Stríðið í Úkraínu: dramb, stolt og þjóðernishyggja



EFTIR SEINNI HEIMSSTYRJÖLD myndaðist sterk samstaða meðal helstu ríkja Vesturlanda um að skapa nýjar alþjóðastofnanir með það að markmiði að leysa úr ágreiningi á milli þjóða og koma í veg fyrir vopnuð átök. Stofnanir á borð við Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hafa verið í stöðugri þróun síðan þá, en sitt sýnist hverjum um árangur þessara stofnana í að hindra stríð. Þótt vopnuð átök á milli stærstu Evrópuþjóða hafi vissulega ekki endurtekið sig síðan þá hafa stríð í Evrópu verið þó nokkur á síðustu sjötíu árum.

Eitt þeirra geisar enn þegar þessi orð eru skrifuð, en fórnarlömb stríðsins í Úkraínu eru þegar orðin yfir 500.000, fyrir utan þá sem hafa þurft að flýja heimili sín. „Það eina sem við getum lært af sögunni er að við lærum ekkert af sögunni,“ á þekktur heimspekingur að hafa sagt. Slík bölsýni er kannski ekki að skapi sagnfræðinga, sem myndu seint samþykkja að fræðigrein þeirra sé tilgangslaus tómstundaiðja. Stúdentablaðið fékk Guðmund Hálfdánarson prófessor í sagnfræði til að varpa ljósi á stríðsátök í Evrópu, samspil stríðs og þjóðernishyggju og alþjóðasamvinnu.


Guðmundur Hálfdánarson

„Aldrei aftur!‟ sögðu leiðtogar Vesturlanda

„Stríð hefur fylgt manninum frá örófi alda, en seinni heimsstyrjöldin markaði ákveðin tímamót. Tæknivæðing og iðnvæðing stríðsins gerði það að verkum að átökin urðu sífellt skelfilegri og náðu hápunkti með kjarnorkusprengjunum í Hiroshima og Nagasaki í Japan. Eftir að stríðinu lauk gerðu franskir og þýskir stjórnmálamenn með sér samkomulag, undir forystu Konrads Adenauers kanslara Þýskalands og Roberts Schumans utanríkisráðherra Frakklands, um að rjúfa þann vítahring sem hafði myndast í samskiptum ríkjanna með því að efla samvinnuna og koma á fót einhvers konar yfirþjóðlegu valdi sem gæti leyst úr átökum,“ segir Guðmundur.

Þessi átök Þjóðverja og Frakka er hægt að rekja aftur til fransk-prússneska stríðsins á árunum 1870-1871 sem þróaðist síðan í vítahring átaka þar sem var verið að hefna fyrir ófarir fyrri tíma.

Undir forystu Napóleons þriðja urðu Frakkar undir í þessari deilu en í friðarsáttmálanum var kveðið á um að Þýskaland fengi héruðin Alsace-Lorraine. Í dag liggja þau Frakklands-megin landamæranna eftir að hafa orðið viðvarandi þrætuepli í samskiptum ríkjanna tveggja. Til að mynda urðu héruðin hluti af franska lýðveldinu á ný eftir fyrri heimsstyrjöldina, en eftir hernám nasista í Frakklandi innlimuðu Þjóðverjar svæðið aftur í Þýskaland. Frá 1942 voru íbúar héraðanna gerðir að þýskum ríkisborgurum og ungum karlmönnum var gert að innrita sig inn í þýska herinn. Þeir voru þá kallaðir „les Malgré-nous“ eða „Gegn-okkar-vilja“.


Engin þriðja heimsstyrjöld en stríðsátök enn til staðar

„Evrópuhugsjónin stefndi þannig að því að koma í veg fyrir stríð í álfunni, og Evrópusambandið hefur vissulega stutt við friðinn en hefur ekki getað komið algjörlega í veg fyrir stríð, enda hafa mörg stríð geisað í Evrópu síðan 1945 þótt engin þeirra hafi endað í heimsstyrjöld. Stríðið í Úkraínu er síðasta dæmi þess.“

„Sameinuðu þjóðirnar voru líka stofnaðar upp úr seinni heimsstyrjöld og þar var reynt að læra af mistökum Þjóðabandalagsins (forvera SÞ) með því að styrkja framkvæmdavaldið innan samtakanna, það er að segja öryggisráðið. En í öryggisráðinu hafa fimm ríki sem töldust til sigurvegara síðari heimsstyrjaldar neitunarvald og það neitunarvald kemur í veg fyrir að ráðið geti beitt sér þegar ríki sem er með neitunarvald telja sig eiga hagsmuna að gæta í átökunum sem er verið að reyna að leysa.“

„Þetta sést mjög vel núna í Úkraínu og var líka augljóst í öðrum átökum svo sem í Víetnamstríðinu eða í Afganistan á dögum sovésku innrásarinnar þar. Sameinuðu þjóðirnar hafa vissulega lagt sitt að mörkum í friðar- og hjálparstarfi, en það að koma í veg fyrir stríð hefur ekki verið þeirra sterkasta hlið. Það má þá spyrja sig hvers vegna þetta neitunarvald er ekki afnumið en ástæðan er sú að stórar og voldugar þjóðir eins og Bandaríkin, Rússland og Kína myndu aldrei sætta sig við að missa neitunarvaldið og myndu þá frekar yfirgefa Sameinuðu þjóðirnar en að gefa þetta vald eftir.“


Stríð snúast ekki eingöngu um hagsmuni

„Það er erfitt að setja fram allsherjar kenningar um orsök stríðsátaka. Sjálfsagt eru oftast einhverjir hagsmunir að baki, en það eru oft margir og mismunandi þættir sem koma við sögu – jafnvel er stundum vísað til „eitraðrar karlmennsku“ þegar stríðsátök eru útskýrð. Það er allavega of mikil einföldun að halda því fram að stríð snúist eingöngu um efnahagslega hagsmuni, enda „græðir“ sjaldnast nokkur á stríði á endanum. Oftast valda stríð bæði gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni hjá öllum sem taka þátt í því.“

„Þjóðerniskennd, menning og trúarbrögð geta gegnt mikilvægu hlutverki í stríðsátökum. Innrás Bandaríkjamanna í Afganistan var drifin áfram af þörfinni til að hefna fyrir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, en sært stolt var að hluta til orsök innrásar þeirra í Írak. En eins og Rússarnir núna festust þeir í neti sem þeir losnuðu ekki auðveldlega út úr.“

„Oft eiga hugsjónir eða hugmyndafræði stóran þátt í að skapa stríðsátök. Ef við horfum til dæmis á Úkraínustríðið er erfitt að átta sig á því hvað liggur þar að baki. Margir hafa bent á útþenslustefnuna sem hefur verið ríkjandi í Rússlandi frá því á dögum keisarastjórnarinnar og að þessi stefna hefur að einhverju leyti erfst í gegnum mismunandi stjórnarform sem Rússland hefur gengið í gegnum. Aðrir trúa því að Rússland sé að verjast ásælni Vesturlanda sem séu að þrengja sér inn á þeirra yfirráðasvæði. Mér finnst trúlegt að Pútín hafi einfaldlega haldið að það myndi reynast honum auðvelt að steypa Úkraínustjórn af stóli og koma þar á einhverju leppríki sem væri honum vinveitt, svipað og í Hvíta-Rússlandi, og ég held að það sé erfitt að skilja upphaf innrásarinnar öðruvísi.“


Rússnesk yfirvöld virðast hafa hlaupið á sig

„Já, eftirá að hyggja var þessi innrás dæmd til að mistakast og því ekki hægt að skilja hana öðruvísi en þannig að Pútín hafi hlaupið á sig. Hann og herforingjar hans virðast hafa ofmetið getu rússneska hersins og nú er komin ákveðin pattstaða í þessu stríði eins og gjarnan gerist. Pútin mun ekki vilja viðurkenna ósigur og mun þess vegna reyna að halda í Krímskaga og þann hluta Donbass-héraðanna sem Rússar hafa náð á sitt vald, en á móti munu Úkraínumenn ekki sætta sig við að afhenda Rússum hluta af landinu sínu, sérstaklega ekki Donbass-héruðin, þannig að það er erfitt að sjá hvernig þetta stríð á eftir að leysast. Því má heldur ekki gleyma að milljónir Úkraínumanna, sem hafa misst allt sitt, eru á flótta frá þessum svæðum og þeir munu ekki taka því þegjandi ef heimkynni þeirra lenda í óvinveittu ríki.“


„Innrásin hefur líka vakið upp djúpar þjóðernistilfinningar hjá Úkraínumönnum, sem voru í raun og veru frekar klofin þjóð, a.m.k. fyrir innrás Rússa árið 2014. Úkraínska ríkið er mjög ungt þannig að þjóðin hefur haft lítinn tíma til að skapa sterka þjóðernisvitund, en það má segja að innrásir Pútíns hafi þjappað þjóðinni saman. Innri átökin virðast hafa horfið að mestu leyti og þjóðin stendur eftir sameinuð gegn innrásinni, hvort sem fólk er úkraínskumælandi eða rússneskumælandi.“


Fortíðin skiptir sem sagt öllu máli þegar kemur að átökum. Ein kenning undirstrikar líka að einræðisherrar séu sérstaklega líklegir til að koma stríðsátökum af stað vegna þess félagslega umhverfis sem þeir þrífast í. Slíkir leiðtogar eru gjarnan einangraðir frá samfélagi manna almennt og umkringdir svokölluðum já-mönnum sem þora ekki að andmæla leiðtoganum. Rödd skynseminnar berst þannig aldrei í eyra einræðisherrans og hann verður fyrir vikið líklegri til að ofmeta eigin getu og fara ógætilega fram.

Þar að auki þurfa einræðisherrar ekki að reiða sig í eins miklum mæli á stuðning hins almenna borgara þegar kemur að stríðsrekstri, en yfirleitt er slíkur stríðsrekstur frekar óvinsæll hjá kjósendum.



Þjóðerniskennd er tvíeggja sverð

„Er þjóðernishyggja kveikjan að stríðinu í Úkraínu? Þetta er umdeild spurning, vegna  þess að rússnesk þjóðernishyggja er í raun mjög ný og ekkert sérstaklega rótföst. Rússar litu ekki á sig fyrst og fremst sem eina þjóð, heldur íbúa í fjölþjóðlegu heimsveldi. Rússland, eins og við þekkjum það nú, varð til árið 1991. Rússneska keisaradæmið náði yfir landsvæði þar sem nú eru mörg þjóðríki. Jafnvel innan þess landsvæðis sem við nú köllum Rússland búa ýmsir þjóðernishópar sem líta ekki á sig sem „Rússa“ þannig að það hefur alltaf verið svolítið snúið fyrir Rússa að rækta með sér menningarlega þjóðerniskennd eins og við þekkjum hana hér. Hún passar mjög illa við þeirra sögu og þeirra menningararf.“


„Þess ber að geta að þjóðernishyggja þarf ekki endilega að vera árásargjörn. Ef þjóðríki eru sæmilega sátt við þau landamæri sem þau búa við þá geta þau verið mjög friðsöm. Hér á Íslandi hafa landamærin alltaf verið skýr, enda er Ísland eyja og því landfræðilega afmarkað, þótt auðvitað megi líta á þorskastríðin sem eins konar íslenska útþenslustefnu. Svo er þjóðernishyggja smáríkja gjarnan friðsöm einfaldlega vegna þess að smáríki hafa sjaldan efni á því að abbast upp á aðra!“

„Þegar þjóð telur aftur á móti að á henni sé brotið eða að landamæri hennar séu ekki virt þá bregðast þau gjarnan við af mikilli hörku, eins og sannast í tilfelli Úkraínu. Stundum er þjóðernishyggjan líka notuð til að réttlæta tilefnislausar árásir á aðrar þjóðir.“



„Bretar halda að allt komi sér við, en Íslendingar telja að ekkert komi sér við…“

Reynsla Íslendinga af seinna stríði var allt önnur en reynsla þeirra þjóða sem stóðu í miðjum átökum svo sem Frakka, Þjóðverja, Breta eða Pólverja. Seinna stríðið var tími mikils uppgangs í efnahagslífinu á Íslandi. Fyrst breskur og síðan bandarískur her settist að hér og skapaði atvinnu bæði í og eftir stríðið. Stjórnvöld í Washington dældu fé inn í íslenska hagkerfið í gegnum Marshall-aðstoðina. Einnig nýttu Íslendingar sér hernám Þjóðverja í Danmörku með því að segja upp konungssambandinu við Danmörku og stofna íslenska lýðveldið árið 1944.

Þetta er örugglega ein ástæða þess að Íslendingar hafa haft meiri efasemdir en margar nágrannaþjóðir hvað varðar Evrópusamstarfið. Íslendingar græddu á stríðinu á meðan aðrir þjáðust og fundu þess vegna ekki eins fyrir þörfinni til að gera meiriháttar umbætur á alþjóðakerfinu.

„Við höfum þess vegna ekki verið tilbúnir að viðurkenna að við tökum þátt í Evrópusamstarfinu þó við séum með annan fótinn inni því með þátttökunni í Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta skýrir þó ekki allt, því að Bretar eru nú farnir út úr Evrópusambandinu þótt þeir hafi sannarlega upplifað hörmungar stríðsins. Evrópuhugsjónin og hugmyndin um yfirþjóðlegt vald leggst einfaldlega misvel í ólíkar þjóðir. Ég held að rætur andstöðunnar í Bretlandi annars vegar og á Íslandi hins vegar séu mjög ólíkar. Minningar um breska heimsveldið litar sjálfsagt sjálfsmynd Bretar á meðan Íslendingar telja sig gjarnan svo langt í burtu frá öðrum að það sem gerist annars staðar komi þeim ekkert við.“

„Á Íslandi hefur sjálfstæðisbaráttan þar að auki sett mark sitt á stjórnmálin en hún er fersk í minni Íslendinga og bætir enn frekar ofan á þessa tortryggni.“

„Reynum að vera sæmilega til fyrirmyndar.“

En hvað geta Íslendingar gert á slíkum stríðstímum til að stuðla að friði í álfunni. Hvað getum við lært af sögunni, ef eitthvað?

Sagnfræðiprófessorinn dæsir:
„Góð spurning… Byrjað á sjálfum okkur, kannski! Hegðum okkur friðsamlega heima fyrir, eflum mannréttindi, vinnum gegn mismunun og reynum almennt að vera sæmilega til fyrirmyndar í heiminum. Þetta er eina raunhæfa leiðin sem við höfum.“

„Hvað varðar Evrópusamstarfið þá er ég sjálfur hlynntur aðild að Evrópusambandinu en tel aftur á móti að við eigum ekki að íhuga hana nema hugur fylgi máli. Ég hef ekki orðið var við sterkan vilja til inngöngu hingað til og því verðum við að reyna að stuðla að friði á einhverjum öðrum forsendum, m.a. með því beita okkur í þeim alþjóðastofnunum sem við eigum þó aðild að. Með því að taka vel á móti flóttamönnum getum við lagt okkar af mörkum til að létta á þjáningum þeirra sem eru fórnarlömb stríða. Það er ein leið til að leggja okkar litla lóð á vogarskálar friðar í heiminum.“