Panama og Rauðahaf: tveir flöskuhálsar alþjóðaviðskipta

Tvær af mikilvægustu samgönguæðum alþjóðaviðskipta hafa verið í lamasessi á undanförnum vikum og mánuðum, með þeim afleiðingum að framleiðslukeðjur hafa raskast. Það eru annars vegar Panamaskurðurinn í Suður-Ameríku, sem tengir Atlantshafið í austri og Kyrrahafið í vestri, og hins vegar Rauðahaf sem tengir Arabíuhaf í suðri og Miðjarðarhaf í norðri, með aðstoð Súes-skurðsins sem liggur frá Miðjarðarhafi yfir í Rauðahaf. Í tilviki Panama er um að ræða afleiðing loftslagsbreytinga, en viðvarandi þurrkar þar í landi hafa leitt til þess að starfsemi skurðsins hefur raskast og stjórnvöld hafa neyðst til að setja hömlur á umferð skipa í gegnum skurðinn. Í Rauðahafi er hins vegar um vopnuð átök að ræða þar sem Hútar, uppreisnarmenn sem náðu nýlega völdum í Jemen, hafa staðið fyrir árásum á skip á svæðinu, að eigin sögn í þeim tilgangi að mótmæla árásum Ísraela á Gaza.



Átök í Rauðahafi: eftirköst innrásarinnar í Írak?

Skip sem eru á leið frá Asíu til Evrópu sigla gjarnan í gegnum Rauðahaf og Súes-skurðinn, en þar sigla daglega um 60 flutningaskip, eða sem nemur 30% af umferð gámaskipa í heiminum, auk þess sem um 8 milljónir olíutunna eru fluttar þessa sömu leið á hverjum degi. Mörg af þessum skipum neyðast nú til að fara lengri leiðina og sigla þannig alla leið suður fyrir Afríku (Góðrarvonarhöfða) en sú leið er allt að 11.000 kílómetrum lengri og lengir siglingatímann um allt að tvær vikur. Árásir Húta á skip í Rauðahafi hafa leitt til þess að mörg skipafélög hafa kosið að fara lengri leiðina, og í janúar hafði magn vöruflutninga í gegnum Rauðahaf dregist saman um 78% samkvæmt alþjóðlegu stofnuninni á sviði hagfræði við háskólann í Kiel (Kiel Institute for the World Economy).

Bab al-Mandeb sundið við suðurenda Rauðahafs er aðeins 32 kílómetrar á breidd og því hefur reynst nokkuð auðvelt fyrir Húta að ná stjórn á skipaumferð þar í gegn, en þeir hafa gert um 40 árásir á skip við sundið eða í nágrenni þess síðan í nóvember. Hútar segjast með þessu vera að styðja málstað Palestínu, en eins og kunnugt er hefur Ísrael verið að heyja blóðugt stríð í Gaza frá 7. október í fyrra, þar sem allt að 30.000 Palestínumenn hafa verið myrtir. Þau sem þekkja til sögunnar og stjórnmála í Jemen hafa þó dregið í efa að samúð með Palestínumönnum sé helsta ástæðan fyrir þessum árásum Húta og telja að Hútar gætu verið að leita leiða til að styrkja stöðu sína í Jemen, og um leið að reyna að öðlast viðurkenningu á alþjóðasviðinu, enda sé stjórn þeirra í landinu ekki viðurkennd af neinu ríki heims enn sem komið er. Þar að auki sé mikil samúð með Palestínumönnum meðal borgara í Jemen og orðræða Húta hafi reynst áhrifarík leið til að öðlast viðurkenningu almennings.



Hútar ‒ Hverjir eru þeir?

Fyrstu Hútarnir voru uppreisnarmenn frá Norður-Jemen sem börðust gegn alræðisvaldi Ali Abdullah Saleh forseta Jemens á tíunda áratug síðustu aldar og voru nefndir eftir leiðtoga sínum Hussein al Houthi. Um var að ræða tiltölulega fámennan hóp uppreisnarmanna sem naut takmarkaðs trausts meðal almennings í landinu en harkan sem Saleh forseti greip til í baráttu sinni gegn Hútum, ásamt spillingunni sem grasseraði hjá stjórnvöldum landsins, gerði það að verkum að margir borgarar studdu Húta.

Stríðið gegn hryðjuverkum og innrásin í Írak sem George Bush yngri stóð fyrir árið 2003 herti Húta enn frekar í sínum aðgerðum og kynti undir andúð borgaranna gagnvart Bandaríkjunum. Hútar gátu þannig stillt sér upp sem einhvers konar andspyrnuhreyfing sem barðist bæði gegn spilltum stjórnvöldum innanlands og árásargjörnum Bandaríkjamönnum utanlands. Að því leyti eru núverandi árásir Húta í Rauðahafi hluti af langri röð óbeinna afleiðinga innrásarinnar í Írak.

Saleh forseta tókst loks að losa sig við Hussein al Houthi árið 2004 en þrátt fyrir hvarf hans reyndust fylgismenn hans ósigrandi og átökin geisuðu áfram. Arabíska vorið árið 2011 færði Hútum enn frekari byr undir vængi. Að lokum hrökklaðist Saleh frá völdum árið 2012 en í hans stað kom Abdrabbuh Mansour Hadi varaforseti, sem Hútar reyndust þó hafa enn meiri óbeit á, og kaldhæðni örlaganna varð til þess að nýtt bandalag myndaðist eftir að Hútar og Saleh, sem höfðu hingað til verið svarnir óvinir, fóru í leynimakk gegn Hadi sem varð fljótlega afar óvinsæll leiðtogi í landinu.




Pólitískur óstöðugleiki, loftárásir og blóðug borgarastyrjöld 

Borgarastyrjöld braust út árið 2014 og uppreisnarbandalag Húta og forsetans náði fljótt stærra landsvæði á sitt vald með þeim afleiðingum að höfuðborgin Sanaa féll í hendur uppreisnarmanna í janúar 2015. En yfirvöldum í Sádí-Arabíu leist illa á sigra Húta ‒ sem voru studdir af Írönum, erkifjendum Sádí-Araba ‒ og hófu þá stríð gegn Hútum í samkrulli við nokkra bandamenn, þar á meðal Bandaríkjanna undir stjórn Obama, en þá hófust miklar loftárásir á Jemen. Nokkru síðar snerist Saleh aftur gegn Hútum og var að lokum ráðinn af dögum.

Í dag ráða Hútar yfir stærstum hluta vestur-Jemens, en borgarastríðið hefur leitt til hungursneyðar og hörmunga fyrir stóran hluta íbúa þessa lands, sem bjuggu nú þegar í einu fátækasta ríki á jörðinni áður en borgarastríðið hófst. Með því að stilla sér upp sem frelsarar gegn kúgun Bandaríkjamanna, Sádí Araba og Ísraela hefur Hútum tekist að tileinka sér hlutverk Davíðs í baráttunni gegn Golíat og þannig afla sér töluverðs fylgis á meðal almennings. Rauðahaf og Bab al-Mandeb sundið eru eitt mikilvægasta tromp í baráttu þeirra fyrir völdum og viðurkenningu.





Panamaskurður: þegar loftslagið tekur mannlega innviði kverkataki

Vandræðin sem hafa komið pp við Panamaskurðinn eru aftur á móti allt annars eðlis. Hér eru loftslagsbreytingar af mannavöldum helsti sökudólgurinn, en forsenda þess að skurðurinn geti haldið starfsemi sinni áfram er að næg úrkoma sé á svæðinu í kringum skurðinn, sem því miður hefur ekki verið tilfellið á síðustu árum. Í venjulegu árferði fara um 5% af sjóflutningum í heiminum í gegnum Panamaskurðinn, þar á meðal skip sem eru á leið frá vesturströnd Bandaríkjanna til Evrópu, en lengri leiðin í kringum Suður-Ameríku bætir við 15.000 kílómetrum eða sem nemur 18 dögum.

Vegna þess mikilvæga hlutverks sem skurðurinn þjónar fyrir sjóflutningar geta yfirvöld í Panama rukkað stórar upphæðir fyrir réttinn til að sigla í gegnum hann. Árið 2022 þénaði Panama yfir 4 milljarða Bandaríkjadala í þóknunum vegna skurðsins, sem samsvarar um 6.5% af landsframleiðslu Panama. Samfélagið í Panama byggir sína tilveru á skurðinum, enda búa flestir íbúar landsins við bakka hans, og ríkið er eitt af þeim ríkustu í Suður-Ameríku. Þurrkar byrjuðu þó að setja strik í reikninginn árin 2023 og 2024, en síðan þá hefur umferð um skurðinn dregist mikið saman.





Eins og laxastigi á stórum skala

Til að komast leiðar sinnar í gegnum þá 82 kílómetra af landi sem aðskilja Kyrrahafið frá Atlantshafi þurfa skip að skríða upp í nokkurs konar risavaxinn laxastiga sem samanstendur af nokkrum opnanlegum tröppum, þar sem hægt er að hækka og lækka yfirborð vatnsins. Þegar skip hefur stigið upp þessar tröppur siglir það í gegnum Gatun-vatnið sem stendur 26 metrum yfir sjávarmáli og stígur síðan aftur niður samskonar tröppur hinum megin við vatnið (sjá mynd).

Til þess að hækka og lækka vatnsborðið í tröppunum þarf að hleypa vatni úr manngerðum miðlunarlónum (Gatun-vatni og Alajuela-vatni) sem síðan rennur út í sjó. Hver sigling í gegnum skurðinn kallar á 200 milljónir lítra af vatni sem hleypa þarf niður að sjó. Í venjulegu árferði dugar rigningin til að sjá miðlunarlónunum fyrir nægilegu vatni, en ef úrkoma er lítil þornar skurðurinn upp, sem byrjaði einmitt að gerast á árunum 2023 og 2024, enda var skurðurinn hannaður og byggður fyrir meira en hundrað árum þegar loftslagsbreytingar voru ekki ofarlega í huga verkfræðinga. Eftir viðvarandi þurrka hefur yfirborð Gatun-vatnsins lækkað niður í áður óþekkta stöðu. Íbúar landsins vonast eftir betri regntíð á þessu ári en veðurfræðingar telja töluverðar líkur á því að þurrkarnir haldi áfram út árið 2024.




Neysluvatn eða skipaumferð: af tvennu illu…

Auk þess að sjá skurðinum fyrir nauðsynlegu vatnsflæði er Gatun-vatnið líka helsta vatnsból íbúa Panama (4.5 milljónir íbúa). Þetta þýðir að stjórnvöld landsins þurfa að gera upp við sig hvort þau vilji frekar skerða framboð vatns til skurðsins, með tilheyrandi tekjutapi fyrir þjóðina alla, eða skammta íbúum neysluvatn, en hver skipaferð í gegnum skurðinn jafngildir daglegri vatnsneyslu um 500.000 íbúa. Hingað til hafa yfirvöld kosið að skerða frekar starfsemi skurðsins, með því að innleiða sífellt strangari takmarkanir á umferð skipa í gegnum skurðinn. Við eðlilegar aðstæður fá 36 skip leyfi til að sigla í gegnum skurðinn daglega, en kvótinn hefur verið lækkaður í skrefum, fyrst niður í 31 skip, síðan niður í 24 skip í janúar, en eftir að staðan batnaði örlítið í mars var kvótinn hækkaður aftur upp í 27 skip. Við þetta bætist að takmarkanir hafa verið settar á þyngd skipanna þar sem léttari skip þurfa á minna vatni að halda, og því sigla þau fáu skip sem komast í gegnum skurðinn með allt að 40% minni farm en venjulega. Þessar takmarkanir hafa valdið miklum truflunum og töfum á skipaflutningum milli heimsálfa.





Úr öskunni í eldinn

Fyrir 2023 höfðu skip val um að panta ferð í gegnum skurðinn nokkrum vikum fyrirfram eða mæta á staðinn og fara í röð, en þá var biðin sjaldan meiri en tveir dagar. Sú staða hefur hins vegar gjörbreyst: í lok 2023, eftir að stjórnvöld höfðu innleitt takmarkanir á umferð, lengdist biðin upp í allt að 12 daga og gríðarlegar biðraðir með allt að 120 flutningaskipum mynduðust við skurðinn, og nú þurftu þau skip sem vildu sleppa við biðröðina að bóka ferð mörgum mánuðum fyrirfram.

Skip sem mæta nú á staðinn hafa um þrjá kosti að velja: þau geta í fyrsta lagi borgað yfirvöldum landsins mútur til að komast fram fyrir röðina (í nóvember 2023 borgaði japanskt skip metupphæð fyrir réttinn til að komast fram fyrir röðina, nær 4 milljónir dollara). Mörg skipafélög hafa hins vegar valið annan valkost, sem felst í því að sleppa einfaldlega ferðinni í gegnum skurðinn og sigla þess í stað í kringum Suður-Ameríku suður fyrir Hornhöfða, í kringum Afríku suður fyrir Góðrarvonarhöfða eða í gegnum Rauðahaf og Súes-skurðinn (sá kostur fór hins vegar að jafnast við það að fara úr öskunni í eldinn eftir að Hútar hófu árásirnar sem fjallað var um hér að ofan). Þriðji kosturinn snýst um að bíða í röðinni við Panamaskurðinn, en sú bið getur varað vikum saman.

Staðan á Panama og í Rauðahafi þýðir að mörg flutningaskip eru nú miklu lengur á leiðinni en venjan hefur verið, með tilheyrandi kostnaði fyrir skipafélög sem endurspeglast síðan í hærri flutningskostnaði og verðbólgu. Hnattvæðing heimshagkerfisins hefur gert það afar viðkvæmt fyrir slíkum krísum, sem eiga vafalaust eftir að vara áfram og verða jafnvel algengari og alvarlegri eftir því sem beinar og óbeinar afleiðingar loftslagsbreytinga koma betur í ljós.