Helgi Hrafn: „Ég var algjör tossi“
Á kaffihúsi nokkru staðsettu steinsnar frá Alþingishúsinu mælti blaðamaður sér mót við Helga Hrafn Gunnarsson, formann þingflokks Pírata. Þegar hinn hárprúði tölvunjörður gekk glaður í bragði inn um dyrnar, hversdagslega klæddur og með bakpoka kyrfilega merktan lógói Pírata, er nokkuð óhætt að álykta að þeir fjölmörgu ferðamenn sem á kaffihúsinu sátu hafi ekki grunað að þar færi þingmaður og leiðtogi stjórnmálaflokks sem nýtur mests fylgis allra flokka á Íslandi.
Helgi fagnar að sjálfsögðu velgengni Pírata en með auknu fylgi flokksins hefur verkefnum hans fjölgað gífurlega og ber síhringjandi sími hans vott um það. Skýringuna á fylgisaukningu Pírata telur hann einfaldlega vera þá að fólk vilji fá lýðræðisumbætur og breytingar á kerfinu. „Það er auðvelt að kenna spilltum stjórnmálamönnum um en það felst engin lausn í því. Vandinn hlýtur að vera djúpstæðari. Það voru aðrir flokkar við völd á síðasta kjörtímabili þannig að það er búið að prófa að skipta út fólki. Vandinn er rótgrónari og liggur í kerfinu sem við vinnum eftir. Við Píratar höfum lagt áherslu á lýðræðisumbætur og endurskoðun stjórnarskrár en þau mál hafa verið í algjörum dvala.
Við erum komin í nákvæmlega sama farið og fyrir hrun og það gengur ekki að Alþingi njóti aðeins trausts 18% kjósenda. Ef lýðræðislegar stofnanir nóta nær einskis trausts er hættan sú að þróunin verði í átt að valdhyggju. Við þurfum að hætta að kenna fólki um og átta okkur frekar á því hvernig við lögum hlutina. Við höfum lagt til að ein leið til lýðræðisumbóta sé málskotsréttur þjóðarinnar og frekari aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds.“
Helgi segir Alþingi vera óskipulagðan vinnustað sem einkennist af valdhroka og leiðindum og því vill hann breyta. „Umræður verða alltaf lengri og lengri ef ekkert er hlustað. Upp á síðkastið hefur ríkisstjórnin einkennst af því að hún lítur á Alþingi sem afgreiðslustofnun, sem ef ekki gerir eins og henni er sagt þá verður sniðið framhjá því. Gott dæmi um þetta er ESB-málið,“ segir Helgi.
Gæti sagt Sjálfstæðisflokkinn landráðsflokk
Athygli vakti þegar Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á dögunum að fylgi Pírata væri með öllu óskiljanlegt, enda kenndi flokkurinn sig við skipulagða glæpastarfsemi. Helgi hafnar þessari tengingu og segir hana vera algjörlega innihaldslausa. „Hversu mikið vill maður vera að karpa um það hvaða nöfnum fólk er að kalla hlutina? Ég gæti alveg sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi snúist um landráð á sínum tíma. Það er hins vegar jafn innihaldslaust og þessi yfirlýsing Vilhjálms. Við [Píratar] erum ekki að réttlæta lögbrot heldur benda á það að löggjöfin og útfærslan á höfundarrétti er í mótsögn við upplýsingafrelsi og það kemur því ekkert við hvort fólk þurfi að borga fyrir efnið eða ekki, það er aukaatriði. Ef allir borguðu fyrir efnið þá væri það frábært en tilfellið er að núgildandi hugmyndir um útfærslu á höfundarrétti stangast á við upplýsingafrelsið. Þá hljótum við að spyrja okkur hvort við ætlum að takmarka upplýsingafrelsi eða endurskoða höfundarrétt. Ég veit ekki af hvaða ástæðum Vilhjálmur lítur á það sem skipulagða glæpastarfsemi. Við erum bara að tuða yfir einhverjum orðum.“
Kennarar ættu að vera viðbjóðslega vel launaðir
Helgi Hrafn hefur róttækar skoðanir þegar kemur að menntamálum og málefnum stúdenta og dregur í því samhengi mikinn lærdóm af sinni eigin skólagöngu. „Ég er óttalegur menntakommi. Mér finnst að kennarar ættu að vera það viðbjóðslega vel launaðir að það valdi öfund í samfélaginu og að allir hafi aðgang að þeirri menntun sem þeir vilja. Það er auðvitað bara mín skoðun og ekki endilega allra Pírata. Að því sögðu þá er ég sjálfur drop out. Ég var algjör tossi, hrökklaðist úr menntaskóla vegna þess að ég valdi nám sem ég hafði ekki áhuga á en ég hef frekar lært upp á eigin spýtur. Áhugi er svo sterkur drifkraftur en það er lexía sem ég hafði ekki lært á þessum tíma.
Mikilvægast finnst mér að menntakerfið sé bara nógu fjandi vel fjármagnað og mér finnst allt í lagi að það sé ekki hámarksnýting á fé þegar kemur að menntun. Fólk þarf svigrúm til að gera mistök og skipta um skoðun. Menntun er besta jafnaðartæki sem til er og jafnframt það sanngjarnasta. Fátækasti krakkinn í hverfinu á að geta orðið hagfræðingur eða hvað sem hann vill án þess að það þurfi að vera einhver rómantísk kraftaverkasaga.“
Þingmaðurinn fer svo sannarlega sínar eigin leiðir í pólítik og er frábrugðinn hinum dæmigerða stjórnmálamanni á margan hátt. Aðspurður um hvort hann sé ljóti andarunginn í stjórnmálunum hlær hann – „Ég veit það ekki, ég reyni að dæma ekki sjálfan mig. Ég sé bara út um augun, sjáðu til. Ég trúi hreinlega ekki á sjálfsmat. Ég geri bara það sem ég tel rétt hverju sinni en aðrir geta svo metið hvað þeim finnst um það,“ segir Helgi Hrafn að lokum.
Texti: Hafdís Una Guðnýjardóttir
Mynd: Adelina Antal