Talað um veðrið: Samskipti við ókunnuga í almenningssamgöngum

Það má nánast heyra saumnál detta í lestinni. Fólk lítur varla í kringum sig. Allir eru meðvitaðir um að vera ekki ágengir og virða persónulegt rými sessunauts síns í annars troðfullri lestinni. Kyrrðin er ekki rofin með „dulululu dulululu dululu-lu-lu“ Nokia- símhringingunni eða marimba Iphone hringingunni sem allir kannast við á Íslandi. Ástæðan er að hluta til sú að um er að ræða lest í Japan. Þar hvíslast fólk á þegar það þarf að tala saman en er annars í sínum eigin heimi, með andlitið ofan í símanum eða með tónlist í eyrunum. Reglur kveða á um að bannað er að tala í síma í lest. Undantekningarlaust virða Japanir regluna og ónáða ekki hver annan.

Mynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Mynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Allir stara og hlæja hátt

Þessi fyrirmyndar kurteisi getur komið Íslendingum spánskt fyrir sjónir. Á Íslandi er normið allt annað. Stundum er jafnvel sem fólk keppist hvert við annað um að hafa mestu lætin í strætó. Það er aldrei langt í „sjáðu hvað það er gaman hjá okkur“ hugfarið, því hærra sem hlegið er því öfundsverðari er félagsskapurinn. Íslendingar eru einnig sérfræðingar í að mæla hvern annan út. Allir stara á alla og persónulega rýmið er nánast ekki neitt. Fólk horfir nógu lengi á hvert á annað til að taka af allan vafa um hvort það þekki nokkuð viðkomandi.

Forðast sessunauta í samgöngum

Hvað varðar persónulegt rými og kurteisi í almenningssamgöngum eru Ísland og Japan ólíkt. Eitt eiga Íslendingar og Japanir þó sameiginlegt. Fólk sest ekki við hliðina á öðrum farþega án þess að nauðsyn krefji. Í japanskri lest færir fólk sig um eitt sæti ef það losnar við hliðina á því. Þá er hornsætið vinsælast. Það sama á við í strætó á Íslandi. Fólk setur töskuna sína í gluggasætið og sest sjálft nær ganginum svo enginn geti sest við hliðina á því. Ef bekkurinn hinum megin við ganginn losnar færir fólk sig jafnvel þangað svo það geti setið eitt. Þannig er leikurinn endurtekinn. Fleiri þurfa að verða viðskila við samferðafólk sitt og setjast við hliðina á eða á milli ókunnugra. Þó er sem flestir vilji ekkert frekar en að forðast að setjast við hliðina á ókunnugu fólki. Þetta háttalag hlýtur að stafa af óöryggi. Hvað ef það þarf nú að yrða á manneskjuna við hliðina á sér?

Mynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Mynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Fórnarlömb veðursins

Það eru ekki mörg umræðuefni sem virðast vera viðurkennd við fyrstu kynni. Fæstir vilja fá nærgöngular spurningar frá ókunnugum. Á Íslandi er eitt umræðuefni viðurkenndara en önnur og það er að sjálfsögðu veðrið. „Það er nú meiri vindurinn í dag,“ heyrist oft sagt. Íslendingar kvarta hver í örðum yfir veðrinu. Það má nöldra yfir og jafnvel blóta skammdeginu, kuldanum og svo framvegis. Í Japan er einnig viðurkennt að tala um veðrið. Þar talar fólk um það hvað það er mikil rigning, að það sé of heitt eða of kalt. Í báðum löndum er félagslega viðurkennt að kvarta undan veðrinu eða gera grín að því. Mannfólkið á svo bágt. Það er fórnarlamb veðráttunnar. Skammdegið á Íslandi og rigningartímabilið í Japan eiga það sameiginlegt að vera tímabil þar sem frídagar eru fáir og fólk dettur gjarnan í smá þunglyndi. Veðrið hefur vissulega áhrif á hugarfar fólks.

Mynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Mynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Ágengar spurningar eða viðurkenndir ísbrjótar?

Veðrið er ekki algengasta umræðuefnið alls staðar í heiminum. Í Englandi er viðurkennt að spyrja: „Hvernig komstu hingað?“ Þá getur svarið verið eitthvað á þessa leið: „Heyrðu, ég tók bara lest númer 4 í 45 mínútur og var mættur korter í.“. „Já, ókei frábært,“ gæti svarið verið. Bretar tala um hvernig fólk kemst leiðar sinnar, umferðina og öngþveitið sem því fylgir. Í Bandaríkjunum má hrósa fötum eða fylgihlutum ókunnugra. Þar er ekkert skrýtið að segja við einhvern á förnum vegi: „Flottur bolur“ eða „vá! , æðisleg taska, hvar keyptirðu hana?“ Út frá því geta svo orðið stuttar samræður um að bolurinn hafi verið afmælisgjöf frá stóru systur eða að taskan hafi verið keypt á útsölu í GAP. Í Shenzhen í suður Kína er spurningin : „ertu búin að borða?“ viðurkenndur ísbrjótur. Þá er viðkomandi ekki að spyrja viðmælanda sinn hvort hann vilji borða með sér eða hvort hann eigi að gefa honum eitthvað að borða heldur fer fólk að tala um mat almennt og hvað það borðaði síðast.

Óþarfi að örvænta

Ólíklegt er að það sem Íslendingar telja ágengar spurningar verði að viðurkenndum ísbrjótum yfir nótt. Erfitt er til dæmis að sjá fyrir sér samtal á milli meðal Jóns og Gunnu sem neyðast til að sitja saman í strætó um það hvort þau séu búin að borða. Hver veit nema sú vitneskja, að það tíðkist að tala um mat við ókunnuga í Kína, geti þó komið sér vel sem ísbrjótur á förnum vegi. Það er allavega alger óþarfi að örvænta þegar einhver sest skyndilega í sætið við hliðina á þér. Það er alltaf hægt að tala um veðrið!

Karítas Hrundar Pálsdóttir skrifar fyrir Stúdentablaðið