Áfram stelpur: Kvennaverkfallið 2023

Kvennaverkfallið

Það fór ekki framhjá neinum þann síðastliðinn 24. október þegar um hundrað þúsund konur söfnuðust saman á Arnarhóli til að mótmæla kynbundnu ofbeldi og launamismunun kvenna og kvára. Svipaðar samkomur áttu sér stað á átján öðrum stöðum, þar á meðal Akureyri, Egilsstöðum, Stykkishólmi og Vestmannaeyjum. Konur um allt land lögðu niður störf og sinntu hvorki húsverkum né börnum.


Þessi dagur hefur einnig verið nefndur kvennafrídagur þar sem konur tóku sér upphaflega hluta af deginum í frí, en í ár endurtók íslenska kvenþjóðin verkfallið í sjötta sinn frá 1975. Verkfallið vakti ekki aðeins mikla athygli hérlendis heldur einnig um allan heim, ekki síst eftir að forsætisráðherrann okkar Katrín Jakobsdóttir tók sjálf þátt í verkfallinu og lagði niður vinnu. Fréttamiðlar eins og BBC á Englandi, Berlingske í Danmörku og The New York Times í Bandaríkjunum eru dæmi um fréttamiðla sem fjölluðu um verkfallið og þátttöku Katrínar. Allar konur og kvár hér á landi, jafnt innflytjendur sem Íslendingar, voru hvött til að taka þátt í verkfallinu og ætlast var til þess að karlar, eiginmenn, afar, bræður og önnur skyldmenni myndu hlaupa í skarðið.


Dagskrá verkfallsins

Þátttakendum var boðið upp á að koma saman á Grettisgötu að kvöldi 23. október og mála skilti til að hafa og ganga með daginn eftir. Dagskrá verkfallsins hófst svo kl. 9:00 og þá var gengið í kringum Reykjavíkurtjörnina, síðan var safnast saman á Arnarhóli kl. 14:00 þar sem Ólafía Hrönn og Aldís Amah Hamilton settu af stað verkfallið og síðan var farið með hvatningarorð og spiluð tónlist. Ræðufólk var meðal annars Alice Olivia Clarke og Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinga. Ragga Gísla, söngkona í kvennasveitinni Grýlurnar sem gáfu meðal annars út lagið „Ekkert mál‟ og Una Torfadóttir leiddu sönginn í laginu „Áfram stelpur‟. Lagið kom út árið 1975 og er nú þekkt sem nokkurs konar lag kvennabaráttunnar. 

Saga kvenréttinda

Fyrsta kvennaverkfallið var haldið þann 24. október 1975 þegar rúm 90% kvenna gengu úr vinnu til að krefjast jafnréttis á vinnumarkaði og launakjara á við karlmenn. Svipað verkfall var haldið árið 1985 en þátttakan var heldur minni (25.000 konur). Árið 2005 ákváðu konur að grípa til aðgerða eina ferðina enn, nema nú var farin sú leið að reikna út hversu margar klukkustundir launin þeirra væru miðað við laun karla, og síðan gengu þær úr vinnu um leið og þær voru hættar að fá borgað fyrir vinnuna, klukkan 14:08. Árin 2010 og 2016 var mótmælt aftur með sama hætti. Árið 2018 var ekki búið að laga nema um 16% af launamismun samkvæmt kvennafri.is.


Hver stóðu að baki verkfallsins

Fjölmörg komu að því að undirbúa kvennaverkfallið 2023. Meðal þeirra voru Aflið, sem eru félagasamtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR), Ungar athafnakonur sem stuðla að jafnrétti kvenna og karla með því að skapa vettvang þar sem konur fá að læra og styðja hvor aðra, Samtökin ‘78 sem eru hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi, ásamt 33 öðrum félögum svo sem Öfgar, Stígamót, Kvenréttindafélag Íslands og fleiri.

Hvað svo?

Launamunur kynjanna mældist enn um 9.1% að meðaltali árið 2022 samkvæmt Hagstofu Íslands. Það var þó smá framför þar sem hann mældist 10.2% árið 2021. Með kvennaverkfallinu er haldið áfram að þrýsta á launagreiðendur og ríkisstjórn til að draga úr þessu launamisrétti. Með verkfallinu er einnig verið að vekja athygli á stöðu Íslands í útlöndum, sem getur leitt til þess að fleiri þjóðir fari að krefjast jafnra launa kynjanna, sem er þó að einhverju leyti nú þegar tilfellið. Það skiptir samt mestu máli að við höldum áfram að berjast fyrir jafnrétti.