Hágæðauppeldi fyrir börn stúdenta: HighScope hugmyndafræðin í leikskólum FS
Í stúdentagarðahverfinu á Eggertsgötu er að finna tvo leikskóla sem báðir eru reknir eru af Félagsstofnun stúdenta. Þörfin er mikil, þar sem hvergi í Evrópu er að finna fleiri stúdenta sem einnig eru foreldrar en á Íslandi. Leikskólar FS eru allir starfræktir samkvæmt hágæðauppeldisstefnunni Highscope, sem gengur út á að ramma inn áhersluþætti leikskólastarfsins með áhuga og langanir barnanna að leiðarljósi. Stúdentablaðið ræddi við Írisi Dögg Jóhannesdóttur, aðstoðarleikskólastjóra Mánagarðs og þróunarstjóra HighScope stefnunnar.
„HighScope stefnan var þróuð af Dr. David Weikart á sjöunda áratugnum. Kveikjan að henni var upprunalega að sporna við háu brottfalli barna úr gagnfræðaskóla með því að grípa fyrr inn í og leggja áherslu á snemmtæka íhlutun. Í grunninn snýst stefnan um að styðja við hvert barn fyrir sig, stuðla að virku námi í öllu sem við gerum og þannig efla áhuga, getu og sjálfstæði barna.“
Íris segir einn helsta kost HighScope stefnunnar vera áhersla á rannsóknarmiðaða nálgun, en upprunalega gerði Dr. Weikart langtímarannsókn á börnum í efnaminni skólum í Ypsilanti í Bandaríkjunum þar sem fylgst var með börnum frá 3 ára aldri og alveg til 40 ára aldurs.
„Niðurstöðurnar voru sláandi, en börn í HighScope skólum höfðu almennt meira frumkvæði, stóðu betur félagslega og alhliða þroski var miklu meiri. Þar að auki var brottfall úr gagnfræðaskóla talsvert minna, greindarvísitala allt að 10 - 15% hærri og sjaldgæfara að þau kæmust í kast við lögin.“
Grunngildin sem mótuð voru af Dr. Weikart á sjöunda áratugnum eru enn þungamiðjan í HighScope, og við framþróun stefnunnar er mikil áhersla lögð á vísindalegar forsendur og mælanlegan árangur. Aðferðafræðin hefur náð mikilli útbreiðslu um allan heim, og eru leikskólar FS þar engin undantekning.
„Þegar við vorum að hefja starfsemina leituðum við að stefnu sem myndi henta öllum aldurshópum á leikskólunum okkar, frá sex mánaða aldri til sex ára. Við kolféllum fyrir þessu því þetta er mjög heildstæð nálgun og hver einasti þáttur í dagskipulaginu er byggður á rannsóknum.“
Á leikskólum FS er félagslegur og tilfinningalegur þroski barna efldur með því að notast við lýsandi orðræðu og tengja tilfinningar og líðan saman á styðjandi og skilningsríkan hátt.
„Við tölum um allar tilfinningar og lýsum þeim. Ég sé að þú ert alveg stífur af reiði með kreppta hnefa, ég skil að þér finnst best að vera hjá mömmu, og svo framvegis. Við finnum hvað þetta er mikilvægt og hvernig börnin eiga auðveldara með að róa sig með þessari nálgun. Með þessum hætti styðjum við við tilfinningalegan þroska og þau læra sjálf að lýsa því hvernig þeim líður.“
Lýsandi orðræðan auk opinna spurninga eflir þar að auki máltöku barna og stuðlar að virku námi á fjölbreyttan hátt.
„Við spyrjum þau hvernig við getum leyst hlutina saman og hvað þeim finnist. Þetta virka nám er í rauninni hjartað í HighScope, að börnin séu virkir þátttakendur í öllu. Í stað þess að segja að mynd sé flott þegar barn sýnir okkur hana, spyrjum við hvað sé á myndinni og fáum börnin til að meta sjálf hvað þeim finnst. Við hvetjum til samtals og með því ýtum við undir frumkvæði og sjálfstyrkingu barna, í staðinn fyrir að einfaldlega hrósa í færri orðum.“
Allir þættir leikskólastarfsins eru byggðir á hugmyndafræði stefnunnar, og með þjálfun og reglulegu endurmati starfsfólks er tryggt að þörfum hvers og eins barns sé mætt með áhuga þess og langanir að leiðarljósi. Því er ljóst að það er mikill ávinningur fólginn í því að foreldar í námi við Háskóla Íslands hafi aðgang að jafn framúrstefnulegu leikskólastarfi á háskólasvæðinu.
Við hvetjum áhugasöm til að kynna sér langtímarannsókn Dr. Weikart um vægi hágæðamenntunar á leikskólastigi, The Perry Preschool Project. Þar að auki eru lesendur hvattir til að kíkja á Instagramsíðu leikskólans Mánagarðs.