Nokkur orð til hins loftslagsþenkjandi lesanda

Þýðing: Lísa Margrét Gunnarsdóttir

Loftslagsváin virðist óyfirstíganlegt vandamál. Hvert sem við förum erum við minnt á þær yfirvofandi hörmungar sem mannkynið hefur kallað yfir sig, sem og vanmátt okkar til að koma í veg fyrir þær. Þrátt fyrir að sannleikur sé fólginn í þessu sjónarhorni, þá er það ekki rétta leiðin til að horfa á málið. Mannfólk er lausnamiðað af náttúrunnar hendi, mögulega enn fremur en nokkur önnur dýrategund. Það er með þennan eiginleika að vopni sem við höfum byggt upp samfélögin okkar og gjörbreytt ásýnd plánetunnar okkar. Nú stöndum við eflaust frammi fyrir stærsta vandamáli mannkynssögunnar og í stað þess að leggja upp laupana þá verðum við að hugsa í lausnum. Okkur sem erum að ljúka námi og stíga inn á vinnumarkaðinn um þessar mundir finnst ef til vill ósanngjarnt að við þurfum að leysa vandamál sem fyrri kynslóðir hafa skapað. Eins óréttlátt og það kann að hljóma, þá er það á valdi okkar, sem búum yfir þekkingu á sviði loftslagsmála, að hafa áhrif í baráttunni gegn loftslagsvánni. 

Nemendur úr áfanganum UAU207

Það er fjölmargt sem við getum gert til að hafa áhrif á samfélagið. Til þess að sporna gegn áhrifum loftslagsbreytinga þarf mannkynið allt að skilja hvað er í húfi . Það er skylda okkar sem erum vel að okkur í loftslagsmálunum að upplýsa fólkið í kringum okkur – og nálgast fræðsluna frá jafningjagrundvelli, ekki af háum hesti. Sameiginlegum skilningi á vandanum er einungis náð með því að veita fólki þau tól sem þarf til að skilja og gera sér grein fyrir vandamálinu. Við komumst hvergi með því að predika yfir fólki og ávíta það fyrir að vita ekki allt sem þarf til – heldur með því að vera fyrirmyndir í sjálfbærum lifnaðarháttum. Við getum búið til pláss fyrir umræður um loftslagsmál með því að vera ávallt opin fyrir jákvæðum samræðum, sem og með því að skipuleggja alls kyns samkomur sem gefur fólki tækifæri til að ræða málin og deila sinni vitneskju. Jafnvel enn mikilvægara er að hlúa að forvitni og sjónarhorni barnanna sem nú eru að læra á heiminn. Við þurfum að leggja áherslu á að kenna þeim – og getum lært af þeim í leiðinni – að virða náttúruna og koma vel fram við plánetuna okkar. Sem fyrirmyndir á sviði umhverfismála gegnum við einnig mikilvægu hlutverki við að breyta landslaginu, bæði í opinbera geiranum og í einkageiranum. Unga kynslóðin hefur vald til að breyta því sem er til umræðu innan fyrirtækja og markmiðum þeirra og taka upp sjálfbæra, mannlega nálgun í stað þeirrar nálgunar sem miðar aðeins að vexti. Innan okkar kynslóðar eru einnig stjórnmálamenn framtíðarinnar, sem munu þurfa að beina kröftum sínum að því að berjast gegn þeirri ógn sem að okkur steðjar vegna loftslagsbreytinga, með samvinnu þvert á stjórnmálaflokka og lönd. Frjáls félagasamtök munu einnig gegna stóru hlutverki þegar kemur að baráttunni gegn þeim vandamálum sem tilkomin eru vegna loftslagsbreytinga og sú vinna verður að fara fram undir stjórn loftslagsþenkjandi fólks. 

Ljóst er að mikill þrýstingur verður settur á yngri kynslóðir til að gera róttækar breytingar á stefnu mannkyns. Það getur verið erfitt að takast á við þennan þrýsting og loftslagskvíði er nú þegar vaxandi vandamál, sérstaklega meðal ungs fólks. Við getum ekki tekist á við þetta verkefni ef við erum ekki á góðum stað andlega. Þau menningarlegu umskipti sem þurfa að eiga sér stað til að hægt sé að mæta loftslagsvánni byggja á því að við lítum öll inn á við og finnum jafnvægið á milli sjálfbærni og þess sem við þurfum til að lifa góðu lífi. Einnig verðum við að sýna sjálfum okkur samúð (e. self-compassion) og vera meðvituð um þær sjálfbæru ákvarðanir sem við tökum. Það er fjölmargt sem við getum gert til þess að lifa sjálfbærara lífi, við getum til dæmis hægt á neyslu okkar og gert við hluti í stað þess að kaupa nýja. Í grunninn þurfum við að hægja á hugum okkar,  endurskoða forgangsröðun okkar og spyrja okkur hvort að neyslumiðaður lífsstíll geri okkur í raun og veru hamingjusöm? Með því að efla tengingu okkar við náttúruna og fólkið í kringum okkur, og með því að leitast við að finna sátt og nægjusemi í okkar daglega lífi, getum við upplifað dýpri og innihaldsríkari hamingju. Frá upphafi iðnvæðingarinnar hefur mannfólkið smám saman fjarlægst náttúruna. Með því að hlúa að tengingu okkar við hið náttúrulega umhverfi getum við öðlast dýpri skilning á náttúrunni og væntumþykju fyrir jörðinni okkar, sem og sátt við okkar stað í veröldinni.

Hin yfirvofandi barátta til bjargar loftslaginu okkar mun koma til með að vera ein erfiðasta áskorun sem mannkynið hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir. Til að yfirstíga þá áskorun verðum við að hnika til núverandi lífstílsmynstri okkar og taka þeim afleiðingum sem því mun fylgja. Við þurfum einnig að sýna samúð með okkur sjálfum og hvort öðru. Við munum öll þurfa að taka höndum saman – þetta verkefni mun krefjast samstarfs af áður óþekktri stærðargráðu. Með allt þetta á bak við eyrað verðum við, sem leiðtogar framtíðarinnar, að leiða baráttuna með góðvild og samúð að leiðarljósi.