Aðrir pæla meira í því að ég sé kona

Óhætt er að segja að Salka Sól Eyfeld hafi skotist upp á stjörnuhimininn á skömmum tíma. Fyrir hálfu ári fór lítið fyrir henni en í dag er hún dagskrárgerðarmaður í tveimur þáttum á Rás 2 og þenur raddböndin í hljómsveitunum Reykjavíkurdætur og Amabadama. Salka segir að hún hafi verið lengi að finna sig en er jafnframt ánægð með að hafa fundið réttu útgáfuna af sjálfri sér.

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Þorði ekki að syngja en vann söngkeppni skólans

Fyrstu árin bjó Salka á Bárugötu en flutti síðan í Kópavog þar sem hún upplifði erfiða tíma.
„Ég labbaði í Vesturbæjarskóla og hitti fullt af skemmtilegum karakterum sem maður gleymir ekki. Ég setti upp leikrit úti á götu og borgaði fólk 50 kall til að sjá leikritin. Ég á margar mjög góðar minningar frá þessum árum. Þegar ég var 7 ára flutti ég svo í Kópavog. Ég fann mig ekki vel í Kópavogi og varð fyrir einelti, án þess að fara nánar út í það núna. Þar var ég í skólahljómsveit Kópavogs og í öllum pásum þegar aðrir voru frammi var ég að prófa öll hljóðfærin og kenndi mér á þau sjálf.

Ég var alltaf heima að spila á hin og þessi hljóðfæri inni í herbergi en fannst ég ekki nógu góð til að fara fram og spila fyrir framan fólk. Síðan fór ég í skóla í Reykjavík í 8. bekk og fór að rækta listrænar langanir mínar. Eftir grunnskóla fór ég í FB á listabraut. Þar fann ég mér líka. Í grunnskóla þekkti enginn tónlistina sem ég vildi sýna þeim og það sem þá þótti skrýtið fannst fólki bara næs og eðlilegt í FB. Ég byrjaði að taka þátt í söngleikjum og leikritum. Þórður Gunnar vinur minn hvatti mig síðan til að syngja meira og tók ég þátt í söngvakeppninni í FB. Það var eitthvað í mér að vilja taka þátt með frumsömdu lagi og endaði það með því að ég vann keppnina og það gaf mér rosalega mikið búst. Þegar ég hlusta á þetta í dag finnst mér ég ekkert endilega kunna að syngja en þetta var upphafið í að þróa minn stíl.

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Brilleraði í London

„Eftir menntaskóla uppgötvaði ég að það sem ég hafði lent í í grunnskóla hafði miklu dýpri áhrif á mig en ég hafði nokkurn tímann gert mér grein fyrir. Ég leyfði mér ekki að vera ég sjálf. Mig langaði í leiklist en langaði samt ekki. Mig langaði í tónlist en langaði samt ekki.
    Ég flutti til Bretlands og fór í nám í Actor Musicianship, sem er leikaranám fyrir hljóðfæraleikara. Námið ræktaði ekki bara leiklistarhæfileika og tónlistarhæfileika heldur bara mig sem listamann. Það var ótrúlega gefandi að leyfa sér að vera listamaður og þetta er svakalegt sjálfskoðunarnám. Ég naut mín í botn og þó ég segi sjálf frá þá brilleraði ég og er fyrsti Íslendingurinn sem er með BA í þessu.“
    Salka er ekki með feril í þessum fræðum efst á listanum núna en reiknar með að nota þau í framtíðinni. „Ég á þetta alltaf og ætla að vinna með þetta seinna meir. Ég á marga vini í fræði og framkvæmd og í listaháskólanum og get ég ekki beðið eftir að þau útskrifist svo við getum búið til sprengju.“

Konur eru konum bestar

„Þegar ég kom aftur til Íslands var ég búin að kynnast mér ágætlega en þorði samt ekki að sýna mig. Ég var með örugga vinnu á kaffihúsi og var ekki tilbúin að vera listamaður og vinna í listinni minn. Ég gat ekki hugsað mér að vera ekki með fasta innkomu þó að það sé áhætta sem maður verður kannski að taka.“
    Bolti Sölku fór síðan að rúlla þegar hún byrjaði að rappa. „Þetta byrjaði bara í gríni með vinkonum mínum. Við höfðum verið að gera texta og ákváðum að fara með þetta aðeins lengra og héldum rappkonukvöld á Bar 11 en þar komst ég að því að ég er bara ágætis rappari. Ég hef unnið mikið með Blævi og Tinnu vinkonum mínum og við semjum bara um allt mögulegt.“
    Helsta afurð þessara rappkvölda er hljómsveitin Reykjavíkurdætur sem hafa vakið mikla athygli með beittum textum. „Það er sjaldan sem ég fæ jafn mikinn innblástur og með þessum stelpum og við sönnum það saman að konur erum konum bestar. Það er hundleiðinleg mýta að konur séu konum verstar. Þetta eru ógeðslega pirrandi orð.“

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Hossa hossa getur þýtt margt

Salka fór að syngja viðlög Reykjavíkurdætra og kynntist þar upptökustjóranum Magnúsi Jónssyni, eða Gnúsa Yones. Maggi hafði um nokkurt skeið dundað sér í reggítónlist og var í hljómsveitinni Amabadama ásamt Steinunni kærustu hans.
    „Maggi tók upp fyrsta lag Reykjavíkurdætra og kannaðist ég aðeins við Steinunni. Síðan gekk ég bara í bandið. Ég fann að með reggí var kominn söngur sem býður einnig upp á töffaraskapinn í rappinu og gat ég blandað mínum jazz-söngstíl í þetta líka. Amabadama var ekkert komin á flug og var eins og eitt púsl vantaði.“
    Það vita kannski ekki allir hvað Amabadama er fjölmenn hljómsveit enda hefur farið mest fyrir Magga, Steinunni og Sölku. „Við erum 10 manns og komum alltaf öll saman þó að við séum þrjú svona frontmenn. Ég og Steinunn fluttum fyrst Hossa hossa á rappkonukvöldi og átti þetta að vera Reykjavíkurdætralag. Steinunn samdi línuna „hossa hossa“ sem var samin með ákveðinn hlut í huga. Í rauninni er þetta bara um bassa þetta lag. Kveikjum á bassanum og hristum okkur saman. En það fer svolítið eftir því hvort ég er að tala við 16 ára og eldri eða 16 ára og yngri hvað er átt við með því. Skemmtilegast er að fólk túlki þetta á sinn hátt. Þegar ég pældi fyrst í þessu var ég ekkert að spá í að þetta væri eitthvað dónalegt. Dansinn kom frekar fljótt með hendurnar og svona og mér fannst það bara vera að hossa hossa. Það er hægt að nota þessa hreyfingu þegar verið er á hestbaki og það er líka hægt að nota hana í mörgum... gjörðum,“ segir Salka sem var skemmtilega orða vant í síðasta orði þessarar setningar.

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Skemmtilegasta giggið á Októberfest

Algjört æði braust út þegar Amabadama sendi frá sér lagið Hossa hossa. Þann 6. nóvember gaf hljómsveitin út sína fyrstu plötu, Heyrðu mig nú!
„Fyrstu stóru tónleikarnir voru á Secret Solstice. Þetta voru fyrstu tónleikarnir eftir að ég kom inn. Það var svo bjart, við vorum úti og fólk var svo til í þetta. Við spiluðum síðan á fullt af tónleikum eftir það en þegar við spiluðum á Októberfest hafði ég aldrei upplifað aðra eins stemningu. Við upplifðum það öll. Það er ótrúlegt hvað áhorfendur geta gefið mikinn kraft. Við vorum að spila lög sem fólk hafði ekki einu sinni heyrt en það voru allir með og að dilla sér. Við vorum búin að heyra að það væri gaman að spila á Októberfest en við komum brosandi hringinn út af gigginu.

Reykjavíkurdætur verði hreyfing sem lifir

Það er engin ákveðin stefna hjá Reykjavíkurdætrum að sögn Sölku en hún vill sjá þennan félagsskap verða að sterku kvenfélagi og haldi sér sem hreyfing fyrir stelpur sem langar að rappa.
„Við erum oft spurðar hvort við séum að djóka en við erum ekkert að djóka. Þetta er bara hreyfing eða regnhlífasamtök eða jafnvel kvenfélag. Það eru svo margir í öðru sem hittast síðan í Reykjavíkurdætrum. Ég, Tinna og Blær erum hópur innan Reykjavíkurdætra og vorum valdar bæjarlistamenn Kópavogs í sumar. Við vitum ekki hvort það komi plata. Eina sem ég vona er að þetta verði eitthvað batterí sem haldi áfram þannig að 12 ára stelpur í dag verði Reykjavíkurdætur eftir 10 ár og verði þetta búið að endurnýjast eins og hreyfing. Ef stefna Reykjavíkurdætra breytist er það bara allt í lagi því við unga fólkið eigum að ögra. Ef enginn myndi ögra værum við ennþá að fangelsa samkynhneigt fólk og konur gengu kannski ekki í skóla.

Radíusfluga í uppáhaldi

Það vita kannski ekki allir að leikarinn Hjálmar Hjálmarsson er pabbi Sölku. Hjálmar hefur verið fyrirferðamikill í gegnum tíðina og hefur leikið í áramótaskaupum, sjónvarpsþáttum, leikritum og svo mætti lengi telja.
„Ég fór rosalega mikið í leikhús sem krakki. Mér fannst svo gaman að við mamma gátum aldrei setið úti á enda því annars hljóp ég bara upp á svið. Mér fannst mjög gaman þegar hann var í áramótaskaupinu og að tala inn á Toy Story og svona en ég ætlaði samt aldrei að verða leikari heldur ætlaði ég frekar að verða kennari eins og mamma. Ég hafði mjög gaman að honum sem Haukur Hauksson í Ekki fréttum. En uppáhalds atriðið mitt með pabba er þegar hann lék í skets með Radíusbræðrum þar sem hann er að selja þorrabakka með súrum hrútspungum. Þetta fannst mér fyndnast í heimi þegar ég var lítil og er ennþá grínast við matarborðið hvort til dæmis franskarnar séu þorrafranskar.“

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Talar mest fyrir stráka og vondar stelpur

Ferill Sölku í fjölmiðlum er hreint ekki langur þó hún hafi verið áberandi á árinu. Hún sást fyrst á sjónvarpsstöðinni Bravó en þar öðlaðist hún dýrmæta reynslu í þættinum Bravó í beinni.
„Ég hef mikla reynslu í að lesa inn á teiknimyndir eins og Mæju býflugu, Lego Movie, Skrímsli Ehf og Plains. En síðan var ég beðin um að lesa inn á prufuauglýsingar fyrir Subway og var röddin mín valin. Ég fór þá upp á Bravó til að hitta Simma (Sigmar Vilhjálmsson) og ræða laun fyrir Subway-auglýsingarnar. Þá fór hann að spyrja mig út í hitt og þetta og sagði að ég ætti heima í sjónvarpi og bauð mér vinnu. Ég er þakklát fyrir það traust sem ég fékk. Ég var ekki á leiðinni í sjónvarp en hafði hugsað mánuði áður að það væri gaman að vinna í dagskrárgerð. Þá voru uppsagnir á RÚV svo ég pældi ekkert meira í því.“

Heyrði Dodda tala um að það vantaði stelpu

Bravó-ævintýrið varð mjög stutt og fór svo að 365 keypti stöðina af Simma og félögum. Salka var þá ekki viss um næstu skref en heyrði, óvart að hennar sögn, Dodda (Dodda litla) tala í símann um svolítið sem henni fannst áhugavert.
„Ég kynnist Dodda á Bravó og ég heyrði hann einu sinni tala í símann um að þeir væru að leita að konu til að leysa af um sumarið á Rás 2. Eftir að hann var búinn í símanum sagði ég „pick me, pick me,“ eins og lítill krakki enda langaði mig mjög mikið á Rás 2. Ég fór síðan að leysa Virka morgna af með Dodda í þættinum Sumarmorgnar og fannst það virkilega gaman. 
Ég hlakkaði alltaf til þess að mæta í vinnuna og gera eitthvað skemmtilegt fyrir þáttinn og byrjaði með Rappuppið þar sem ég rappaði fréttir vikunnar á föstudögum. Þetta allt varð síðan til þess að Frank (dagskrárstjóri Rásar 2) bauð mér að koma inn í Popplandið.

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Aðrir pæla meira í því að ég sé kona

Kvenmenn hafa ekki verið áberandi í þáttastjórnandastólum Popplands í gegnum árin og þaðan af síður hafa konur verið áberandi sem rapparar á Íslandi. Salka segist þó pæla lítið í þessum hlutum sjálf og finnst fólk oft velta kvenhlutverkum of mikið fyrir sér.
„Ég er ekkert, já, að núna sé kona komin í Popplandið. Við erum þrjú sem vinnum náið saman og eru þeir Matti og Óli Palli búnir að vera ótrúlega næs og kenna mér á allt þarna og er ég bara endalaus þakklát fyrir að fá þetta tækifæri. Ég er síðan líka með þáttinn Hanastél með Dodda á laugardögum og er þetta virkilega gaman.


    Þegar ég var lítil tók ég upp á kassettur og æfði mig í að kynna lög sem er fáránlegt því ég ætlaði mér aldrei að verða útvarpsmaður. Ég grúskaði samt mikið í tónlist og fékk pabba til að kaupa fyrir mig geisladiska. Ég hafði líka mjög gaman að því að kynna lög fyrir fólki.

    Mér finnst aðrir pæla meira í því að ég sé kona. Það þarf ekki alltaf að taka það fram að maður sé kona eða karl. Auðvitað erum við mismunandi en í sumu skiptir það engu máli. Í ótrúlegustu hlutum þarf maður að taka það fram hvort maður sé karl eða kona eins og þegar maður er að fá sér e-mail eða eitthvað. Eftir að ég byrjaði í útvarpinu hefur fólk verið að koma til mín og segja að ég sé flott og sterk kona en ég er bara nákvæmlega eins og ég er en það tók samt mörg ár að leyfa mér að vera alveg ég. Stundum þegar ég hugsa um þetta skil ég ekki alveg hvernig þetta gerðist. Maður þarf ekkert að vera feiminn við það að viðurkenna að maður hafi hæfileika. Það er oft þannig, sérstaklega hjá konum, að það er einhver innprentuð hógværð sem þarf alltaf að passa sig á. Ég hef stundum sagt að ég sé „late bloomer“ en það er líka bara kostur því þó það hafi tekið mig langan tíma að finna mig þá fannst mér ég samt finna hina réttu mig.“

LífstíllStúdentablaðið