Ætti Reykjavík að heita Pyongyang?

Væri nú heimurinn ekki fullkominn ef allir gætu alltaf verið sammála? Svo er því miður ekki raunin. Verra er þó þegar rifist er um málefni líðandi stundar án þess að fólk hafi kynnt sér almennilega báðar hliðar þess. Í rökstólum Stúdentablaðsins færa fróðir og ósammála menn, að þessu sinni  Hersir Aron Ólafsson og Hrafnkell Ásgeirsson , rök fyrir skoðunum sínum í von um að leiða umræðuna um heiti höfuðborgar Íslands í rétta átt.

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Reykjavík ætti að heita Pyongyang

Lengi hefur það verið lenska á Íslandi að stilla góðum hugmyndum þannig upp að bara sé hægt að gera eitt í einu. Ef þingmaður t.d. leggur til að aftur verði tekin upp vinstri umferð eða Sigmundur Davíð skírður Jason heyrast ávallt mótbárur á borð við „en hvað með heilbrigðiskerfið, ætlum við bara að díla við ebóluna í Útilíf?“ og „væri ekki réttara að huga að skólunum okkar fyrst, strákar kunna ekkert að lesa lengur!“ Slíkur hugsunarháttur þykir mér óþolandi og mun ég hér gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að koma af stað hugarfarsbreytingu hvað þetta varðar.

„Róttækari hugmyndir þarf til.“

„Róttækari hugmyndir þarf til.“

Það er nefnilega hægt að gera tvennt í einu. Það er t.d. hægt að breyta Mjóddinni í hýenugarð og hlúa að skólakerfinu eftir fremsta megni.

Ljóst er að þeir sem vilja breyta heiminum og koma af stað nýrri hugsun þurfa oft að stíga stærri skref en þorra almennings líkar þá og þegar. Markmiðið er að sjokkera og jafnvel ganga fram af fólki til þess að hrista aðeins upp í liðinu. Þ.a.l. er greinilegt að ég mun ekki ná markmiði mínu með því að leggja aðeins til smávægilegar breytingar, eins og að Fabrikkan heiti núna Paprikan eða að Vigdís Hauks verði skírð Freddy Kruger.

Róttækari hugmyndir þarf til. Nú má samt ekki ganga svo langt að málstaðurinn falli algjörlega á öfgum. Þess vegna er gott að byrja einhvers staðar þar sem þegar er smá flipp, og hvert er þá betra að horfa en einmitt til Reykjavíkur? Jón Gnarr var borgarstjóri í fjögur ár og vakti heimsathygli fyrir fjör og sprell og nú fer Dagfinnur dýralæknir með stjórnina.

„Margir spyrja sig þó eflaust hvers vegna Pyongyang?“

„Margir spyrja sig þó eflaust hvers vegna Pyongyang?“

Margir spyrja sig þó eflaust hvers vegna Pyongyang? Þar ræður einna helst för eins konar go big or go home hugarfar. Það tekur því varla að breyta nafninu ef það á bara að verða Þórshöfn eða Monróvía því nauðsynlegt er að stíga skrefið til fulls.

Auk þess má taka sér ýmislegt til fyrirmyndar í Pyongyang, eða Friðsælt land eins og nafnið myndi útleggjast á íslensku. Þar hafa íbúar t.d. tileinkað sér bíllausan lífstíl á einstaklega farsælan máta og enginn biðlisti er eftir plássum í fangelsi eins og Íslendingar hafa mátt þola. Þar er ekkert Facebook eða Snapchat að skjóta göt á heilabú ungra íbúa, heldur horfa þeir frekar til uppruna síns og kyrja ættjarðarsöngva og etja kappi. Þar að auki eru Virkir í athugasemdum harðbannaðir í Pyongyang.

„Bríetartún yrði t.d. að heita Kim Jong-Tún“

„Bríetartún yrði t.d. að heita Kim Jong-Tún“

Hins vegar myndi auðvitað ekkert allt breytast í stjórnkerfi Reykjavíkur þó hún héti Pyongyang. Aðal málið væri líklega að breyta öllum hinum nöfnunum. Borgin getur ekkert heitið Pyongyang og innihaldið síðan götur sem heita Kúrland og Bríetartún. Það væri fáránlegt. Bríetartún yrði t.d. að heita Kim Jong-Tún og Kúrland gæti orðið Land hins hamingjusama verkamanns. Í stað þess að þeysast um á stórum Range Rover bensínhákum væru síðan auðvitað allir á Kim Jong-Bíl.

Samuel Johnson sagði einu sinni að hamingjan væri ekki áfangastaður heldur ferðalag. Það er bjargföst trú mín að ferðalagið frá því að vera litla sæta Reykjavík yfir í heimsborgina Pyongyang verði öllum íbúum til ánægju og yndisauka og breytingin verði kærkomin samhliða umræðum um ebólu, ódýrar máltíðir og eldgos.

Frekari orða er varla þörf. Ef einhver hefur lesið allt ofangreint og finnur ekki knýjandi þörf til að trúa á „Juche“ og skýra hundinn sinn Kim ætti að setja þann einstakling í fangabúðir, eða „Kwalliso“. Ekkert Litla-Hraun í Pyongyang. Meira kveður að verkum en orðum. Jidoja mid-eo.

Hersir Aron Ólafsson


Reykjavík ætti ekki að heita Pyongyang

„Reykjavík ætti að heita Pyongyang.“ Þetta minnir mig á þegar ég tók alltaf frá sæti fyrir pabba á foreldraskemmtunum og svo var sætið alltaf autt. Það er ljóst að það þessi pæling er ákaflega heimspekileg eða „fílofísk“ eins og ég segi gjarnan. Ég er hins vegar búinn að fara í eitt heimapróf í áfanga sem kallast Heimspekileg forspjallsvísindi svo ég tel mig nokkuð vel í stakk búinn til að takast á við þetta.

„Ekki einu sinni framsókn myndi stinga uppá þessu.“

„Ekki einu sinni framsókn myndi stinga uppá þessu.“

Í fyrsta lagi er þetta ótrúlega heimskulegt. Ekki einu sinni Framsókn myndi stinga uppá þessu. Það kemur þó lítið á óvart að þetta komi frá Hersi, eða Grímu Ormstungu eins og mamma hans kallar hann. 

Annar galli sem Hersir hefur eflaust ekki gefið mikinn gaum er stavsetnyng! Það er mjög erfitt að stafsedja Pyongyang. Mörgum þætti eflaust skynsamlegt að skrifa Pjongkang eða eitthvað slíkt. Þetta er eitthvað sem Herir hefur lítið pælt í, held ég!

Alvarlegasti gallinn er líklega að þetta skapar mikinn misskilning. Manni væri ekki skemmt ef maður væri á leiðinni heim til Íslands eftir helgarferð í Köben og myndi svo fatta í vélinni að maður væri í 14 tíma flugi á leiðinni til Pyongang í Norður-Kóreu. Það talar enginn neina íslensku þar!

Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson

Alvarlegasti kallinn er hins vegar Ögmundur Jónasson, held ég.

Það er vel hægt að ímynda sér að ef til kasta kæmi á milli Norður- og Suður-Kóreu myndu ráðamenn í Suður-Kóreu ætla að senda hermenn og sprengjuvopn á Norður-Kóreu en í öllum hamaganginum óvart senda allt heila klabbið til Pyongyang á Íslandi. Hver myndi passa okkur þá? Hersir? Mögulega en líklega ekki.

Svo er það auðvitað fullkomin firra að stela nafni frá einum valdamesta manni heims, Kim Jong-Un. Höfum við efni á að eiga óvin sem fór einu sinni golfhring á holu í höggi allar 18 holurnar? Norður-Kórea er líka með einn stærsta her í heimi en hann telur um 1,2 miljón hermenn! Mönnum á borð við Hersi finnst augljóslega ekki nóg að hafa fengið Barack Obama á móti okkur vegna hvalveiðanna.

Stærsta spurningin sem herra Hersir þarf að svara er einfaldlega til hvers? Reykjavík er nafn sem hefur þjónað frábærri höfuðborg okkar mjög vel í gegnum tíðina. Hvað gengur þér eiginlega til, Hersir Jong-Un? Ísland er komið á kortið sem rándýr en mjög huggulegur ferðamannastaður. Túristarnir elska Reykjavík. Dagur B. Eggerts elskar Reykjavík. Mér skilst að það sé heilmikil saga á bak við nafnið Reykjavík þó ég viti reyndar ekki hver hún er, mögulega er það tengt því hvað fólk reykti mikið. Í ljósi þess hvað þetta er óþarft og asnalegt væri einfaldlega firra að ætla að setja þetta í forgang þegar heimilum landsins blæðir ennþá! Hvar er skjaldborgin Hersir? 

„Spurningin sem herra Hersir þarf að svara er einfaldlega til hvers?“

„Spurningin sem herra Hersir þarf að svara er einfaldlega til hvers?“

Miðað við hvað skriffinnskan, eða „bjúrókrían“ eins og við köllum hana í heimspekinni, er óskilvirk væri það líka töluvert vesen að láta alla í heiminum vita af þessari breytingu. Væri ekki nærri lagi að setja orkuna sem færi í þetta í eitthvað aðeins skynsamlegra, eins og að styrkja skjaldborgina eða koma Jónínu Ben og Gunnari aftur saman?

Með fyrrnefndar rökbombur á bak við eyrað er erfitt að átta sig á því hvernig Hressir getur verið svona hess með þessa meingölluðu tillögu. Mögulega finnst honum nafnið Reykjavík vera þreytt. Ef svo er, er þá ekki til betri lausn en að stela nafni frá annarri höfuðborg? Höfuðborg lands sem flestir tengja við þrælavinnu, ritskoðun og alræðisríki! Nú segi ég stopp! Nú setjum við fótinn fyrir hurðina. Stöðvum Hersi. Áður en hann stöðvar okkur öll.

Hrafnkell Ásgeirsson