Hvernig nýtist námið þér?

Hvernig hefur námið nýst þér?

„Og hvað ætlarðu svo að gera eftir útskrift?“ er spurning sem stúdentar fá gjarnan eða jafnvel spyrja sig sjálfir. Í stað þess að spyrja stúdenta að þessu spurðum við tvo einstaklinga sem útskrifuðust fyrir ekki svo löngu að því hvernig námið hefur nýst þeim í starfi.

Davíð Snorri Jónasson er 27 ára og þjálfar meistaraflokk Leiknis R. ásamt Frey Alexanderssyni en þeir félagar tryggðu liðinu Pepsi-deildarsæti að ári.

„Ég er menntaður grunnskólakennari með áherslu á íslensku. Ég útskrifaðist frá Háskóla Íslands af menntavísindasviði 2010. Síðan bætti ég við mig masterseiningum sem gáfu mér framhaldsskólakennararéttindi. Ég var alls ekki viss hvað ég vildi læra en það hefur verið mín stefna að vera fótboltaþjálfari að aðalstarfi og var þetta pæling um hvað myndi nýtast mér með þjálfun því þar er ég bestur.“

Lærði að hlusta á fólk í kennaranáminu
Davíð er Breiðhyltingur og lauk stúdentsprófi frá FB áður en hann fór í háskóla og lærði að vinna með fólki.

„Það sem nýttist mér var að ég þurfti að fara út fyrir þægindarammann; fara úr Breiðholtinu í háskóla, kynnast nýju fólki og vinna með nýju fólki. Þetta hjálpaði manni við að koma hugmyndum sínum á framfæri, allt er þetta hópvinna. Ég kom úr fjölbrautakerfi þar sem vel var hlúð að einstaklingnum en þarna þurfti ég að vinna með fólki og læra að hlusta á fólk. Þú þurftir að skilja fólk, þú þurftir að læra að vinna með fólki sem var yngra en þú, sem var eldra en þú og virða skoðanir annarra. Ég myndi segja að það hafi verið það sem nýtist mér í dag því í dag er ég að stýra hópi fullorðna manna, þannig að þú þarft að reyna að taka réttar ákvarðanir og reyna að vinna með þeim og fá þá alla til að fara í sömu átt.

Betri þjálfari eftir kennaranámið
Árangur Davíðs í þjálfun er mjög athyglisverður enda er hann ungur að árum og mun þjálfa í efstu deild næsta sumar. Hann segist betri þjálfari eftir kennaranámið.
„Já, ég get alveg kvittað undir það. Ég er ekki að segja að það nýtist mér þegar ég er að stilla upp liðinu en klárlega þegar þú ert fótboltaþjálfari, sérstaklega í því djobbi sem ég er í í dag. Þá þarf maður að vinna með stjórn, þú þarft að vinna með öðrum þjálfurum og þú þarft að vinna með leikmönnum. Þú þarft síðan að eiga samskipti við fólk sem sér um að passa að klefinn þinn sé í lagi og þrífa búningana þína, þannig að ég er að hjálpa fólki eða fólk að hjálpa mér og er ég í samskiptum allan daginn. Menntunin hefur því nýst mér að því leyti að ég held að ég sé jafnvel betri í mannlegum samskiptum eftir námið heldur en ég var fyrir.

Kennarar eru fyrirmyndir
Davíð mælir með kennarastarfinu fyrir fólk sem langar að hjálpa fólki og vera öðrum fyrirmynd. Hann skilur líka ekki hvernig fólk svekkir sig endalaust á bágum kjörum.
„Góðir kennarar hafa alltaf þann eiginleika að nemendur treysta þeim og þú getur hjálpað þeim utan kennslu líka. Þú ert fyrirmynd. Ég vissi það þegar ég fór í kennaranám að ég var ekki að fara að verða ríkur á því að vera kennari, þannig að fólk verður að taka það inn í myndina þegar það kemur úr námi og vera ekki pirrað yfir því að fá lítið útborgað. Þú verður að fara í þetta út frá öðrum gildum og hvötum en peningum, það er þannig sem ég lít á þetta. Ef hvatning þín í lífinu er ánægja yfir því að aðstoða aðra við að ná árangri og vera fyrirmynd þá er þetta klárlega gott nám til þess.


Björg Magnúsdóttir er 29 ára útvarpskona og rithöfundur. Hún starfar í síðdegisútvarpi Rásar 2 og hefur sent frá sér skáldsögunar Ekki þessi týpa og Þessi týpa.

Ég tók BA gráðu í stjórnmálafræði og kláraði haustið 2010. Síðan tók ég MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun sem ég lauk við vorið 2012.


Hefur komið víða við
Óhætt er að segja að Björg hafi fengist við áhugaverða hluti síðustu ár

„Samhliða háskólanámi starfaði ég á markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands sem verkefnastjóri. Vorið 2013 hóf ég störf á fréttastofu RÚV og hef unnið þar síðan. Í haust byrjaði ég sem einn af umsjónarmönnum Síðdegisútvarpsins á Rás 2 auk þess að vera með innslög í sjónvarpsþáttinn Landann. Síðan er ég búin að skrifa tvær bækur sem komu út vorið 2013 og 2014, Ekki þessi týpa og Þessi týpa. Þetta er svona það helsta.“


Að pakka hlutum inn á áhugaverðan þátt

Þó að þær háskólagráður sem Björg lauk séu ólíkar nýtast þær vel í hennar störfum í dag.
„Ég lærði stjórnmálafræði af því að mér finnst allt í tengslum við fólk, völd, pólitík og málefni líðandi stundar svo áhugavert. Ég vil helst starfa í kringum það. Menningarmiðlunin tengist síðan því að búa til og hnoða eitthvað saman. Ég myndi segja að störf mín á Rás 2 og í sjónvarpinu samtvinnist af þessum tveimur heimum sem ég kynntist í háskólanámi: málefni líðandi stundar og það að búa eitthvað til og pakka hlutum inn á áhugaverðan hátt.


Stjórnmálafræði fyrir fólk sem vill vera í auga stormsins
Þau fræði sem Björg lærði í stjórnmálafræði finnst henni vera stóri suðupunktur samfélagsins.

„Ég lít á  stjórnmálafræðina sem góða grein fyrir þá sem vilja vera í auga stormsins. Stjórnmál eru þar sem valdið liggur, pólitíkusar stjórna í umboði almennings og svo framvegis. Mér finnst það vera stóri suðupotturinn í samfélaginu. Ef sá pottur kallar á fólk, myndi ég hiklaust mæla með stjórnmálafræði. Menningarmiðlunin snýst meira, eins og ég segi, um að pakka hlutum inn og koma hlutum í framleiðslu, eða búa til eitthvað áþreifanlegt úr hugmynd. Ef það er eitthvað sem kallar á fólk og það vill æfa sig í, mæli ég með þeirri námsleið.“