Vinstri grænir: „Frelsa þarf námsmenn frá yfirdráttarkerfi LÍN"

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Vinstri grænna um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Stefna VG er að háskólarnir verði sterkari. Það verði gert með því að tryggja að framlög á hvern háskólanema nái sem fyrst meðaltali OECD og í kjölfarið verði þau hækkuð þannig að Ísland standi jafnfætis öðrum Norðurlöndum í takt við samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Frelsa þarf námsmenn frá yfirdráttarkerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og taka upp samtímagreiðslur samhliða því að tryggt verði að námslán dugi til raunverulegrar framfærslu. Eðlilegt er að hluti höfuðstóls námslána breytist í styrk ef námi er lokið á áætluðum tíma og áfram þarf að tryggja að námslán beri í mesta lagi eitt prósent vexti.

Endurskoða þarf allt fyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

 Já! Í stefnu Vísinda- og tækniráðs frá 2014 er sett það markmið að fjármögnun háskólakerfisins verði styrkt þannig að opinber framlög verði á við meðaltal Norðurlandanna árið 2020. Vinstri græn vilja að markmiði Vísinda- og tækniráðs verði náð árið 2020.

Til þess að ná markmiði Vísinda- og tækniráðs árið 2020 þarf að auka árleg útgjöld til þessa málaflokks um á bilinu 6 mia.kr. á ári.

Til þess að vinna að markmiði Vísinda- og tækniráðs er mikilvægt að vandað verði til verka svo aukin fjárframlög nýtist eins vel og kostur er. Vinstri græn mun því leggja það til þegar ný ríkisstjórn tekur við að að Vísinda- og tækniráði verði falið að vinna aðgerðaráætlun í samvinnu við við menntamálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti um það. Þar verður lögð áhersla á eftirfarandi forgangsmál:

  • Að framlög á hvern nemanda í opinberum í opinberum háskólum séu yfir meðaltali OECD.
  • Framfærslustuðningur við námsmenn verði endurskoðaður með það að markmiði að bæta stöðu námsmanna og minnka endurgreiðslubyrði.

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

10 !

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez