Þú átt heima í BHM að lokinni útskrift: Veldu stéttarfélag sem gætir hagsmuna þinna
Það er stórt skref í lífi allra stúdenta að útskrifast úr háskólanámi og halda út á vinnumarkaðinn. Á slíkum tímamótum er lykilatriði að velja öflugt stéttarfélag sem sameinar félagsfólk á grundvelli starfsgreinar og menntunar. Gott stéttarfélag veitir persónulega ráðgjöf og þjónustu allt frá ráðningarsamningi til starfsloka, er traustur bakhjarl þegar á þarf að halda og opnar aðgengi að margskonar fríðindum og fjárhagslegum stuðningi.
Í BHM, Bandalagi háskólamanna, eru 28 aðildarfélög og yfir 17 þúsund félagar með margvíslegan bakgrunn, menntun og þekkingu. BHM sameinar fag- og stéttarfélög háskólamenntaðs fólks á íslenskum vinnumarkaði og stendur vörð um mikilvægi hugvits, sérfræðikunnáttu og menntunar. Hægt er að finna sitt félag innan BHM óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi og hvort sem viðkomandi er launaþegi, atvinnurekandi eða sjálfstætt starfandi sérfræðingur - eina skilyrðið er að hafa lokið háskólaprófi (BA- og BS- prófi eða ígildi þess). Mörg aðildarfélög BHM bjóða auk þess upp á nemaaðild, en þar má nefna t.d. Fræðagarð sem býður upp á nemaaðild fyrir þau sem hafa lokið 60 ECTS einingum. Hægt er að kynna sér nemaaðild fleiri félaga innan BHM á heimasíðu BHM (sjá meðfylgjandi QR-kóða).
Styrkir og sjóðir BHM
Auk þess að vera öflug heildarsamtök háskólamenntaðra rekur BHM ýmsa sjóði sem veita félögum styrki. Karitas Marý Bjarnadóttir starfar sem ráðgjafi sjóða hjá BHM. Hún segir meginhlutverk sjóða og styrkja vera að grípa félagsfólk í flestöllu sem komið getur upp á. Það komi mörgum á óvart hversu fjölbreyttir styrkirnir séu og hvað þeir koma sér vel.
„Við leggjum mikla áherslu á að koma til móts við fólk á ólíkum stöðum í lífinu, hvort sem það felur í sér að veita styrki tengda meðferðum á líkama og sál eins og sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu eða krabbameinsmeðferðum eða að styrkja lögfræðing sem langar til þess að verða jógakennari.“
Sjúkrasjóður BHM:
Er ætlaður félagsfólki á almennum vinnumarkaði
Hlutverk sjúkrasjóðs er að koma til móts við tekjutap vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu sökum veikinda og slysa
Sjóðurinn styður við endurhæfingu og forvarnir af ýmsum toga
Styrktarsjóður BHM:
Er ætlaður félagsfólki á opinberum markaði, hjá ríki eða sveitarfélögum
Margvíslegir styrkir eru veittir úr styrktarsjóði, m.a. styrkir vegna heilbrigðiskostnaðar og starfstengdra áfalla, styrkir tengdir fæðingum og ættleiðingum, sjúkradagpeningar og margt fleira
Orlofssjóður BHM:
Er til þess gerður að auðvelda félögum að njóta orlofstöku sem best
Orlofssjóður býður upp á gjafabréf í flug á góðum kjörum, leigir félögum sínum orlofskosti um land allt og niðurgreiðir margs konar þjónustu sem tengist orlofi
Starfsmenntunarsjóður BHM:
Er til þess gerður að styrkja félagsfólk hvað varðar nám og námskeið, ráðstefnur, málþing og fræðslu- og kynnisferðir innanlands og utan
Verkefnin þurfa almennt að varða fagsvið eða starf þeirra sem sækja um
Þó eru ýmis námskeið sem bæta starfshæfni umsækjenda á sviði tölvutækni og tungumála almennt styrkhæf þó þau tengist starfi eða menntun umsækjanda ekki beint
Starfsþróunarsetur BHM:
Hefur það hlutverk að stuðla að framgangi félagsfólks og markvissri starfsþróun stofnana
19 stéttarfélög af 28 aðildarfélögum BHM eiga aðild að Starfsþróunarsetrinu og geta sótt um styrki vegna verkefna á sínum vegum
Einstaklingar geta sótt um styrki vegna náms, námskeiða og ráðstefna, og styrkirnir ná meðal annars til skólagjalda, ráðstefnugjalda og ferðakostnaðar
Einnig geta stofnanir, sjálfseignarstofnanir, sveitarfélög og fleiri opinberir aðilar (sem eiga aðild að Starfsþróunarsetrinu) sótt um styrki tengda starfsþróun
Nánari upplýsingar um alla ofantalda sjóði, aðild og úthlutunarreglur þeirra er að finna á heimasíðu BHM undir Styrkir og sjóðir. Einnig er vert að skoða undirsíðuna Lífsviðburðir, sem veitir leiðbeinandi ráð og upplýsingar fyrir félagsfólk sem stendur á tímamótum í lífinu.
Ertu með spurningar?
Ef þú ert að velta fyrir þér í hvaða félagi innan BHM þú átt heima veitir þjónustuver BHM upplýsingar og leiðbeinir þér með næstu skref. Þjónustuverið veitir líka upplýsingar um sjóði, orlofshús, þjónustu starfsendurhæfingasjóðsins VIRK og fleira. BHM leggur ríka áherslu á góða og persónulega þjónustu - ekki hika við að hafa samband.