„Ef mamma þín samþykkir list þína þá ertu á villigötum.“
Mikil gróska er í tónlistarvettvangi Reykjavíkur. Alls kyns tónlistarmenn hafa sett svip sinn á tónlistarsenu borgarinnar undanfarna mánuði, og sumar hljómsveitir virðast hafa komið upp á yfirborðið eins og þrumur úr heiðskíru lofti. Ein þeirra er hljómsveitin Hljómsveitt. Sveitin gaf nýlega út myndband við lag sitt Næs í rassinn sem varð strax að sígildu heitapotta umræðuefni. Myndbandið þótti djarft og fór jafnvel fyrir brjóstið á viðkvæmum. Hljómsveitina skipa systurnar Anna Tara Andrésdóttir, gítarleikari og söngvari, og Katrín Helga, einnig Andrésdóttir (dö), trompetleikari, gítarleikari og söngvari.
„Margir spyrja sig hvort við séum snillingar eða athyglissjúkir fávitar. Dæmi hver fyrir sig.“ segja systurnar Anna Tara og Katrín Helga, en línan þarna á milli getur vissulega verið býsna þunn. „Til hvers að fara með straumnum? Hver er tilgangurinn í því að gera eitthvað sem aðrir hafa þegar gert?“ svara systurnar þegar þær eru spurðar um ögrandi nálgun sína.
„Við erum með eina góða reglu: Ef mamma þín samþykkir list þína, þá ertu á villigötum.“ Góð þumalputtaregla frá stúlkunum, en í ljósi hennar væri athyglisvert að vita hvað móður þeirra systranna þykir um lagatexta sveitarinnar.
Hljómsveitt hélt sína fyrstu tónleika jólin 2012 og hálfu ári seinna tóku þær þátt í fyrsta rappkonukvöldinu, sem seinna þróaðist út í Reykjavíkurdætur. ,,Reykjavíkurdætur er ekki hefðbundin hljómsveit, heldur hópur listamanna sem vinna sjálfstætt eða í hópum innan gengisins,“ segja systurnar og bæta við að Hljómsveitt sé í raun sjálfstæð hljómsveit, þótt þær taki stundum eitt eða tvö lög á hljómleikum Reykjavíkurdætra. „Margir utan Reykjavíkurdætra hafa beitt sér fyrir því að við verðum reknar úr gegninu, en ber er hver að baki nema systur eigi.“
Orðaðar við Nóbelsverðlaunin
Myndbandið Næs í Rassinn hefur farið um internetið eins og eldur í sinu en fyrsta mánuðinn hefur það fengið rúmlega fjörutíu þúsund áhorf. Stelpurnar segja að þeim finnist viðtökur myndbandsins almennt góðar. Þó hafa nokkur nettröllin skilið eftir sig leiðindaummæli um sveitina. Til dæmis minnast stelpurnar á einstakling sem skrifaði: “... I would rape you and plumber your house“. Stelpunum var brugðið við þessari hótun, en vildu þó benda viðkomandi vinsamlega á málfarsvillu, þar sem þessi manneskja hefur eflaust meint að hún vildi ræna hús þeirra, en ekki pípuleggja það. Þrátt fyrir önnur álíka vitsmunaleg netummæli, þá hefur myndbandið fengið þokkalega dóma; til að mynda vill Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistargagnrýnandi, að sveitin hljóti Nóbelsverðlaun, eðlilega. Spurning hvort maður kíki ekki á tónleika áður en þau fá nóbelsverðlaunin, eftir það gæti aðgangseyririnn orðið skrambi dýr.
I want porn that turns me on, Ekki nauðga óvart, Ekki nauðga viljandi og Hamingjusöm hóra eru svo bara nokkur dæmi um lög sem sveitin hefur samið, en stelpurnar segjast vinna hörðum höndum að því að safna meðlimum í hóp þeirra sem hata hljómsveitina.
Sveitin hefur spilað víða um bæinn, nú nýlega í okkar eigin Stúdentakjallara. „Barnaafmæli, jarðarfarir og fjölskylduboð.“ svara stelpurnar þegar þær eru spurðar hver sé besti staðurinn til þess að spila á. „Tökum allt að okkur. Bitches gotta eat,“ bæta þær við, greinilega lausar við stjörnustæla. En þrátt fyrir vissa hlédrægni þá stefnir sveitin hátt. Nýverið spilaði sveitin með Reykjavíkurdætrum á Airwaves og á næstunni mun sveitin gefa út nýtt myndband við lagið Elska að fá það. Enda setja stelpurnar markið hátt: „Ferill Hljómsveitt er eins og endaþarmurinn. Einstefnugata uppávið.“