Bóksala stúdenta: bjartsýni þrátt fyrir mótlæti
STARFSFÓLKIÐ HJÁ BÓKSÖLU STÚDENTA siglir inn í nýtt skólaár fullt af metnaði eftir að ýmsar breytingar voru gerðar á rekstrinum. Salan dvínaði örlítið í Covid faraldrinum en eftir erfitt tímabil og töluverða endurskoðun á stefnu og starfsemi Bóksölunnar er bjartsýnin að komast aftur á dagskrá hjá starfsmönnunum.
Starfsfólkið er óhrætt við að róa á ný mið enda var nýr verslunarstjóri ráðinn í sumar. Forsvarsmenn vilja gera Bóksöluna að þægilegum viðverustað sem er meira en bara bókabúð. Barnahorn, bókakaffi og tónleikar eru meðal þess sem Bóksalan mun bjóða upp á, en aukin fjölbreytni í vöruúrvali er líka lykill að framtíð hennar.
Breytt umhverfi í heimi bóksölunnar
Bóksala stúdenta er með fjölbreytt úrval af bæði námsbókum og almennum bókum, hvort sem er á prenti eða í rafrænni útgáfu. Sala á prentuðum bókum hefur dalað eitthvað eftir tilkomu rafbóka og samkeppnin í sölu rafbóka er mikil.
„Netbókasalan okkar er mjög öflug en vandinn er að fólk kaupir einfaldlega færri skólabækur en áður. Við vitum ekki almennilega hvernig á þessu stendur. Það getur verið að í einhverjum tilvikum sé fólk að kaupa rafbækur á öðrum síðum en við höfum verið að hvetja kennara til að benda frekar á netbóksöluna okkar,‟ segir Heiður Anna Helgadóttir upplýsingafulltrúi hjá Félagsstofnun stúdenta.
Bóksalan hefur verið með skiptibókamarkað á haustin og vorin en þar er tekið við öllum námsbókum sem eru kenndar á komandi misseri hverju sinni. Stúdentar sem skila bókum fá inneign sem jafngildir 40% af upphaflegu verði bókarinnar. „Salan á skiptibókum hefur hins vegar verið of lítil,“ segir Anna Lára Árnadóttir verslunarstjóri „og ein ástæðan fyrir því er að nýjar útgáfur koma út árlega og kennarar gera gjarnan kröfu um að nemendur kaupi nýjustu útgáfuna, þrátt fyrir að efnið breytist oft mjög lítið á milli ára.“
„Þetta verður til þess að eftirspurn eftir skiptibókum er frekar lítil og þetta felur líka í sér mikla sóun, þar sem margar af þessum bókum eru í góðu ástandi og vel nothæfar. Við viljum halda áfram með skiptibókamarkaðinn en þurfum að finna lausn á þessu sem allir eru sáttir við.“
Meira en eingöngu bækur
„Bókabúð í dag þarf að snúast um annað og meira en eingöngu að selja bækur,“ segir Heiður Anna Helgadóttir upplýsingafulltrúi hjá Félagsstofnun stúdenta. „Við viljum vera meira eins og bókasafn eða kaffihús: staður til að vera á og hitta aðra, viðverustaður. Við erum með alls konar hugmyndir en viljum líka heyra hvað öðrum finnst, og erum þess vegna að fara að stofna rýnihóp til að kanna hvað stúdentar eru helst að kalla eftir.“
Í Bóksölunni er nú að finna barnahorn með leikföngum þar sem börn geta sinnt mikilvægum erindum á meðan foreldrar leika sér að því að handfjatla bækur. Í bókakaffinu geta önnum kafnir stúdentar kúplað sig í smástund frá náminu og látið sig dreyma um afslöppun og iðjuleysi með kaffibolla í hendi, en þar er boðið upp á gæðakaffi, bakkelsi og súkkulaði á stúdentaverði.
Hugmyndir eru einnig uppi um að bjóða upp á plöntuskiptahorn og bókaskiptahorn þar sem stúdentar og aðrir geta skipst á plöntum og bókum. Þar að auki bíður Bóksalan upp á fría aðstöðu fyrir viðburði svo sem upplestur eða tónleikar.
Aukin fjölbreytni í vöruúrvali
Bóksalan er í hjarta háskólasvæðisins en þar eru fáar aðrar verslanir og þess vegna býður Bóksalan upp á ýmsa smávöru fyrir utan bækur. Þar fást meðal annars ritföng, nytja- og gjafavörur, fatnaður merktur Háskólanum og leikföng.
Bóksalan reynir einnig að tileinka sér umhverfisvænni starfsemi með því að halda sóun í lágmarki og draga úr notkun umbúða. Þá eru rafbækur töluvert umhverfisvænni en prentaðar bækur.
Sala til útlanda hefur lengi verið mikilvæg stoð í rekstri hennar en bókasöfn og aðrar stofnanir í útlöndum eru mikilvægir viðskiptavinir. Þá geta einstaklingar í útlöndum einnig verslað bækur í gegnum vefverslun Bóksölunnar. Stúdentar eru tíðir gestir en fólk kemur alls staðar til að versla bækur auk þess sem landsbyggðin kaupir töluvert af bókum í gegnum vefverslunina. Þá tók búðin nýlega upp á því að selja nýjum stúdentum „start-pakka“ með kodda og sæng frá Ikea.
„Við viljum bjóða upp á gæðavöru en reynum að halda álagningu í lágmarki enda erum við óhagnaðardrifið fyrirtæki,“ segir Anna Lára. „Við bjóðum líka upp á að sérpanta bækur hvaðanæva úr heiminum, og það getur reynst hagkvæmara að panta í gegnum okkur heldur en að panta beint á netinu, þar sem við getum keypt bækur í heildsölu og sendingarkostnaðurinn verður minni þannig. Þar að auki höldum við álagningunni í algjöru lágmarki.“
Óhagnaðardrifin starfsemi sem gegnir lykilhlutverki
Bóksala stúdenta er rekin af Félagsstofnun stúdenta sem er sjálfseignarstofnun í eigu stúdenta Háskóla Íslands. Hluti skrásetningargjalds rennur til FS en stofnunin er óhagnaðardrifin. Hún rekur einnig Stúdentagarðana, Hámu og Stúdentakjallarann ásamt tveimur leikskólum á Eggertsgötu.
„Við vinnum mjög náið með Stúdentaráðinu og við viljum heyra hvað stúdentar vilja vegna þess að þeir eiga aðild að þessari stofnun,“ segir Heiður Anna upplýsingafulltrúi. „Við hvetjum alla stúdenta til að versla við Bóksöluna frekar en við stærri keðjur enda stendur hún í hjarta háskólasvæðisins og við viljum gera allt til að halda henni blómstrandi.“