Veröld sem varð

Á síðustu öld tóku bókmenntir gífurlegum stakkaskiptum, allt frá fin de siècle stefnunni í upphafi aldar, sem leit á siðmenningu sem úrkynjun, til sjálfshjálparbóka tíunda áratugarins. Önnur áberandi bókmenntastefna 20. aldar var vísindaskáldskapur og þér, lesönd þessa blaðs, veitist nú einstakt tækifæri til þess að skoða almenna yfirborðsgreiningu á vísindaskáldskap.

Algeng leikmannavilla er að líta á vísindaskáldsögur sem framtíðarspár; í raun áttu þær flestar að gagnrýna öfgafullar hugmyndir í búningi sem slapp undan ritskoðun. Þar sem mannskepnan er ófær um að takast á við tækninýjungar á ábyrgan hátt hafa sum stef þessara bóka fundið samleið með raunveruleikanum.

Frægasta dæmið er bókin 1984, sem er tíðrædd af taðskegglingum og lyklaborðsköppum svívirðilegra samfélagsmiðla á borð við Reddit og Facebook. Í sinni freudísku tilvistarmartröð óttast þeir mest Stóra Bróður (mann sem ber ábyrgð) og tengja sig persónulega við Winston Smith (fertugan, einmana mann). Þrátt fyrir að bókin sé oft notuð til þess að gagnrýna ákveðin lönd eða stofnanir (CIA, Kína, ríkisskattstjóra og fleiri), búum við í heimi þar sem allir valdhafar, óháð hugmyndafræði, njósna um einstaklinga hvenær sem færi gefst. Munurinn er sá að í 1984 eru það einungis ríki sem stunda njósnir, en í raunveruleikanum fá þau líka heilbrigða samkeppni um gagnasöfnun frá stórfyrirtækjum.

Þeir brjálæðingar sem lesa meira en eina vísindaskáldsöguskruddu á sinni aumu ævi vilja aukinheldur benda á Brave New World. Þar er meginstefið útrýming á ennui (l. tedium (d. kedsomhed (sp. aburrimiento (kl. tlhuH (ísl. leiðindi))))), þá helst í gegnum notkun á lyfinu SOMA. Þeir sem hafa ekki lesið bókina geta upplifað söguþráðinn með því að slökkva á símanum og skoða fegurð sköpunarverks Drottins vors… þangað til að þeim leiðist og vilja frekar horfa á Family Guy funny clips. Sú viðvörun við því að bæla niður leiðindi með tækni finnst einnig í Do Androids Dream of Electric Sheep? þar sem notkun samúðarkassa gerir samfélaginu kleift að upplifa þjáningar ímyndaðs manns að nafni Mercer. Það að upplifa þjáningar annarra og gera þær að sínum í gegnum kassa er hægt að gera á fjölbreyttan máta í nútímasamfélagi, til dæmis með því að skipta um prófílmynd á Facebook, deila glærum í story á Insta eða pósta með einhverju vinsælu myllumerki á hvaða samfélagsmiðli sem er. #timetoact #vote #wecandoit #climateaction. Það sem Brave New World og DADOES eiga sameiginlegt er viðvörun við því að fólk fjarlægist náttúruna og þrói með sér áráttu fyrir því að hunsa raunverulegt ástand með notkun tækninýjunga. Ert þú að lesa þetta í gegnum internetið?

Óháð því hvar þú lest þetta þá tilheyrir þú samfélagslegri elítu sem hugsar sjálfstætt. Um það erum við öll sammála. Vegna ómenningar styttist í að pólitísk ritverk eins og Hard Choices, What Happened og Back to Work verði brennd á báli af múg, rétt eins og í Fahrenheit 451. Sjálfur Barack Obama telur þá síðastnefndu vera eina bestu bók sem skrifuð hefur verið. Af ótta við hefndaraðgerðir munum við ekki mótmæla því. „Double tap“ ef þér líkar sú umsögn!

Nú á dögum fremja vélar ekki bara stríðsglæpi fyrir okkur, heldur velja þær líka fréttirnar sem við lesum af kostgæfni. Ef lesöndin, rétt eins og fólkið í smásögunni Someday eftir Isaac Asimov, treystir vélunum til þess að hugsa fyrir sig, þá er það í fínasta lagi, en pössum okkur á því að vera meðvituð um hver græðir á þessu fyrirkomulagi.

Titillinn á þessari grein er skopstæling á bókartitlinum Veröld sem var, en í henni er minnst á framtíðarspá í stuttu máli frá því fyrir fyrra stríð. Í þá daga trúði fólk því að lestir myndu þurrka út landamæri, fátækt yrði útrýmt með betri störfum og sjúkdómar myndu hætta að ógna lífi fólks vegna bólusetninga. Þó að eitthvað af því sé satt fyrir sum okkar, þá sérstaklega Evrópubúa, búum við líka í heimi misskiptingar og hryllings utan mannlegs skilnings. Þetta upplifa laga- og stærðfræðinemar, sem og aðrir þrælar fjórðu iðnbyltingarinnar, svo að á yfirborðinu geti ríkt gegndarlaus neysla og gleði, eins og í Wall-E.

Við viljum þakka þér, elsku lesönd, fyrir að hafa lesið þetta til enda, þolinmæði þrautir vinnur allar. Við biðjumst innilegrar afsökunar.