Hreyfing og næring í lífi hins fátæka námsmanns

Flestir þeir sem hafa stundað nám á háskólastigi vita og hafa eflaust reynt á eigin skinni að námsmenn hafa oftast nær ekki úr miklu að moða. Flestir þurfa þá að ákveða hvað er nauðsynlegt og hverju má sleppa, því oft er peningurinn fljótur að klárast. Blaðamaður Stúdentablaðsins tók saman nokkur heilræði sem gagnast ættu námsmönnum á tímum þegar pyngjan tekur að léttast.

Líkamsrækt

Líkamsræktarkort kosta sitt, sem getur meðal annars leitt til þess að hreyfing fer neðarlega á forgangslistann. En það þarf ekki að vera dýrt að stunda hreyfingu og borða hollt, í raun er besta hreyfingin yfirleitt sú sem er ókeypis. Hér í Reykjavík búum við svo vel að vera í nánd við fallega náttúru þar sem hægt er að stunda hreyfingu. Hér fylgja nokkrar hugmyndir að skemmtilegri líkamsrækt hvort heldur sem maður kýs að hreyfa sig inni eða úti. 

Háskólaræktin
Árskort í háskólaræktina kostar um átta þúsund krónur, sem er mun minna en það sem stórar líkamsræktarstöðvar bjóða upp á. Svo er líka mikill kostur að ræktin er á háskólasvæðinu svo það er alltaf hægt að skreppa á milli tíma!

Háfit
Háfit er fjarþjálfun sérstaklega fyrir háskólanema og er vel þess virði þar sem það kostar ekki mikið aukalega ef maður hyggst hvort sem er kaupa árskort. Til að mynda er Háfit sniðugt ef maður veit ekki alveg hvar á að byrja og vill smá aðhald, bæði hvað varðar mat og hreyfingu.

Háskóladansinn
Sniðugt fyrir þá sem forðast ræktina eins og heitan eldinn, eða bara þá sem hafa áhuga á dansi. Í Háskóladansinum eru meðal annars kenndir dansarnir Salsa, Lindy Hop og Tangó, svo flestir sem hafa áhuga á dansi ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Útihlaup
Það er nóg af hlaupaleiðum að velja úr á höfuðborgarsvæðinu og á mörgum þeirra eru líka bekkir sem hægt er að nýta til að teygja og gera styrktaræfingar.   

Hjólreiðar
Það er þónokkuð af góðum hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu og til dæmis er hægt að sameina hreyfingu og samgöngur í eitt með að hjóla í skólann.

Fjallgöngur
Til eru ýmsir hópar sem stunda fjallgöngur saman, annars er alltaf gaman að fara í góðra vina hópi í göngur.

Facebook
Fyrir þá sem vilja frekar stunda hreyfingu í hóp með öðrum er hægt að finna ýmislegt með því að gera smá leit á facebook.

Sjósund/Sund
Hægt er að finna hópa á Facebook sem stunda sjósund saman. Fyrir þá sem eru ekki eins ævintýragjarnir er hægt að synda í einhverri af mörgum sundlaugum Reykjavíkurborgar. Þá getur verið sniðugra til lengdar að kaupa kort í sund heldur en að borga stakan miða í hvert sinn. 

Matur

Þegar kemur að mat er það reynsla blaðamanns að hollasti og ódýrasti maturinn er yfirleitt það sem hægt er að elda sjálf/ur. Þá er það stundum gott að geta gleymt sér í matreiðslunni eftir langan dag yfir bókunum.

Skipulag
Oft er sniðugt að skipuleggja sig svolítið, jafnvel að gera matseðil fyrir alla vikuna. Til að spara tíma er til dæmis hægt að elda stóra skammta af mat sem geymist vel í frysti og taka svo út skammta eftir þörfum.

Matarblogg
Fyrir smá innblástur í matargerðina er skemmtilegt að skoða eitthvað af hinum fjölmörgu matarbloggum sem til eru.

Stúdentakortið
Tilbúinn matur er yfirleitt frekar dýr , því er sniðugt að sækja um Stúdentakortið. Með kortinu er hægt að fá afslátt á stöðum sem bjóða upp á hollan mat á borð við Saffran, Serrano og svo í Hámu.

Klippikort
Margir veitingastaðir bjóða líka upp á sérkjör fyrir viðskiptavini, sem eru yfirleitt í formi klippikorta. Tilvalið er að nýta sér þau til að spara aðeins þegar keyptur er tilbúinn matur.

Eins og gefur að líta þá eru möguleikarnir fleiri heldur en virðist í fyrstu og eru þessar hugmyndir því aðeins toppurinn af ísjakanum ef svo má komast að orði.

LífstíllStúdentablaðið