Umsókn um ríkisborgararétt: Próf í verðleikum?

Erlendir borgarar sem hafa átt lögheimili á Íslandi í sjö ár eða lengur eiga rétt á að sækja um ríkisborgararétt og gerast þannig „fullgildir“ íslendingar (fjögur ár ef umsækjandi er giftur íslenskum ríkisborgara). Þannig hafa reglurnar verið í langan tíma. Hins vegar var gerð breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt árið 2009, en síðan þá hefur verið gerð krafa um að umsækjendur standist íslenskupróf til þess að öðlast ríkisborgararétt.

Þetta leiddi til þess að undirritaður varð að mæta hjá Mími, símenntun, Höfðabakka 9, klukkan níu einn vetrarmorgun í nóvember 2016, til að taka próf í íslensku. Við vorum um það bil 30 innflytjendur, hvaðanæva að úr heiminum, og biðum þar fyrir utan prófstofuna. Eftir smá bið (til viðbótar við þá sjö ára bið sem lög gera ráð fyrir) var okkur hleypt inn í stofuna. Þar biðu okkar umslög með prófgögnunum. Prófið skiptist í þrennt: skilning, ritun og tal. Fyrst áttum við að hlusta á texta og svara krossaspurningum úr honum til að sýna fram á skilning. Einn, tveir og byrja…

Nema hvað, við gátum ekki byrjað. Geisladiskurinn var eitthvað bilaður, nú eða tölvan, ég veit ekki alveg hvort. Það örlaði á smá kvíði hjá umsjónarmönnum prófsins – þrjár miðaldra íslenskar konur – en við hin vorum bara sultuslök. Ein konan stakk upp á því að lesa bara textann sjálf, svona „í beinni“, en hinum leist hins vegar ekkert á það. Lesturinn yrði að vera vélrænn. Svoleiðis ætti það bara að vera.

Þá var sóttur annar geisladiskur, en ekki virkaði hann heldur. Þá var eitthvað fiktað í tölvunni, en það gekk ekki heldur. Að lokum var tæknimaður sóttur, og hann bjargaði málunum. Loksins, nú skyldi ballið byrja!

Nema hvað textinn sem heyrðist síðan seytlast úr hátölurunum var svo slakur skáldskapur að Halldór Laxness hefði örugglega snúið sér í gröfinni. En hann var að minnsta kosti skiljanlegur. Að hlustuninni lokinni áttum við að skrifa nokkrar setningar. Umsjónarkonan tók það þó fram, að textinn þyrfti ekki að vera málfræðilega réttur. Aðalatriðið væri að hann væri skiljanlegur. Þessu var fagnað af mikilli einlægni, enda hafa sumir innflytjendur horn í síðu íslenskrar málfræði (hver hefði haldið?). En flestir héldu gleðinni fyrir sig, líklega af ótta við að móðga hinar virðulegu umsjónarkonur prófsins. Annað hefði líka verið óviðeigandi við svo örlagaríkar aðstæður.

Þegar ég hafði lokið við verkið skilaði ég blöðunum og mér var bent á að bíða frammi eftir að komast í munnlega prófið. Mig munaði heldur ekkert um það eftir sjö ára bið. Síðan var ég leiddur inn í stofu þar sem ég var yfirheyrður af prófdómara og samtalið tekið upp:

„Geturðu lýst því sem þú sérð á þessum myndum?“

Á fyrstu myndinni sást fjögurra manna fjölskylda sitja í sófa. Allir hressir og kátir. Pabbinn var að lesa í bók fyrir fjölskylduna. Svo kom næsta mynd: fjögurra manna fjölskylda á ströndinni, allir brosandi. Næsta mynd: fjögurra manna fjölskylda að grilla í garðinum, sól og blíða, ást og friður. Fjórða myndin: fjögurra manna fjölskylda sem var nýbúin að ljúka við snjókarl. Allir skælbrosandi að sjálfsögðu.

Ég var nú farinn að dást að höfundi prófgagnanna. Slíkur skortur á ímyndunarafli er nefnilega ekki svo algengur, jafnvel á Íslandi. Eða ætli það hafi verið einhver sérstök skilaboð falin í þessu? Að við aðkomumenn ættum bara að brosa og vera hamingjusöm og varast að eignast fleiri en tvö börn? Boðskapurinn fylgdi ekki með. Eftir þessa skemmtilegu myndasýningu var ég leiddur inn í annars konar samræður:

„Geturðu sagt mér hvað þú gerir á frídögum þínum? Þú mátt alveg ljúga því, það skiptir í raun ekki máli hvort þú segir satt eða ekki.“

Var þetta gildra? Var búið að koma lygaskynjara fyrir undir borðið? Það hefði vissulega verið freistandi að skálda upp eitthvað skemmtilegt: að ég noti frídaga mína til að smíða geimfar og hefði í hyggju að flytja til tunglsins (ferlið í kringum umsókn um ríkisborgararétt er miklu einfaldara þar). En þar sem mig skorti sannfæringu til að ljúga af fullri einlægni ákvað ég frekar að segja blákalt satt. Ég sagði prófdómaranum frá öllu því ómerkilega sem ég geri á frídögum mínum, og lauk þannig prófinu.

Eftir þrjár vikur fékk ég niðurstöður úr prófinu. Mér var greinilega treystandi til að bera íslenskt vegabréf og kjósa í alþingiskosningum. Kannski ekkert stórafrek þar sem um 95% umsækjenda standast prófið samkvæmt tölfræði Námsmatstofnunar fyrir árin 2009-10.

En hvað með hin fimm prósentin? Og hvað með þau sem treysta sér einfaldlega ekki til að taka prófið? Hvað réttlætir það að neita þeim meðal annars um kosningarétt? Er ekki grundvallaratriði lýðræðisins að allir hafi kosningarétt óháð félagslegri stöðu, menntun, líkamlegri eða vitsmunalegri getu? Sjónskertir og ólæsir borgarar hafa kosningarétt, sömuleiðis einstaklingar með heyrnarskerðingu eða greindarskerðingu. Af hverju ætti að mismuna innflytjendum á grundvelli íslenskukunnáttu þeirra?

Á þeim tíma þegar ofangreindir atburðir áttu sér stað var íslenskuprófið reyndar ekki eina skemmtilega raunin sem umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt þurftu að ganga í gegnum. Stjórnvöld gerðu líka kröfu um að umsækjandi afhendi meðmælabréf frá tvennum „sönnum Íslendingum“ sem vottuðu að umsækjandinn væri ekki óalandi og óferjandi útlendingur, eða á einhvern hátt óverðugur þess að kallast „Íslendingur“. Þessu hefur hefur verið breytt nýlega þannig að meðmælabréf er ekki lengur skilyrði. Áfram þurfa umsækjendur þó að afhenda ýmis önnur gögn svo sem sakavottorð frá upprunalandinu (í löggiltri þýðingu ef vottorðið er ekki á ensku eða einum af norrænu málunum), afrit af skattframtölum síðustu þriggja ára til sönnunar þess að umsækjandinn hafi næg fjárráð til að framfleyta sér og vottorð um að umsækjandi hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sínu.

Það er gott að vita til þess að stjórnvöld standa vaktina…