsborgararnir hafi verið jafn lítið afmyndaðir og portrett þeirra sýna. Það sem við kjósum að gera sýnilegt fyrir aðra er í raun persónulegar auglýsingar til að gefa fólki ákveðna ímynd af okkur sjálfum, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Líkt og tryggingafyrirtæki eða stórfyrirtæki á borð við Coca-cola, þá velur hver og einn einstaklingur þær upplýsingar sem hann reynir að koma á framfæri.

Er svona gaman hjá öllum sem drekka Diet Coke?

Er svona gaman hjá öllum sem drekka Diet Coke?

Coca-cola leggur áherslu á skemmtun sem fólk getur haft með kókflöskur í herberginu með sér en draga enga athygli að mannréttindabrotum sem þeir stunda í Kólumbíu og Indlandi. Þeir velja sjónarhorn og birtustig sem sýna vökvann í sem bestu ljósi og velja réttu myndirnar úr úrvali hundruða. Er það ekki alveg nákvæmlega það sama og við gerum sem einstaklingar á samfélagsmiðlum, að velja augnablikin sem við sýnum í samræmi við ímyndina sem við viljum, pósum, tökum nokkrar prufur til að velja úr og pössum okkur að vera ekki með sýnilegt hor.

Beyoncé „mjókkaði“ á sér lærin með hjálp myndvinnsluforrita á þessari mynd sem hún birti á Instagram. 

Beyoncé „mjókkaði“ á sér lærin með hjálp myndvinnsluforrita á þessari mynd sem hún birti á Instagram. 

Það er ekki nema stigsmunur á einstaklingnum og vörumerkinu í netheimum, svo það virðist fáránlegt fyrir einstaklinginn að neita sér um það mikla verkfæri sem Photoshop og önnur myndbreytingaforrit geta verið. Kannski þyrftu þeir sem kjósa að nota það einfaldlega að læra hvernig á að gera það fínlega.


Texti: Ívar Sigurðsson