Öskubuska er hryllingssaga
Stúdentaleikhúsið frumsýndi leikritið Öskufall þenn 12. nóvember síðastliðinn en leikritið er byggt á ævintýrinu um Öskubusku. Höfundur verksins er Tryggvi Gunnarsson en hann situr einnig í leikstjórastólnum. Tryggvi útskrifaðist úr Akademi for Scenekunst í Noregi árið 2010 og hefur verið virkur í leikhúslífinu bæði á Íslandi og í Noregi.
Öskubuska nútímans er hryllingssaga
Samkvæmt Maríu Rós Kristjánsdóttur og Hildi Ýri Jónsdóttur, formönnum Stúdentaleikhússins, er Öskubuska ekki hugarfóstur Walts Disney, eins og margir kunna að halda, heldur er ævintýrið mun eldra. „Öskubuska er ævafornt ævintýri en í dag þekkjum við það eins og Disney segir okkur frá því. Forna sagan á lítið sem ekkert skylt við glansmyndina.“
„Í dag hefur sagan af Öskubusku þann boðskap að konur finna sér draumaprins ef þær eru góðar, undirgefnar og duglegar að þrífa. Í Öskufalli segjum við söguna upp á nýtt. Hvernig hefur tilvist Öskubusku áhrif á prinsinn, kónginn eða stjúpsysturnar? Öskubuska er ekki lengur ævintýri heldur hryllingssaga,“ segja þær.
Ádeila á samfélagslegar kröfur
Aðspurðar um hvort líkindi séu milli uppfærslunnar og upprunalegu sögunnar segja María og Hildur að samfélagslegir staðlar nútímans séu meginviðfangsefni Öskufalls. „Leikritið fjallar um samfélagið og þá pressu sem við setjum á sjálf okkur og aðra. Við virðumst þurfa að vera fullkomin og falleg til að ná langt í lífinu, alveg eins og Öskubuska,“ segja þær.
María og Hildur taka það þó fram að tilvist og ímynd Öskubusku eins og hún kemur áhorfendum fyrir sjónir í Öskufalli geti jafnt haft áhrif á konur sem karla þótt Öskubuska sé vissulega kvenpersóna.
Í fullu námi samhliða formennskunni
María og Hildur eru báðar í fullu námi í HÍ, María er nemi í grunnskólakennarafræði en Hildur í mannfræði. Þær gegna formennskunni saman en Stúdentaleikhúsið setur upp tvær sýningar á ári, eina að hausti og aðra að vori. Þær segja að annríkið sé mikið enda stórmál að setja upp leiksýningu.
Öskufall er afrakstur þriggja mánaða vinnu en fjöldi manns kemur að sýningunni. „Ferlið er búið að vera skemmtilegt, strembið og lærdómsríkt. Við breyttum tómu rými í leikhús í einum bragganna í gömlu kartöflugeymslunum við Rafstöðvarveg. Það skemmtilegasta við Stúdentaleikhúsið er það hvað allir fá að kynnast öllum hliðum leihússins. Við búum saman til leikmynd, búninga og höfum þannig öll áhrif á lokaútkomuna. Það er búið að vera brjálað að gera en allt þess virði.“
María og Hildur segjast vera stoltar af Öskufalli og eru ánægðar með viðbrögð áhorfenda. „Viðtökurnar hafa verið frábærar. Það er gaman að heyra fólk velta fyrir sér tilvist Öskubusku eftir sýningar. Sýningin er í rauninni gagnrýni á samfélagið sem við búum í og áhorfendur virðast upplifa það sterkt. Það er líka svo hollt að horfa á ævintýri sem við þekkjum svo vel út frá nýju sjónarhorni.“
Áhugasamir geta enn tryggt sér miða á leikritið en síðustu sýningar verða núna 25., 27., og 28. nóvember. Hægt er að kaupa miða á tix.is. Aðrar upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu Stúdentaleikhússins.