Framtíðarsýn: Hver verður undir og hver græðir?
Það er hægt að velta fyrir sér framtíðinni á margs konar vegu; á staðbundinn og nærtækan hátt eða út frá alltumlykjandi og nánast fantasmagórískri hugmyndafræði. Hér verða rædd þrjú aðgreind en þó samtengd málefni sem tengjast loftslagsmálefnum, fólksflutningum og pólitískum aðgerðum í fræðasamfélaginu. Við skulum fyrst velta fyrir okkur umhverfisslysum og viðbrögðum valdhafa í kjölfar þeirra.
Mánudaginn 26. september 2022 fundust merki um skemmdir í Nord Stream-leiðslunni í Eystrasalti, en bæði NATO og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, skilgreindu þennan atburð sem vísvitandi skemmdarverk. Nord Stream-leiðslan tengdi Rússland við Þýskaland í gegnum Eystrasaltið og átti að sjá Evrópu fyrir rússnesku gasi. Að minnsta kosti tvær sprengingar ollu þremur mismunandi metanlekum undan dönsku eyjunni Bornholm.
Daginn eftir þessi skemmdarverk tilkynnti sænska lögreglan að hún hygðist hefja bráðabirgðarannsóknir á málinu, sem lýst hefur verið sem einum verstu vistfræðilegu hamförum aldarinnar í ljósi þess að heilu tonnin af metani voru losuð út í andrúmsloftið. Metan er gróðurhúsalofttegund sem hefur valdið um fjórðungi þeirrar hækkunar sem hefur orðið á hitastigi jarðar, með meiri hlýnunargetu en koltvísýringur. Nord Stream leiðsla 1 og 2 voru ekki í notkun en innihéldu jarðgas af tæknilegum ástæðum.
Vestræn viðbrögð
Framkvæmdastjóri NATO lýsti skemmdarverkunum sem fjölþáttaógn og lýsti þeim sem eyðileggingu mikilvægra innviða og vísvitandi skemmdarverkum. Hugtakið fjölþáttaógn vísar til fjölþáttahernaðar, samstilltra átaka sem einkennast af hernaðaraðgerðum og öðrum aðferðum eins og netstríði, pólitískum hernaði, sviðsettum kosningaúrslitum og falsfréttum, svo eitthvað sé nefnt.
Vestrænir sérfræðingar tengja ofangreint hugtak oft við aðgerðir Rússlands. Til dæmis lýsti Teresa Ribera, ráðherra vistfræðilegra umskipta og lýðfræðiáskorunar á Spáni, atburðinum sem dæmi um ögrunartaktík Pútíns. Yfirlýstir vestrænir stjórnmálaálitsgjafar tóku undir þá röksemdafærslu að Rússland væri líklega sökudólgurinn, að undanskildum fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, Radek Sikorski, sem varð á sá dómgreindarbrestur að endurbirta mynd frá danska varnarliðinu á Twitter með meðfylgjandi texta:
„Takk, Bandaríkin. Eina rökfræðin á bak við Nord Stream var að Pútín gæti stundað fjárkúgun eða háð stríð gegn Austur-Evrópu án afleiðinga. Nú liggja 20 milljarðar dollara af brotajárni á hafsbotni, enn eitt gjaldið sem Rússar verða að greiða vegna refsiverðrar ákvörðunar sinnar um að ráðast inn í Úkraínu.“
Færslunni hefur síðan verið eytt af Twitter. Ummæli fyrrverandi utanríkisráðherra virtust ekki vera í takt við evrópska starfsbræður hans. Skrýtin afstaða, sem þó kemur frá traustum bandamanni Bandaríkjanna á því svæði. Ofan á þetta lýsti Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, atburðinum sem „gífurlegu tækifæri fyrir Evrópu“. Til að hafa það á hreinu voru þau orð hluti af umræðu um dvínandi þörf Rússa fyrir gas og umskipti yfir í endurnýjanlega orku. Hvað sem því líður, þá er sjaldgæft að sjá hugtökin „vistfræðileg hörmung aldarinnar“ og „gífurlegt tækifæri“ í sömu setningunni.
Yfirlýsing Blinken átti sér stað á sameiginlegum blaðamannafundi með Mélanie Joly, utanríkisráðherra Kanada, þann 30. september 2022. Við það tilefni ítrekuðu báðir aðilar skuldbindingu sína um að aðstoða Evrópu í umskiptum sínum yfir í endurnýjanlega orku til lengri tíma litið. Í stuttu máli lofuðu Kanada og Bandaríkin að sjá Evrópu fyrir þeirri orku sem heimsálfan þarfnast, og að hefja langtíma samstarf í átt að grænni orku.
Hræsni og farsi: Leiðin að grænni grundu
Árið er 2023 og heimurinn er í upplausn vegna yfirvofandi stríðs í útjaðri Evrópu, fjöldi fólks á flótta er í hámarki, verðbólga fer sívaxandi, húsnæðiskreppa steðjar að og hamfarir dynja yfir. Í þessari hringiðu er þó að finna einhverjar hughreystandi fréttir, þar á meðal það sem kemur fram að ofan: samkomulag Bandaríkjanna og Kanada um að stuðla að grænum orkubreytingum á meginlandi Evrópu. Þetta ætti að vera fagnaðarefni, en er það virkilega svo?
Í fyrsta lagi þarf að taka tillit til þeirra misgjörða sem einmitt þessar valdastofnanir hafa áður gerst sekar um. Eitt dæmi er hið svokallaða Willow Project á vegum ConocoPhillips. ConocoPhillips er stærsti hráolíuframleiðandi Alaska, og eftir að yfirvöld Bandaríkjanna samþykktu verkefnið á þessu ári liggur fyrir framleiðsla allt að 287 milljóna tonna koltvísýrings; það er jafngildi þriðjungs alls útblásturs sem er framleiddur af kolaverksmiðjum Bandaríkjanna.
Önnur vistfræðileg hörmung sem ekki má gleyma er Dakota Access olíuleiðslan, en á sex mánaða timabili hafa átt sér stað fimm mismunandi lekar sem hafa haft alvarlegar afleiðingar á líf nærstaddra bænda. Leiðslan þarf að meðaltali 20 milljónir lítra af vatni, 235 tonn af sandi og 1.200.000 lítra af aukaefnum til að auka seigju vatnsins. Þessum kokteil er háþrýstisprautað í jarðskorpuna, sem veldur því að olía freyðir upp á yfirborðið ásamt fljótandi úrgangi sem samanstendur meðal annars af kolvetni og geislavirkum þungmálmum. Þetta hefur skaðleg áhrif á aðliggjandi beitilönd, en bændur á þeim svæðum hafa lýst því hvernig búfé þeirra hefur lést skyndilega og hvernig halar skepnanna hafa dottið af á dularfullan hátt. Ennfremur sýna loftsýni sem safnað var fyrir ofan bæina fram á að efnasambönd sem myndast við vinnslu kolvetnis hafa í för með sér taugaeitrandi áhrif - slík áhrif fundust meðal annars í heilanum á bónda á svæðinu.
Gamalkunn gremja: Úlfar í sauðagæru
Ef við hverfum aftur til skemmdanna á Nord Stream, er þetta ekki í fyrsta sinn sem Bandaríkin sýna leiðslunni áhuga. Árið 2019 gaf Angela Merkel, kanslari Þýskalands, grænt ljós á byggingu tveggja LNG jarðgasstöðva á þýsku ströndinni, með því skilyrði að Washington myndi hætta truflunum sínum við Nord Stream-leiðsluna. Staða Navalny, andstæðings Pútíns, í ofanálag við forsetakjör Joe Biden hefur orðið nýr hvati fyrir andstæðinga leiðslunnar. Sá hvati hefur í kjölfarið verið uppfærður og honum endurpakkað á hátt sem myndi sæma snákaolíukaupmanni til þess að líta út fyrir að vera græn gjöf Bandaríkjanna til Evrópu.
Á erfiðari nótum
Við getum að minnsta kosti sammælst um að það sé dálítið undarlegt að sprengingin í Nord Stream hafi ekki uppskorið meiri athygli frá fjölmiðlum eða grasrótarhreyfingum. Það sem kemst næst því að líkjast samstöðu hvað þennan atburð varðar er samþykkt um þá illu nauðsyn að grafa loks undan rússneskum áhrifum á svæðinu. Þetta er hugarfarsbreyting með tilliti til alþjóðasamskipta, en þó gild afstaða. En ef við gefum okkur að þetta sé rétt, og ef við sættum okkur við að vísvitandi skemmdarverkin á Nord Stream hafi verið afsprengi stríðsreksturs, hvað þýðir það fyrir viðleitni okkar til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga? Telst þetta ekki sem hryðjuverk gagnvart umhverfinu sem mætti líkja við vistmorð? Á Evrópa að geta treyst því að þeir aðilar sem bera mögulega ábyrgð á þessum skemmdarverkum séu þeir sömu og þeir sem boða sjálfbærar lausnir framtíðarinnar? Er Evrópa reiðubúin að sætta sig við þessa aðför að umhverfinu?
Á okkar dögum erum við að verða vitni að viðhorfsbreytingu hvað varðar notkun kjarnorkuvopna; áður vorum við alfarið andvíg þeim, en nú er notkun sumra kjarnorkuvopna réttlætt - „taktískra kjarnorkuvopna“. Það er auðvelt að rekja orðræðu tengda taktískum og „fyrirbyggjandi“ aðgerðum til tímabilsins sem fylgdi 9/11 árásunum - sú orðræða fól að mörgu leyti í sér réttlætingu dulbúinna voðaverka með hjálp vísindalegrar orðræðu. Það sem á það til að gleymast í skugga dyggðaskreytingarinnar (e. virtue signaling) er að pólitískar ákvarðanir hafa raunveruleg áhrif á líf fólks, sérstaklega jaðarsetts fólks, og sú staðreynd að pólitísk afskipti geta sannarlega átt sér stað og haft víðtæk og varanleg áhrif. Þessi dyggðaskreyting og gjörningabarátta (e. performative activism) gegnsýrir menninguna okkar. Mig langar til að útskýra þessi hugtök með því að taka dæmi um það hvernig líta má á innflytjendur og flóttafólk sem sjálfbæra auðlind.
Fólksflutningar: Sálarlausar vinnuvélar
Stundum er litið á farandverkafólk sem einnota, eða sem auðlind sem auðvelt er að skipta út. Litið er á það sem framandi í þeim skilningi að það er ekki talið vera hluti samfélagsins, heldur utanaðkomandi; því er útskúfað. Staðalímynd flóttamanneskjunnar snýst gjarnan um vinnufæru manneskjuna, sem er tilbúin til þess að vinna fyrir minna við ótryggar aðstæður og búa í kjallara með lélegri loftræstingu. Ég leyfi mér að byggja þetta mat á raunverulegum sögum sem ég hef heyrt á þeim 18 árum sem ég hef verið farandmaður í Evrópu, þó ég eigi það á hættu að hljóma eins og ég sé að reyna að ögra.
Ísland er langt frá því að vera ódýr staður til að búa á og meðal farandfólks hér er eflaust fólk sem gegndi forréttindastöðum í upprunalandi sínu, auk verkafólks og nokkurra hugrakkra sála sem leitast við að tryggja sér nýtt heimili. Græðgi veldur því að fólk nýtir sér stöðu hópa sem skortir getuna til að eiga samskipti á ríkjandi tungumálinu eða vettvang til að tjá sig, sem jaðarsetur þá hópa enn frekar, á sama tíma og fólk í viðkvæmri stöðu þarf að víkja sér undan hliðarvörslu (e. gatekeeping) innfæddra og innflytjenda sem hafa komið sér nokkuð vel fyrir. Litið er á streitu, kulun og andlega eða líkamlega fötlun sem vandamál sem þarf ekki að bregðast við fyrr en viðkomandi snýr aftur til heimalands síns. Án formlegrar viðurkenningar á bæði mennsku þessa hóps sem og lykilhlutverksins sem það gegnir í að tryggja allsnægtir vestrænna samfélaga er hægt að færa rök fyrir því að farandverkafólk sé skilgreint sem söluvara - seld lægstbjóðanda. Það er engin framtíð í boði fyrir þau sem sitja föst í viðjum kaldra og aðskilinna skrifræðisákvarðana.
Vegabréfaáritunarkerfið er grimmt, úrelt og hefur í ofanálag þveröfug áhrif. Vinnufólki sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins, borgar skatta og býr yfir nýjum hugmyndum er í besta falli haldið á jaðrinum. Þrátt fyrir umtalsverðar endurbætur sem ráðist hefur verið í í kjölfar nýlegasta fjöldaflóttans í Evrópu hafa atburðir síðasta árs ekki alið af sér samstöðubylgju óháð uppruna - í stað þess að innleiða framsæknari stefnu, hafa yfirvöld boðað innleiðingu enn harðari útlendingalaga.
Hvað ef fólksflutningar yrðu taldir eðlilegir í mannlegum samfélögum og vöntun á þeim í staðinn talin óeðlileg? Hvað ef við myndum líta á farandvinnuafl sem auðlind sem hlúa þyrfti að? Þannig gætum við lagt okkur fram við að auðvelda umskipti frá því að vera erlendur verkamaður og þess að verða fullgildur þjóðfélagsþegn ásamt þeim réttindum og skyldum sem það síðarnefnda hefur í för með sér. Þetta helst í hendur við yfirvofandi útdauða íslenskrar tungu; það er einfaldlega ekki hægt að læra tungumál dvalarstaðar síns í félagslegu, menningarlegu og efnahagslegu tómarúmi.
Háskólinn: Ljósið á myrkri stundu
Það er kominn tími til að fræðasviðið stundi pólitískar aðgerðir, afskipti og nýsköpun. Til að þróast fram á við verður að uppræta gömul pólitísk tilþrif af hálfu forneskjulegra elíta, og leggja áherslu á að öðlast víðtækari skilning á umhverfi okkar og fólksins innan þess. Þó viðfangsefni þessarar greinar veki mögulega upp klofning í landfræðilegum, pólitískum og kosningafræðilegum skilningi er áherslan fyrst og fremst á sanngirni, mannlega reisn og gagnkvæma virðingu.
Stjórnmálaelítan sem ræður úrslitum um framtíð mína sem og þína mun koma saman í Reykjavík í næsta mánuði til að knýja áfram „lýðræði og réttlæti“ í Evrópu. Ég tel að það sé margt sem þau gætu lært af þeim félagslegu samstöðuaðferðum sem þegar eru til staðar í samfélaginu. Það eina sem við þurfum á að halda er vilji stjórnmálaafla og stofnana til þess að koma til móts við þarfir og kröfur samfélagsþegnanna.