Að snúa við (lauf)blaðinu: Baráttan um loftgæði
Anda inn…
Innra með okkur öllum er ein hugsun sem knýr okkur áfram - að morgundagurinn verði betri en dagurinn í dag. Það er mannkyninu eðlislægt að langa, óska og vonast eftir betri framtíð og sú hugsjón knýr áfram viljann til þess að stefna hátt. Þegar öllu er á botninn hvolft var það þessi hugsjón sem fékk fyrsta hjólið til að rúlla!
En rétt eins og fyrirætlanir okkar geta leitt af sér jákvæða breytingu, getur útkoma gjörða okkar haft óhagstæðar afleiðingar á heiminn í kringum okkur. Margar uppfinningar mannkyns hafa breytt umhverfi okkar til hins verra; skref okkar í átt að bjartari framtíð hafa leitt okkur áfram að mun myrkari nútíma - og samskiptaforrit ýta undir kvíðatilfinninguna þangað til ástandið virðist gjörsamlega yfirþyrmandi. En það er hægt að finna leið út úr myrkrinu ef við myndum bara
Anda út…
Þar sem villtir vindar blása
Forngrískir heimspekingar (sem vissu líklega ekki af tilvist Íslands) héldu að alheimurinn væri samsettur úr fjórum frumefnum: eldi, vatni, jörðu og lofti. Ef þú ert að lesa þessa grein, sérstaklega í pappírsformi, eru góðar líkur á því að þú hafir haft tækifæri til að fylgjast með (og njóta) samspils allra þessara frumefna. Stórbrotin og rymjandi eldfjöll, rjúkandi jarðvarmavatn, íðilfagurt landslag og kalt, tært loft þar sem allt ofantalið mætist - Ísland datt svo sannarlega í lukkupottinn hvað varðar náttúrufegurð.
Í gegnum árin hafa Íslendingar þróað með sér djúpa virðingu í garð náttúrunnar í kringum sig, lært að laga sig að síbreytilegu veðurfari og nýta þær auðlindir sem landið hefur að bjóða á sama tíma og þeir leggja sig alla fram við náttúruvernd. Mistök hafa þó verið gerð og lærdómur dreginn af þeim í kjölfarið en sú þróun er enn að eiga sér stað, sem kemur svo sem ekki á óvart miðað við einstakt eðli umhverfisins. En þrátt fyrir að hlúð sé að landinu, hugað að ám og eldfjöllum sýnd mikil virðing, þá er það loftið sem fær verstu útreiðina vegna einnar stærstu áskorunar sem Íslendingar standa frammi fyrir - að takast á við afleiðingar rótgróinnar samfélagshefðar sem er gríðarlega mengandi.
Ryk í vindinum
„Að meðaltali, miðað við önnur lönd í Evrópu, eru loftgæði á Íslandi mjög góð,“ segir Einar Halldórsson, teymisstjóri loftgæða hjá Umhverfisstofnun.
„Það sem við erum hins vegar að sjá eru hærri tölur við sérstök veðurskilyrði. Ef við athugum loftgæðamælistöðina okkar á Grensásvegi [sem nemur verstu mögulegu loftgæðin vegna nálægðar hennar við stofnbrautir og þunga umferð] hafa mælingarnar farið 60 sinnum yfir heilsuverndarmörk á þessu ári þó að við miðum við að loftgæði megi ekki fara yfir heilsuverndarmörk oftar en 18 sinnum á ári.”
Eitt af því sem Umhverfisstofnun hugar sérstaklega að við mælingar á loftgæðum er svifryk, sem er skilgreint á þrjá vegu eftir því hversu fínt það er; undir 10μg (gróft ryk), undir 2,5μg (fínt ryk) og undir 1μg (mjög fínt ryk). Það er mikilvægt að hafa í huga að fíngerðara svifryk er oftast af mannavöldum á meðan grófara svifryk á sér frekar náttúrulegan uppruna, en þar sem allar þrjár tegundir af svifryki liggja í loftinu verða þær fyrir áhrifum af vindi. Svifryk getur verið hættulegt mannfólki ef það er til staðar í loftinu til lengri tíma (sérstaklega hvað varðar viðkvæma hópa eins og börn og aldraða), þar sem það kemst auðveldlega inn um öndunarfæri og getur sest í lungun. Heilbrigðismörk á 24 klukkustunda tímabili eru 50 μg/m3. Íslendingar reiða sig margir á einkabílinn, en árið 2019 var hlutfall bíla nánast einn bíll á hvern íbúa. Þetta setur strik í reikninginn í baráttunni um loftgæði vegna mikillar aukningar svifryks sem skapast í þungri umferð. Ef vel viðrar (sérstaklega ef það er mikil stilla), situr það í loftinu lengur og verður hættulegri fyrir vikið.
Sem ríkisstofnun getur Umhverfisstofnun beitt sér fyrir því að breytingar verði gerðar á löggjöfinni, en umferðartengd mengun er þáttur sem hægt væri að stjórna að einhverju leyti.
„Minni umferð þýðir minni mengun og því væri æskilegra að fækka bílum á götunni og grípa til skammtímaaðgerða ef búist er við mikilli mengun, t.d. með því að takmarka umferð, bæta almenningssamgöngur eða með öðrum leiðum,“ segir Einar áður en hann snýr sér að erfiðasta degi ársins - gamlárskvöldi.
Kveðja með hvelli
Björgunarsveitirnar eru samtök sjálfboðaliða sem verja frítíma sínum í að aðstoða heimamenn og ferðamenn sem lúta stundum í lægra haldi fyrir óvægri náttúru Íslands. Þær njóta gríðarlegs stuðnings almennings sem kristallast í árlegri flugeldasölu björgunarsveitanna, en með henni safnast bróðurparturinn af fjármagninu sem þarf fyrir starfsemi þeirra (sumir útreikningar benda til þess að um 90% fjármagns björgunarsveitanna komi til vegna flugeldasölu). En þessi góðgerðarstarfsemi hefur með tímanum búið til risastórt vandamál hvað umhverfið varðar, því flugeldar geta haft bein áhrif á loftgæði í nokkra daga á eftir. Á gamlársdag byrja sumir að skjóta upp snemma, en langflest taka virkan þátt í geðveikinni í kringum miðnætti.
„Það verður allt brjálað. Versta ár sem við höfum séð var árið 2018, þá sáum við 3700 μg/m3,” segir Einar og viðurkennir vandamálið á sama tíma og hann segir enga auðvelda lausn vera í sjónmáli. Björgunarsveitirnar eru stoð samfélagsins og stytta, en þær hafa með óbeinum hætti skapað vandamál sem er orðið að ótemju. Á meðan starfsemin reiðir sig að svona stórum hluta á flugeldasölu mun taka mörg ár að finna lausn sem tryggir nægt fjármagn án þess að umhverfið beri skaða af. Eins og staðan er núna er hægt að styrkja björgunarsveitirnar allt árið um kring, til dæmis með því að gróðursetja tré í stað þess að kaupa flugelda, sem gæti stutt betur við umhverfið en nokkuð annað.
Íslendingar hafa í tíma og ótíma sannað að þeir búa yfir eiginleikanum til þess að læra af mistökum sínum með hag almennings og umhverfis að leiðarljósi, og við verðum að vona að sá eiginleiki nái yfirhöndinni hvað gamlárskvöld varðar. Hver veit, kannski munum við einhvern tímann standa úti á götu til að telja inn nýja árið og himininn að ofan verður myrkur - en framtíðin björt.