Viðreisn: „Hátt menntunarstig er ein forsenda hagsældar"

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Viðreisnar um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Menntun er undirstaða efnahagslegrar hagsældar, leiðir til nýsköpunar og stuðlar að almennri velferð í samfélaginu. Með því að búa háskólunum þröngan kost veikjum við samkeppnishæfni Íslands. Við trúum því að aukin fjárframlög til menntunar og rannsókna séu fjárfesting til framtíðar. Viðreisn vill auka samvinnu háskóla, rannsóknarstofnana og atvinnulífs þannig að til verði frjór jarðvegur fyrir nýsköpunarstarf.

Sterkir skólar og blómlegt atvinnulíf þjóna saman hagsmunum samfélagsins, því mestur virðisauki felst í framleiðslu sem byggir á þekkingu. Í anda þessarar hugmyndafræði viljum við efla samkeppnissjóði hér á landi og stuðla þannig að framsæknum vísindarannsóknum, þróun og sprotastarfsemi. Veruleikinn er sá að Ísland hefur staðið Norðurlandaþjóðunum og öðrum OECD-ríkjum langt að baki þegar litið er til fjárframlaga til háskóla og til rannsókna um árabil. Háskólarnir þurfa einfaldlega meiri fjárframlög.

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Viðreisn vill búa stúdentum hagstætt námsumhverfi og jákvæða hvata fyrir námsfólk. Kjör  á námslána  eiga að umbuna góðan árangur og í því ljósi taka tillit til námshraða. Hluti af stuðningi við námsfólk ætti að vera í formi beinna styrkja. Það er að sama skapi eðlilegt að afborganir námslána verði tekjutengdar að einhverju marki, til þess að tryggja jöfn tækifæri til náms óháð fjárhag.

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Sem stendur er brýnasta úrbótamálið sem snýr að háskólastiginu það að taka á fjársveltinu. Veruleikinn er sá að háskólarnir þurfa á stjórnvöldum að halda sem standa með háskólunum. Því er mikið áhyggjuefni að þrátt fyrir að háskólarnir hafi búið við fjársvelti um langt skeið á sama tíma og verkefnum þeirra fjölgar og þrátt fyrir að samanburður við fjárframlög til háskólastigsins í öðrum ríkjum sé skammarlegur, þá sýnir núverandi ríkissttjórn málefninu ekki nokkurn skilning í fjárhagsáætlun til næstu fimm ára, þrátt fyrir að efnhagsástand sé nú að mörgu leyti hagfellt. Í því felst ákveðin pólitísk afstaða til menntunar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við teljum að fjárframlög til háskólanna og til vísindarannsókna þurfi að hækka verulega og munum beita okkur fyrir því á þingi.

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

9: Mennatmál eru forgangsmál og stjórnmál snúast að verulegu leyti um forgangsröðun. Í þjóðfélaginu er sem stendur rík krafa og almenn samstaða um að heilbrigðis- og lífeyrismál verði efst á blaði. Að því sögðu blasir erfið staða háskólanna við og Viðreisn telur að þar verði að gera betur. Hlutverk stjórnvalda er að skapa aðstæður hagsældar og tryggja tekjustofna sem standa undir þjóðfélagslega mikilvægum málaflokkum. Hátt menntunarstig er ein forsenda hagsældar til framtíðar og því mun Viðreisn beita sér af krafti þágu menntunar.

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez