Björt framtíð hugvísindanema: Viðtal við brautskráða stúdenta
Grein: Hallberg Brynjar Guðmundsson
Ef þú ert nemi á Hugvísindasviði Háskóla Íslands kannastu kannski við þessar spurningar:
Hvað ætlarðu eiginlega að vinna við eftir útskrift? Ætlarðu að verða kennari?
Þrátt fyrir að margir hugvísindanemar fari út í kennslu þýðir það samt ekki að kennsla sé það eina sem bíður þeirra eftir útskrift. Það liggur kannski ekki bein braut úr hugvísindum yfir í atvinnulífið en er eini tilgangur náms að undirbúa okkur fyrir hvítflipa-skrifstofustörf? Það
held ég ekki. Sjálfur er undirritaður að klára 5 ára nám á Hugvísindasviði og er spenntur fyrir framtíðinni, því það felst mikið frelsi í hugvísindagráðu, og með smá útsjónasemi mun hún nýtast vel í lífi og starfi. Þetta tölublað fjallar um framtíðina, og ég ákvað að heyra í 3 einstaklingum sem hafa útskrifast úr Háskóla Íslands með gráðu í hugvísindum.
Selma Dís Hauksdóttir, BA gráða í þýsku og MA gráða í þýðingafræði
Starf: Þýðandi hjá utanríkisráðuneytinu
Af hverju valdirðu nám á Hugvísindasviði?
Ég ákvað 15 ára að fara í þýðingafræði við HÍ. Áhugasviðið mitt er mjög víðfeðmt, en tungumál hafa alltaf verið ofarlega Á listanum auk þess sem ég læri eitthvað nýtt alla daga við að þýða texta um ýmsa hluti.
Hvernig hefur gráða í hugvísindum nýst þér í starfi?
Í dag er krafa hjá Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins að vera með háskólamenntun sem nýtist í starfi. Tungumálagráðan gagnast mér einnig mjög mikið í vinnunni við samanburð á merkingu, nánari útskýringu og einnig á ferðalögum. Án gráðanna hefði örugglega ég ekki fengið starfið, sérstaklega beint eftir nám. Að auki er gagnrýnin hugsun og rannsóknarvinna eitthvað sem gagnast alltaf í lífinu. Einnig myndaði ég gott tengslanet í náminu.
Karl Ólafur Hallbjörnsson, BA í heimspeki við HÍ, MA í meginlandsheimspeki við University of Warwick
Starf: Upplýsingafulltrúi og aðstoðarmaður við þingflokks Pírata/textasmiður
Af hverju valdirðu nám á Hugvísindasviði?
Ég valdi nám á Hugvísindasviði því það vill svo til að heimspeki er einmitt þar. Ég slysaðist til að lesa Platon þegar ég var sextán og það var ekki aftur snúið eftir það. Forngrísk heimspeki er eiginlega eins og „gateway drug“ að því leytinu til.
Hvernig hefur gráða í hugvísindum nýst þér í starfi?
Ég er bara ekki alveg viss um að hugvísindin hafi beint gert mikið fyrir ferilinn minn - eða kannski fer það eftir því hvernig maður metur farsælan og gjöfulan feril. Ég er til dæmis viss um það að ég gæti verið að fá hærri laun einhvers staðar ef ég hefði lært eitthvað annað - en ég er ekki viss um það hefði ljáð mér lífsfyllinguna og sjálfsvitundina sem heimspekin hefur veitt mér. Fyrir utan það þá lærði ég þó gífurlega mikið um hvernig maður færir rök fyrir máli sínu og beitir hnitmiðaðri gagnrýni til þess að rýna í saumana á hlutunum. Það er einfaldlega ekki á hvers manns færi - og fyrir vikið er það afar eftirsóttur hæfileiki.
Snorri Másson, BA í íslensku
Starf: Fjölmiðlamaður
Af hverju valdirðu nám á Hugvísindasviði?
Ég valdi íslensku af því mig langaði að kynnast íslenskri bókmenntasögu til hlítar og raunar einnig vegna mikils áhuga á málfræði. Planið var alltaf að vinna við að skrifa með einum hætti eða öðrum.
Hvernig hefur gráða í hugvísindum nýst þér í starfi?
Mér finnst mjög gott að vera með formlega gráðu til að veita sjónarmiðum mínum lögmæti í ákveðnum tilvikum (gagnsemi á þessu sviði er þó takmörkuð), og í öðru lagi bý ég alltaf að þeirri miklu þekkingu sem maður er látinn innbyrða í íslenskunáminu. Um leið er krónískt þjálfunarleysi í rituðu máli landlægt á öllum sviðum skólakerfisins, og að læra íslensku í háskólanum bætti mjög upp fyrir það. Skrifa, skrifa, skrifa. Æfingin skapar meistarann.