Nýjar stúdentaíbúðir teknar í notkun í Skuggahverfi

Í síðasta mánuði voru tíu stúdentaíbúðir teknar í notkun í nýju húsnæði við Lindargötu 44, í Skuggahverfinu í miðborg Reykjavíkur.  Á stúdentagörðunum í Skuggahverfi eru 108 íbúðir í heildina en nýju íbúðirnar eru einstaklingsíbúðir með eldunaraðstöðu og baðherbergi.

Þann 15. nóvember hélt Félagsstofnun Stúdenta (FS) opnunarhóf í nýjum samkomusal á stúdentagörðunum en af því tilefni var nafn samkomusalarins tilkynnt fyrir gesti og íbúum og mun hann heita Skuggagil. Leigjendur stúdentaíbúða í Skuggahverfinu munu hafa aðgang að samkomusalnum sér að kostnaðarlausu. Þar er eldunaraðstaða ásamt borðum, stólum, sófum og sjónvarpi og salurinn því tilvalinn til að halda afmæli eða annars konar veislu. Rauði þráðurinn í stefnu Stúdentagarða er að ýta undir samveru íbúa og koma í veg fyrir félagslega einangrun. Flestar byggingar hafa því til afnota sameiginleg svæði sem hægt er að nýta til hvers kyns samveru.

Árið 2022 var hafist handa við að rífa niður þriggja hæða steinhús sem stóð á lóðinni og þótti henta illa fyrir stúdentaíbúðir, en í staðinn var reist núverandi bygging sem er klædd timbri. Samkomusalurinn er á jarðhæðinni og er með góða teng­ingu út á sam­eig­in­legt úti­svæði. Á fyrstu og annarri hæðinni eru íbúðirnar sjálfar.



Á síðustu árum hefur verið hröð þróun í byggingu stúdentaíbúða. Í vor voru 111 íbúðir teknar í notkun á Sögu (þar sem áður var Hótel Saga) en þar á undan náðust aðrir stórir áfangar, svo sem Gamli Garður (69 herbergi) og Mýrargarður við Sæmundargötu (244 íbúðir og herbergi). Á síðustu fjórum árum hafa um það bil 430 nýjar stúdentaíbúðir bæst við eignasafn FS, sem hefur nú yfir að ráða 1608 leigueiningar. „Við erum samt tilbúin að halda uppbyggingunni áfram enda stefnum við að því að eiga íbúðir fyrir 15% af fjölda háskólanema við HÍ,‟ segir Heiður Anna Helgadóttir þjónustustjóri FS í viðtali við Stúdentablaðið, ‟hlutfallið er núna í kringum 11,5% en stúdentar eru nú um það bil 14.000 og það þýðir að við þurfum að stefna á 2.000 íbúðir að lágmarki.‟

Betur má ef duga skal, segir máltækið, en um þessar mundir eru um 450 einstaklingar á biðlista eftir íbúð. Á tímabilinu 1. júní til 10. september var 502 leigueiningum úthlutað til rúmlega 530 stúdenta en umsækjendur voru 2.744 talsins og því fengu færri en vildu.

Heiður Anna Helgadóttir, þjónustustjóri FS.

„Hingað til hefur uppbyggingin gengið vel en að undanförnu hefur gengið frekar illa að fá fleiri byggingarlóðir úthlutaðar þannig að það er því miður ekki mikil uppbygging framundan eins og er‟, segir Heiður Anna. „Það munu bætast við um 20 herberg við Vatnsstíg á Skuggagarðsreitnum og svo höfum við fengið lóðarvilyrði í Skerjafirðinum og þar stefnum við að því að hefja byggingu á 107 þriggja herbergja íbúðum, en eftirspurn eftir þeirri tegund íbúða hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Það verkefni virðist hins vegar vera orðið pólitískt bitbein og er því miður á ís sem stendur. Við höfum líka óskað eftir því að kaupa Stapa af Háskóla Íslands og breyta í stúdentagarð. Þar væri hægt að koma fyrir 48 herbergjum með sameiginlegri aðstöðu og myndi gefa okkur tækifæri til að skapa enn þéttara og samheldnara samfélag íbúa við Hringbraut.

Skilyrði fyrir því að fá úthlutað stúdentaíbúð er að umsækjandi sé skráður í að minnsta kosti 20 einingar á önn við Háskóla Íslands. Þá er hámarksdvöl 3 ár fyrir nemendur í grunnnámi og 2 ár fyrir nemendur í meistaranámi. Húsnæði sem FS býður upp á er mjög fjölbreytt, allt frá 16 fermetra einstaklingsherbergi með sameiginlegri eldunaraðstöðu fyrir 117.000 krónur á mánuði upp í fjögurra herbergja fjölskylduíbúð (111 fm.) fyrir 230.000 á mánuði. Þá er með­al­fer­metra­verð leigu­í­búða á stúd­enta­görðum rúm­lega 25% lægra en á almenna leigumark­aðnum auk þess sem leigjendur geta sótt um húsaleigubætur, en stúdentar sem eiga ekki lögheimili á höfuðborgarsvæðinu hafa forgang til úthlutunar.