Ísrael og Palestína: baráttan um frásögnina

Árás Hamas á Ísrael og hefndaraðgerðir Ísraels í kjölfar hennar hafa nú kostað líf um 1.200 Ísraela og 12.000 Palestínumanna, en í báðum tilfellum voru flest fórnarlömb almennir borgarar. Árás Hamas þann 7. október kom öllum að óvörum, en síðan þá hafa sprengjur Ísraelshers dunið á Gazaströnd í refsingarskyni, meðal annars á spítölum og flóttamannabúðum Palestínumanna. Um helmingur íbúa á Gaza-svæðinu hafa þurft að yfirgefa heimili sín, og á einum mánuði hafa þar orðið fleiri dauðsföll en á síðustu 23 árum samanlagt. Skortur á vatni, matvöru, eldsneyti og rafmagni hefur verið viðvarandi hjá íbúum Gaza (2,3 milljónir) eftir að Ísraelar hertu enn frekar á herkvínni sem hefur verið við lýði á Gaza síðan 2005.

Viðbrögð Bandarískra stjórnvalda eftir árásir Hamas í Ísrael létu ekki á sér standa. Bandaríkin lýstu yfir fullum stuðningi við Ísraela og sendu flugmóðurskip og herþotur á svæðið. Varnarmálaráðherra lofaði aukna aðstoð í formi hergagna, en hernaðaraðstoð Bandaríkjanna til Ísraels nemur 3 milljarðar bandaríkjadala á ári.

Á meðan stríðið geisar á Gaza eru annars konar átök áberandi í fjölmiðlaumfjöllun og stjórnmálum: einhvers konar stríð um tungumálið. Baráttan um hugtökin skiptir sköpum þegar kemur að því að skilgreina átökin: Stríð? Innrás? Hryðjuverk? Sjálfsvörn? Stríðsglæpir? Þjóðarmorð? Hver er sekur og hver er fórnarlambið? Hver er árásaraðilinn og hver er að verja sig?

Margir hafa furðað sig á viðbrögðum Bandarískra stjórnvalda eftir atburðina. Stutt greining á ræðu Joe Bidens þann 20. október (eftir 13 daga af linnulausum sprengjuárásum á Gaza) lýsir vel afstöðu Bandarískra stjórnvalda. Frásögnin er furðulega einhliða: Biden byrjar á því að nefna fjölda dauðsfalla hjá Ísraelum og dvelur lengi við þjáningar þeirra, en nefnir hins vegar engar tölur þegar kemur að Palestínumönnum, þrátt fyrir að mannfallið hafi nú þegar orðið þrefalt meira hjá þeim þegar ræðan var flutt.

Biden segir frá persónulegri reynslu af því að hafa hitt Ísraela „sem höfðu sjálfir lifað í gegnum skelfilega hryllinginn sem árásir Hamas fólu í sér.“ Um Palestínumenn segist hann vera „harmi lostinn yfir þeim harmleik sem mannfallið í Palestínu feli í sér.“ Dauði Ísraela eru sem sagt afleiðingar „skelfilegra árása Hamas“ á meðan dauði Palestínumanna virðist vera einhver óhjákvæmilegur „harmleikur“ sem enginn ber ábyrgð á. Biden bætir við um leið að Ísraelar beri ekki ábyrgð á árásina á Al-Ahli spítalann þann 18. október, þar sem hundruðir óbreyttra borgara létu lífið. Hvorki Biden né Ísraelsstjórn hafa hins vegar getað fært sannanir fyrir því að árásin hafi verið misheppnuð flugskeytaárás af hálfu Hamas, þrátt fyrir fullyrðingar í þá veru.

Árásir á óbreytta borgara virðast vera eðlileg sjálfsvörn þegar Ísraelar eiga í hlut, en hvergi er minnst á rétt Palestínumanna til að verja sig gegn þá landtöku, kúgun, mismunun og herkví sem þeir hafa mátt þola í áratugi af hálfu Ísraela. Hamas-liðar eru „hryðjuverkamenn“ sem „hafa sleppt lausu algjöru helvíti á jörðu,“ en um ofbeldi Ísraela á Gaza hefur Biden lítið annað að segja en að „við syrgjum dauða saklausra borgara,“ eins og sá dauði sé algjört aukaatriði.

Biden grípur síðan til þess ráðs að bera saman árásina á Ísrael þann 7. október við innrás Rússlands í Úkraínu. Þetta hlýtur að teljast í besta falli mjög vafasamur samanburður, þar sem Biden er með þessu að snúa sögunni algjörlega á hvolf. Landtaka Ísraela í landi Palestínumanna hefur verið lykilþáttur í átökunum í áratugi, en í dag búa yfir 700.000 Ísraelar í ólöglegum landtökubyggðum víðsvegar um Palestínu og sá fjöldi hefur farið stöðugt vaxandi síðan 1967. En jafnvel þótt Hamas hefði í hyggju að hertaka Ísrael eins og Pútín reyndi í Úkraínu væri slík aðgerð fullkomlega vonlaus þar sem Ísraelsher býr yfir margfalt fjölmennara herliði og margfalt fleiri og betri hergögnum, svo sem skriðdrekum, herþyrlum, herþotum, herskipum, og jafnvel kjarnorkuvopnum, allt hlutir sem Hamas-liðar geta ekki einu sinni látið sig dreyma um.

Hamas-liðar hafa reyndar sjálfir lýst því yfir að helsti tilgangur árásanna þann 7. október var að neyða Ísraela til að hætta landtöku á Vesturbakkanum, en samsteypustjórn Netanyahu forsætisráðherra Ísraels hefur haft það á stefnu sinni að hraða enn frekar þeirri landtöku sem hefur átt sér stað þar í trássi við alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu Þjóðanna. Í ræðu sinni minnist Biden ekki einu orði á þetta, þótt flestir átti sig á því að landtökubyggðirnar og almenn kúgun á Palestínumönnum sé fíllinn í stofunni þegar kemur að átökum milli Ísraela og Palestínumanna.

Antonio Guterres leiðtogi Sameinuðu Þjóðanna taldi reyndar nauðsynlegt að setja árásirnar í sögulegt samhengi. „Árásirnar gerðust ekki í einhverju tómarúmi,“ sagði Guterres. „Palestínumenn hafa mátt þola kæfandi hernám í 56 ár.“ Eftir þessa yfirlýsingu var Guterres að sjálfsögðu sakaður um að réttlæta árásir Hamas. Það að útskýra jafngildir hins vegar ekki að réttlæta.

Í ræðu sinni sagðist Biden auk þess hafa heimsótt Mahmud Abbas forseta palestínsku heimastjórnarinnar og „ítrekað stuðning Bandaríkjanna við sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna.“ En alveg eins og fordæmingin tekur á sig ólík form, virðist „stuðningur“ Bandaríkjanna hafa mjög ólíka merkingu eftir því hver á í hlut. Ísraelar fá hergögn, fjármagn og liðsauka, á meðan Palestínumenn þurfa að láta sér nægja að fá góðlátlegt klapp á bakið: „Gangi ykkur vel!“


Einhverjir gætu spurt sig hvernig standi á því að Biden fór á fund við Mahmud Abbas, sem ræður yfir Vesturbakkanum, en sleppti því um leið að ræða við leiðtoga Hamas, sem ráða yfir Gaza-ströndinni síðan þeir unnu kosningar þar árið 2006 og eru ábyrgir fyrir árásina á Ísrael? Það er vegna þess að Bandaríkin hafa skilgreint Hamas sem hryðjuverkasamtök, en samkvæmt lögum mega Bandarísk yfirvöld ekki semja við slík samtök.

Það má setja stórt spurningarmerki við þessa aðferðafræði. Eins og Hamas, gerðist andspyrnuhreyfingin IRA á Írlandi (Irish Republican Army) ítrekað sek um hryðjuverk og bar ábyrgð á dauða um 2000 óbreyttra borgara á tímabilinu 1968-98; eins og Hamas neituðu IRA-liðar að viðurkenna Norður-Írland sem þjóð og sögðust vilja tortíma því, og eins og Hamas voru IRA-samtökin stimpluð „hryðjuverkasamtök“ af Breskum yfirvöldum. Það kom ekki í veg fyrir að á endanum tókst að semja um frið, og líklega hefði aldrei náðst að semja um frið á Norður-Írlandi nema með tilkomu IRA. „Þeir sem þekkja ekki söguna eru dæmdir til að endurtaka hana,“ sagði heimspekingurinn. 

Hér skipta hugtökin líka máli: hvað eru hryðjuverkasamtök? Það er engin almennt viðurkennd skilgreining á orðinu „hryðjuverk“ hjá alþjóðasamfélaginu. Sameinuðu Þjóðirnar sjálfar hafa enga skilgreiningu og vara einmitt við misnotkun á þessu hugtaki: „Skortur á skilgreiningu getur ýtt undir stjórnmálavæðingu og misnotkun hugtaksins“ og að slík misnotkun getur leitt til þess að „ríki brjóti á réttindum sinna eigin borgara eða réttindum annarra, svo sem mannréttindum, meðan á aðgerðum gegn hryðjuverkum stendur“. Sameinuðu Þjóðirnar hafa þó oft reynt að skilgreina hryðjuverk í samþykktum sínum. Ein algeng skilgreining er þessi (úr samþykkt 49/60):

„Aðgerðir sem eru ætlaðar til að valda skelfingu hjá almenningi, hjá tilteknum hópi eða hjá tilteknum einstaklingum í pólitískum tilgangi.“

Annar algengur skilningur á hryðjuverkum er að í þeim felist „árás á óbreytta borgara.“ Vandinn er að báðar þessar skilgreiningar eiga að einhverju leyti við Hamas, en eiga sömuleiðis við ‒ og jafnvel enn frekar við ‒ aðgerðir Ísraelshers á Gaza og Vesturbakkanum síðustu 75 ár. Þar hefur Ísraelsher drepið fleiri óbreytta borgara en Hamas-liðar, og það af einbeittum vilja, jafnvel áður en samtökin Hamas urðu til.





Í raun hafa flestallar andspyrnuhreyfingar einhvern tímann gerst sekar um árásir á óbreytta borgara: franska andspyrnuhreyfingin undir hernámi Nasista greip stundum til þess ráðs að myrða borgara sem hún taldi vera að ganga erindi Nasista, og jafnvel ANC, andspyrnuhreyfing Suður-Afríku undir stjórn Nelson Mandela frá 1991-1997, var ekki saklaus um slíkar árásir, þótt þær væru vissulega frekar sjaldgæfar. Það má vel gagnrýna þessar aðferðir, en það getur ekki verið afsökun til að hunsa eða draga í efa réttmætar kröfur þessara hreyfinga.

Munurinn á baráttu ANC annars vegar og andspyrnuhreyfingu Palestínu hins vegar (Hamas er aðeins ein birtingarmynd hennar) var sá, að alþjóðasamfélagið studdi að mestu leyti við bakið á ANC, sem gerði Mandela og félögum kleift að sigrast á kúgurum sínum að mestu leyti friðsamlega. Heimurinn virðist hins vegar hafa yfirgefið andspyrnuhreyfinguna í Palestínu algjörlega, og þá sérstaklega Bandaríkin, sem styðja Ísrael sama hvað á dynur. Þetta leiðir til þess að Ísraelar hafa engan hvata til að semja um frið þar sem slíkur friður myndi fela í sér endalok á útþenslustefnu þeirra. Palestínska andspyrnuhreyfingin stendur þess vegna eftir veik, sundruð og máttlaus, þar sem friðsamleg mótmæli, friðarviðræður og áköll til alþjóðsamfélagsins sem hafa staðið yfir í marga áratugi hafa engu skilað.

Í gegnum allar friðarviðræður hefur Ísraelsríki haldið áfram að naga sífellt stærri hluta af Palestínu, heldur nú Gaza-búum í einhverskonar útifangelsi og rekur það sem mannréttindasamtök hafa kallað „aðskilnaðarstefnu“ á hernumdum svæðum Palestínu, án þess að Bandaríkin, hin svokallaða „lögregla heimsins,“ aðhafist neitt, nema til að útvega Ísraelum stríðstól.

„Við erum, eins og vinkona mín Madeleine Albright sagði, hin ómissandi þjóð,“ segir Biden undir lok ræðu sinnar. „Í kvöld eru saklausir borgarar út um allan heim sem bera von í brjósti sér, þökk sé okkar stuðningi, sem trúa á betra lífi þökk sé okkar stuðningi, sem óska þess heitt að við gleymum þeim ekki, og eru að bíða eftir okkur.“

Hér er Biden augljóslega ekki að tala um Palestínumenn, sem hafa löngu misst vonina á aðstoð Bandaríkjanna.

Baráttan um hugtökin breiðist út um allan heim og hefur náð alla leið til Íslands. Nýlega ákvað utanríkisráðherra Íslands að gerast kaþólskari en páfinn og neitaði því í viðtali við norskan blaðamann að Ísraelar væru að framkvæma „árásir“ á Gaza. Hann taldi þá hugtakanotkun vera ranga til að lýsa hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna á Gaza. Ráðherrann neyddist fljótlega til að draga í land þegar í ljós kom að Ísraelsher skilgreindi sjálfur aðgerðirnar sem „árás“. Þetta er því miður grátbroslegt dæmi um meðvirkni margra leiðtoga Vesturlanda með yfirvöldum í Ísrael og Bandaríkjunum.

Síðan kom í ljós að Ísland sat hjá í atkvæðagreiðslu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um ályktun um vopnahlé af mannúðarástæðum. Ástæðan var sú að í ályktuninni vantaði fordæming á árásum Hamas. En viljinn til að fordæma eingöngu misgjörðir Hamas en þegja um leið um allar fyrri misgjörðir Ísraela (aðeins árið 2022 voru 204 Palestínumenn myrtir af hermönnum og landnemum Ísraels) sýnir einu sinni enn tilhneiginguna til að skella allri skuldinni á Hamas og fría þannig Ísraelsstjórn allri ábyrgð á stöðunni sem uppi er komin.

Tilraunir „hófsamra“ leiðtoga Palestínu á borð við Yasser Arafat og Mahmoud Abbas við að semja um frið hafa engu skilað. Á tíunda áratug síðustu aldar gerðust Bandarísk yfirvöld miðlari í friðarviðræðum sem Yasser Arafat tók þátt í fyrir hönd Palestínu. Hápunktur viðræðnanna var Osló-yfirlýsingin árið 1993, en samkvæmt henni viðurkenndi Arafat tilverurétt Ísraelsríkis gegn því að Ísraelar myndu skila því landi sem hafði verið tekið af Palestínumönnum. Ísraelar stóðu hins vegar aldrei við samninginn og landtakan hélt áfram án afleiðinga af hálfu Bandaríkjanna.

Samningaleiðin skilaði sem sagt aldrei neinu fyrir Palestínumenn. Er einhver furða að þeir halli sér nú í átt að herskárri leiðtogum á borð við Hamas? Sá sem hefur tapað voninni er alltaf líklegri til að grípa til örþrifaráða. Það er sjálfsagt að fordæma árásir Hamas á óbreytta borgara, en yfirlýsingaglaðir leiðtogar mættu um leið spyrja sig:

„Hvað hefði ég gert í þeirra sporum?“