Virkur ferðamáti til framtíðar
Margt er sniðugt í þessum heimi en fátt jafn sniðugt og virkur ferðamáti. Öll þekkjum við það að sitja föst í umferð og velta fyrir okkur lífinu. Eflaust þykir einhverjum skemmtilegt að sitja fastur í umferð en velta má fyrir sért: hvað gat maður gert betur við tímann? Að hjóla eða ganga í vinnu, skóla eða annað í stað þess að keyra bætir andlega heilsu og umhverfið. Ofan á það þá veldur það því að við notum þann tíma, sem áður var varið sitjandi, í hreyfingu. Þar af leiðandi er virkur ferðamáti frábær leið til að berjast gegn loftslagsvánni þar sem hann slær tvær flugur í einu höggi með aukinni hreyfingu og þar af leiðandi minnkun kyrrsetu fólks og mengar minna.
Áhrif á hreyfingu
Hreyfingarleysi er faraldur sem getur haft skaðleg áhrif en talið er að 80% af fullorðnum í Bandaríkjunum og meira en helmingur fólks innan Evrópusambandsins hreyfi sig ekki nóg samkvæmt viðmiðum WHO (World Health Organization) (Toner o.fl., 2021). Ísland er því miður engin undantekning því samkvæmt könnunni Heilsa og líðan Íslendinga árið 2017, sögðust einungis 69,6% hafa stundað miðlungs erfiða hreyfingu í 30 mínútur eða meira í 4 daga eða sjaldnar, seinustu 7 dagana (Embætti landlæknis, 2017). En ráðleggingar WHO segja að allir fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu a.m.k. 150 mínútur á viku (World Health Organization, 2022). Einnig samkvæmt könnun framkvæmd af Embætti landlæknis árið 2022 voru 17,3% landsmanna sem hjóluðu eða gengu í vinnu eða skóla þrisvar sinnum eða oftar í viku (Embætti landlæknis, 2022). Með því að hreyfa sig meira og minnka kyrrsetu getur fólk bætt heilsu sína til muna. Aukin hreyfing er talin minnka líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum, offitu, sykursýki, öndunarfærasjúkdómum, ákveðnum krabbameinum og andlegum veikindum (Xu o.fl., 2013).
Áhrif á umhverfi
Ekki nóg með það að áhrifin á heilsu og vellíðan séu mikil heldur eru áhrifin sem við getum haft á umhverfið með virkum ferðamáta einnig gríðarleg. Rannsókn sem var gefin út árið 2021 og studdist við gögn úr sjö evrópskum borgum sýndi fram á að með því að ganga eða hjóla á milli staða frekar enn að keyra minnkaði kolefnislosun einstaklinganna. Meira að segja þegar aðeins hluti bílferða var skipt út fyrir virkan ferðamáta sást samt marktækur munur á kolefnislosuninni (Brand o.fl. 2021). Einnig hefur verið sýnt fram á það í Kaupmannahöfn að samdráttur í bílaumferð hefur gríðarlega jákvæð áhrif á umhverfið þar sem að loft- og hávaðamengun minnkar töluvert. Einnig hafa borgir eins og t.d. Barcelona byrjað að setja upp svokallaðar “superblocks” sem afmarka minni íbúðasvæði og búa til stærri græn svæði (e. green spaces) í miðjunni á þeim. Það dró úr bílaumferð og þar af leiðandi fjölgaði þeim sem notuðu virkan ferðamáta, sem leiddi meðal annars til lægra kolefnisspors, betri loftgæða á þessum svæðum og betri heilsu eins nefnd var hér að ofan (Toner o.fl., 2021).
Hvað getum við gert?
En hvað skal gera til að fá fólk til að skilja bílinn oftar eftir heima og ganga eða hjóla frekar? Nauðsynlegt er að fræða fólk um bæði líkamlegan og umhverfislegan ávinning þess að nota virkan ferðamáta. Fólk oft áttar sig ekki á því hvað virkur ferðamáti getur skipt miklu máli og bætt heilsu manns. Mikilvægt getur því verið að taka samtalið við fólk og dreifa boðskapnum. Með því að ganga eða hjóla sjálf á milli staða og tala fyrir mikilvægi þess og að fá fleiri til að gera það sama, setjum við pressu á stjórnvöld til að bæta aðstæður líkt og lagningu göngu- og hjólastíga, uppsetningu grænna svæða og leikvalla. Samkvæmt rannsóknum hefur það sýnt sig að ef að þessi atriði eru í lagi þá mun það hafa jákvæð áhrif á hreyfingu barna og fullorðinna (Smith o.fl., 2017). Árið 2022 framkvæmdi Embætti landlæknis rannsókn um hversu margir hjóluðu eða gengu í vinnu eða skóla þrisvar eða oftar í viku í nokkrum ákveðnum sveitarfélögum. Niðurstöðurnar má sjá í töflunni hér til hliðar (Embætti landlæknis, 2022). Það er því nokkuð ljóst að þau sveitarfélög sem eru með marktækt lægra hlutfal fólks sem ferðast gangandi eða hjólandi þurfa að horfa inn á við hvort eitthvað sé hægt að gera til að annað hvort bæta fræðslu um ávinning virks ferðamáta eða bæta aðstæður til þess að stunda hann. Það er nokkuð ljóst að við sem þjóð ættum að stefna á að hvetja fleiri til að ganga eða hjóla á milli staða.
Ekki er samt nóg að stjórnvöld horfi inn á við heldur þurfum við sem einstaklingar að gera það líka. Við þurfum að vilja finna leiðir til að stunda virkan ferðamáta og hugsa í lausnum. Það á eftir að skila sér margfalt til baka. Við þurfum annars vegar ekki að eyða stórum hluta af deginum föst í bílnum og hins vegar bætir hreyfing heilsu og vellíðan á sama tíma og við drögum úr neikvæðum áhrifum á umhverfið með lækkandi kolefnisspori. Allt þetta hjálpar samfélaginu í heild.