Myndir þú ferðast til Palestínu?
Ég lofa þér því að Palestína er hundrað sinnum áhugaverðari en Full Moon partí, og ódýrara. Þegar ég var þar í sumar fann ég fyrir því að Palestína var smám saman að opnast fyrir túrisma. Ekki furða, enda margt þar að sjá og upplifa. T.d. Höll Hishams í Jeríkó, fornu borgirnar Jenin og Betlehem, borgarvirkið í Jerúsalem, rústir Sebastíu og Dauðahafið. Teið og maturinn er ljúffengur en það besta er að höfuðskyndibitinn er heimalagaður hummus. Heimamenn eru yndislegir og hikuðu ekki við að bjóða okkur fölu, bláeygðu vinkonunum inn í rjúkandi heitan drykk og rabb um lífið og tilveruna.
Fyrst ég var að álpast utan alfaraleiðar túrismans fannst mér kjörið að taka þátt í lífinu með heimamönnum. Ég tók þátt í hungurverkfallsmótmælum í Ramallah, höfuðstað Vesturbakkans, og Bil’in. Friðsælir mótmælendur voru þar á móti alvopnuðum hermönnum úti á sléttu. Þeim fannst kjörið að tækla okkur niður með táragasi eins og er algengt hjá hernum. Sorglegt en satt þá er þetta daglegt brauð. Eins truflandi og þetta kann að hljóma, þá mæli ég samt sem áður með þessu.
Ef tillaga mín er of háskaleg fyrir þig þá er vel þegið að slást í för með heimamönnum í ólífutínslu í október en Palestínumenn hafa lifibrauð af ólífuræktun. Það er róandi að dunda sér við að tína fallega sívala nammið af tré sem tekur 500 ár að vaxa. Í þokkabót veitir þú heimamönnum vernd við tínsluna með nærveru þinni. Hermenn eru oftast ekki langt undan. En óttastu ei, það mun að öllum líkindum ekkert henda þig. Ísraelsher er ragur við að gera útlendingum illt því þeim er mikið í mun við að komast hjá alþjóðaumfjöllun um óréttlætið sem þeir beita á herteknu svæðum Palestínu, enda kolólögleg aðskilnaðarstefna sem þar fer fram.
Ekki misskilja mig. Mér leið sjaldnast eins og ég væri í hættu. Það virðist oftast vera þannig að þegar þú ert komin á ákvörðunarstað venstu aðstæðum furðufljótt og líður eins og heima hjá þér, þrátt fyrir að þú sért á herteknu svæði eins og Palestínu. Ekki ennþá sannfærð/ur um kosti þess að gerast ferðamaður í Palestínu? Hittu mig í kaffi og ég skal segja þér frá snilldinni sem býr að baki. Hafir þú svo áhuga á því að starfa á Vesturbakkanum í þágu réttlætis, vil ég benda á samtök eins og ISM, sem vinna þarft og óeigingjarnt starf á svæðinu.