Hvað mun breytast á Íslandi árið 2024?

Nýtt ár, nýtt upphaf, eins og skáldið sagði. Árið 2024 knýr að dyrum á Íslandi með breyttu verðlagi, sögulegri aukningu hvað varðar fólksfjölda og breytingum á löggjafarvaldinu. Hér er að finna allar helstu vendingar sem Ísland gæti staðið frammi fyrir á nýju ári. 


Íslendingar verða 400.000 og kjósa nýjan forseta

Áætlað er að á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 muni íbúafjöldi Íslands verða yfir 400.000 manns. Þegar þetta er ritað erum við einungis 10.000 manns frá því að ná þeirri tölu. Samkvæmt Hagstofu Íslands hefur fólksfjölgun orðið meiri en búist var við, en þessi tala var upphaflega talin raungerast árið 2050. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti þjóðinni að hann hygðist ekki gefa kost á sér að nýju í komandi forsetakosningum, og því segir hann skilið við stöðuna eftir 8 ár í embætti. Nýr forseti verður kjörinn í júní, en nokkrir einstaklingar hafa þegar tilkynnt forsetaframboð. Á Íslandi er hlutverk forseta að mestu táknrænt, og er honum fyrst og fremst ætlað að vera sameiningartákn Íslendinga. 

Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, lauk störfum þann 16. janúar síðastliðinn eftir að hafa gegnt hlutverki borgarstjóra í áratug. Oddviti Framsóknarflokksins, Einar Þorsteinsson, hefur tekið við og mun starfa fram að næstu borgarstjórnarkosningum árið 2026.




Hækkun verðs á sundferðum og sorptöku

Sveitarfélög hafa boðað hækkun á verði sorphirðu vegna innleiðingar nýs flokkunarkerfis rusls. Mesta hækkunin verður í Reykjavík, þar sem verð á tveimur tunnum hækkar úr 52.600 kr í 73.500 kr. Næsthæsta hækkunin verður á Seltjarnarnesi, þar sem gjaldið hækkar í 75.000 kr. Frá og með 10. janúar verður ekki lengur hægt að nálgast ókeypis poka fyrir lífrænt rusl í verslunum. Hægt verður að nálgast þá framvegis á endurvinnslustöðvum Sorpu auk Góða hirðisins. 

Í Reykjavík hefur verðið á leikhúsmiðum, heimsóknum í Húsdýragarðinn og stökum sundferðum einnig hækkað, en einstaklingsmiði hefur hækkað um 6% og kostar nú 1.330 kr. Árskort hækkar um 5,5%, og leiga á handklæðum og sundfötum hækkar einnig.

Snörp hækkun á farmiðagjaldi Strætó bs. hefur einnig átt sér stað, en það hefur hækkað um 11% að meðaltali - nú kostar stakt fargjald 630 kr. Fyrirtækið bar fyrir sig hækkun á eldsneytisverði, en verð utan höfuðborgarsvæðisins haldast óbreytt.

Aukin gjaldtaka af rafknúnum farartækjum og hærri áfengis- og tóbaksgjöld

Sveitarfélög hafa einnig boðað aukna gjaldtöku hvað varðar ýmsa þjónustu, en fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 var nýverið samþykkt af Alþingi og felur í sér ýmsar skattahækkanir. Áfengis- og tóbaksgjöld hækka um 3,5%, skattheimta bensínlítra eykst um 4,20 kr, á meðan dísel hækkar um 3,70 kr. Skattheimta hvað varðar fólksbíla hækkar um 30%, auk þess sem eigendur rafknúinna bíla munu greiða nýtt gjald fyrir hvern ekinn kílómetra - um 90.000 kr að meðaltali á ári.




Eigendur hybrid bíla, rafknúinna bíla og vetnisknúinna bíla munu nú þurfa að fylgjast með kílómetra fjölda bifreiða sinna og skrá þá í gegnum island.is í upphafi ársins 2024. Þetta ferli verður svo endurtekið einu sinni í mánuði. Samkvæmt íslensku ríkisstjórninni er þessi breyting tilkomin vegna lækkunar tekna ríkisins tengdum ökutækjum frá árinu 2018, og vaxandi þörf fyrir úrbætur og framþróun íslenska vegakerfisins. Kílómetragjald verður greitt mánaðarlega. Þau sem þessar breytingar snerta geta nálgast nánari upplýsingar á upplýsingasíðu stjórnvalda: „Vegir okkar allra“ (vegirokkarallra.is).


Mynd: Keflavíkurflugvöllur 


Ferðagjald Evrópusambandsins ekki í gildi fyrr en árið 2025

Evrópska ferðaupplýsinga- og heimildakerfið (ETIAS), sem upphaflega átti að taka gildi árið 2024, verður ekki tekið í gagnið fyrr en árið 2025 - svo ferðafólk utan Evrópusambandsins (ESB) mun ekki standa fyrir 7 evru ferðagjaldi strax. ETIAS-kerfið kemur í veg fyrir að ferðafólk sem er undanþegið vegabréfsáritun geti ferðast til landanna þrjátíu sem tilheyra Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Aðgangskröfur innan kerfisins gilda í 90 daga innan 180 daga tímabils. Þau sem hyggjast heimsækja Ísland verða því krafin um ETIAS-leyfi frá og með árinu 2025. ETIAS-kerfið mun þó ekki koma í stað vegabréfsáritana þeirra borgara sem þurfa nú þegar vegabréfsáritanir til þess að heimsækja lönd innan ESB og EES, svo sem ferðafólk frá Kína, Indlandi og Suður-Afríku. 

Greinin var upphaflega birt í Iceland Review.