Vídjóleigan Tinder
Árið er 1997. Það er laugardagur og kvöldið nálgast. Ég er á leiðinni út á næstu vídjóleigu til að leigja mér spólu. Ég kem inn og byrja á því að fylla grænan skrjáfpoka af nammi og grípa stóra dietkók úr kælinum. Það verður rífandi stemmari hjá mér í kvöld. Ég hef ekki hugmynd hvaða mynd mig langar að horfa á en veit þó að mér finnast gamanmyndir skemmtilegastar.
Þessi gæti verið skemmtileg, hugsa ég og set spólu í körfuna sem ég tók við inganginn.
Þessi líka!… Það er sæt stelpa framan á hulstrinu.
Men in Black. Ekki spennandi. Titillinn er asnalegur.
Titanic. Nei held ekki.
Vá, Jim Carrey er framan á þessari. Hún er örugglega skemmtileg.
Eftir góðan klukkutíma inni á vídjóleigunni er ég óvart komin með átján spólur í körfuna. En ég ætlaði bara að leigja eina! Hvernig í fjandanum fer ég að því að velja EINA? Og ég get ekki einu sinni séð trailer!
Það má kannski segja að stefnumótaappið Tinder líkist vídjóleigum fortíðarinnar að einhverju leyti. Þú færð upp myndir af fólki, sérð nöfn og aldur þess og hefur tvo valmöguleika. Að velja eða hafna. Þú dæmir út frá umbúðunum. Dæmir áður en þú veist hvernig manneskjan raunverulega er.
Fordómar?
Notendur appsins á Íslandi skipta hundruðum, ef ekki þúsundum. Þessi mikli fjöldi gerir það að verkum að stemningin verður svolítið eins og að fara á vídjóleigu. Eða í nærfataverslun. Þú skoðar og skoðar og dæmir án þess að prófa.
Baðselfie? Neihei. Ber-að-ofan-ræktarmynd? Gleymdu hugmyndinni. Sköllóttur? Aldrei. En hvað veist þú? Kannski er sá sköllótti prins drauma þinna en á aldrei séns því þú ert löngu búin að dæma hann áður en þú veist svo mikið sem hvað hann heitir fullu nafni. Hinn eini sanni gæti þó líka verið þessi bráðmyndarlegi með hattinn sem þú settir „læk“ við!
Hann gæti að minnsta kosti leynst þarna einhversstaðar. Svo hví ekki að prófa?
„It’s a match!“
Þegar tvær manneskjur hafa líkað hvor við aðra poppar þessi setning upp á skjáinn. Þvílíkt egóbúst! Sjálfstraustið eykst og fiðrildi fara á flug í maganum. Svona eins og þegar einhver blikkar þig á barnum eða býður þér í glas.
Á Tinder er allskonar fólk á öllum aldri. Fólk í leit að vináttu, ást, skyndikynnum. Ástin spyr hvorki um aldur né útlit. Tinderaðu þig í gang og haltu á vit ævintýrana!
Ps. Leitaðu samt ekki langt yfir skammt. Ástin gæti leynst handan við hornið, jafnvel bara ef þú lítur upp frá símanum!