Leikskólarnir Sólgarður og Leikgarður sameinast
Félagsstofnun stúdenta rekur nú tvo leikskóla sem báðir eru staðsettir í stúdentagarðahverfinu á Eggertsgötu. Sólgarður er ungbarnaleikskóli, eingöngu ætlaður yngsta aldursflokki, og er eingöngu fyrir börn stúdenta við HÍ, en á Mánagarði geta hins vegar öll sótt um.
Leikskólarnir voru reyndar þrír þangað til nýlega, þegar byggingin sem hýsti Leikgarð var endurnýjuð og stækkuð og starfsemi Sólgarðs flutt þangað. Blaðamaður Stúdentablaðsins heimsótti Sólgarð og ræddi við Sigríði Stephensen leikskólastjóra.
„Félagsstofnun stúdenta hefur lagt mikinn metnað í leikskólareksturinn og foreldrar þeirra barna sem hér dvelja á daginn eru yfirleitt mjög ánægð með starfsemina, enda er aðstaðan mjög góð og starfsfólkið sinnir hlutverki sínu af fagmennsku, alúð og samviskusemi,“ segir Sigríður.
„Þetta eru faglegir, fallegir og vel viðhaldnir leikskólar sem njóta mikilla vinsælda.“
Allir nemar í HÍ geta sótt um leikskólapláss á Sólgarði.
„Það getur hins vegar verið svolítil bið þar sem biðlistarnir eru frekar langir, en núna til dæmis eru um 200 börn skráð á biðlista,“ segir Sigríður.
Starfsfólk á Sólgarði telur yfir 40 manns, en sum eru sjálf nemendur við HÍ.
Samkvæmt samningum við Reykjavíkurborg eiga allir námsmenn sem eiga börn á leikskólaaldri rétt á námsmannaafslætti af leikskólagjöldum, en skilyrði fyrir því er að báðir foreldrar séu í námi og hvor þeirra skráður í að minnsta kosti 22 einingar, en afslátturinn nemur um það bil 20.000 krónum á mánuði.
Leikskólar FS vinna samkvæmt hágæðauppeldisstefnunni HighScope. HighScope stefnan rammar inn alla áhersluþætti leikskólastarfsins með áhuga barnsins að leiðarljósi. Hlutverk kennarans er að styðja við barnið, efla áhuga þess og getu og starfsfólkið tekur virkan þátt í námi hvers barns fyrir sig.
„Það er virkt nám barnsins sem er leiðarljósið okkar og við styðjum við þeirra val og ákvarðanir,“ segir Sigríður.
Á Sólgarði eru 115 leikskólapláss fyrir eins til tveggja ára börn en plássin eru alltaf fullnýtt og börn allt að þriggja ára hafa þurft að dvelja í Sólgarði vegna skorts á leikskólaplássi í öðrum leikskólum. Í Mánagarði, hinum leikskólanum sem FS rekur, eru 127 pláss fyrir börn eins til sex ára, en börn sem byrja í Sólgarði flytja sig gjarnan yfir í Mánagarð við þriggja ára aldur.