Spænsk tónlistarhátíð í íslenskum píramída

Tónlistarhátíðin Sónar er upprunalega frá Barcelona, eins og ég. Þegar ég bjó þar var ég vanur að fara og hlusta á góða tónlist, til að mynda Björk, Air og Massive Attack. Sem rithöfundur fór ég líka til að fylgjast með nýjum straumum og stefnum og stórfurðulegu áhorfendunum. Í þá daga var fólk með svo óvenjulegar og furðulegar hárgreiðslur, húðflúr og fatastíl að það var engu líkara en það væri í dulargervi. Þau nutu að sjálfsögðu mikillar athygli tískulögga sem komu víða að. En lífið tekur óvæntar stefnur og líkt og ég hafði aldrei ímyndað mér sjálfan mig hjóla um í Reykjavík á dimmum morgnum á leiðinni í Háskólann, hafði ég aldrei ímyndað mér  að sama tónlistarhátíð myndi eiga sér stað í þessari borg. Sónar í Reykjavík er líka tískusýning. Ég áttaði mig fljótt á því að gallabuxur rifnar á hnjánum voru ekki í tísku lengur. Tískan núna voru upplitaðar buxur frá hnjám og niður og að skreyta sig í framan með litlum skærum steinum.

Fútúrískur píramídi kjörinn tónleikastaður

Þennan föstudag var ég svo spenntur að ég mætti mjög snemma á tónleikana. Það voru örfáir á staðnum og enginn vogaði sér að henda tómum dósum á gólfið. Ég áttaði mig fljótlega á því að Harpa er mjög ákjósanlegur staður til að halda raftónlistarhátíð. Fútúrísk hönnun hússins og staðsetningin miðsvæðis minnti mig á MACBA, bygginguna þar sem hátíðin var haldin í fyrsta sinn í Barcelona. Það er samt eitthvað sérstakt við Hörpu. Það er eins og að fara inn í píramída með fullt af hurðum, stigum og göngum þar sem auðvelt er að villast, jafnvel í leit að salerni, sérstaklega ef maður er búin að fá sér nokkra bjóra.

Drakk bjór með borgarstjóranum

Þegar ég kom inn í tónleikasalinn var fólk þegar farið að dansa. Ég var svo nálægt sviðinu að ég hugsaði með sjálfum mér: Je minn, ég get næstum því snert söngvarann, eitthvað sem hefði verið fráleitt á Spáni. Mugison, með Móses skeggið sitt, var í köflóttri skyrtu og söng einn fyrir framan hljóðgervil. Fólkið horfði á hann líkt og hann væri dæmigerðasta manngerð Íslands; Það eina sem vantaði upp á útlitið var lopapeysa. Ég varð aftur undrandi þegar ég sá að ég stóð við hliðina á borgarstjóra Reykjavíkur. Hann var slakur, ekki með neina lífverði með sér, og drakk bjór. Ég var á barmi þess að biðja hann um selfie en var ekki búinn að fá mér nógu marga bjóra. Við vorum báðir þarna þar til uppklappslagið var búið. Mugison hafði mikil áhrif á mig.

Hoppandi unglingar og kaldhæðinn texti

Seinna á tónleikunum hjá Fufanu, sem minnti mig á Depeche Mode, rakst ég á Einar Örn Benediktsson úr Sykurmolunum. Mágur minn sagði mér að hann væri faðir söngvarans sem hoppaði á sviðinu og kallaði sig Kaktus. Glæsilegt! Ég fór líka á tónleikana hjá Sophie, af kynslóð Steve Aoki, sem reyndist vera karlmaður. Stemmingin var góð en ég verð að viðurkenna að ég átti bágt með að grípa taktinn á þeim fimmtán mínútum sem ég var þarna umkringdur unglingum sem dönsuðu eins og brjálæðingar. Allar hljómsveitirnar voru frábærar en flutningur Prins Póló var að mínu mati of seint í dagskránni eða klukkan 23. Söngtextarnir voru tilfinninganæmir og kaldhæðnir eins og venjulega en takturinn var ekki nógu hraður til að hvetja fólk til að dansa. Því miður.

Í vitlausri landsliðstreyju

Jordi Pujolá

Jordi Pujolá

En aðal ástæðan þess að ég fór á hátíðina var til að sjá Paul Kaulbrenner. Hann fór geyst af stað eins og raketta og fólk dansaði eins og í myndinni Berling Calling. Þetta var hápunktur kvöldsins. Samt sem áður hætti tónlistin skyndilega. Ég veit ekki hvað gerðist. Ég veit bara að það tók hann langan tíma að koma sér aftur á flot og hann komst aldrei almennilega á sporið aftur. Kannski hefðum við getað fyrirgefið honum það ef hann hefði klæðst íslensku landsliðstreyjunni, því allir aðdáendur hans vita að hann klæðist alltaf landliðstreyju heimamanna þegar hann spilar á tónleikum. En í þetta skiptið var hann í þýskri treyju. Það voru stór mistök, vinur minn.

Sumir hlutir breytast ekki

Áður en Paul var búinn fór ég og kíkti á tónlist Ninu Kraviz í kjallara rannsóknarstofu Sónar. Það var svo dimmt á tónleikastaðnum hennar að ég gat varla séð framan í manninn sem dansaði beint fyrir framan mig. DJ Thor var líka á sviðinu, falinn á bak við flösku af Reyka Vodka, og ég fékk löngun til að deila nokkrum skotum með honum. Á þessum tímapunkti rúlluðu dósir um gólfið og bjórinn hélst ekki kaldur. Að lokum pantaði ég mér leigubíl. Á leiðinni út gekk ég fram hjá pylsuvagni eins íslenskur og ég kann að vera. Mér fannst það svekkjandi þar sem mér finnst pylsur góðar og ég var orðinn þreyttur á því að borða kjúklinga smørrebrød, sem var það eina sem var í boði á barnum. Þegar ég var kominn út á götu veitti ég upplýstri framhlið Hörpu athygli og fann fyrir stolti yfir því að búa í Reykjavík, svölustu borg í heimi. Ég var svo glaður að ég reyndi að tala íslensku við bílstjórann en hann var frá Hvíta-Rússlandi og byrjaði að hlæja. Mér fannst það góðs viti og fór líka að hlæja. Þegar ég kom heim og fór úr skónum sá ég að sólarnir voru þaktir tyggjóklessum. Sumir hlutir breytast ekki hvort sem þú býrð í Reykjavík eða Barcelona.

MenningJordi Pujolá