Potturinn

Þýðing: Lísa Margrét Gunnarsdóttir

Í gimsteinaborg hinna gleymdu eyðimarka Fangelsissléttanna, djúpt í iðrum búgarðs Efendi Şükrü með marmaragólfum gljáandi af svita og lofti sem ilmaði af nýbökuðu brauði, bjó Selma sig til orrustu.

Hún hafði beðið átekta svo lengi að salatið var enn óklárað og teið var að kólna. Hún teygði hendurnar þvert yfir eldhúseyjuna og fylgdist með umhverfi sínu, svo einbeitt að augu hennar tútnuðu út og hún minnti helst á feita græneðlu. Og þarna sá hún glitta í endann á rauðum hala, sem liðaðist inn í skápinn þar sem pottarnir voru geymdir.

„Fatma! Náðu í kústinn, það er inni í innréttingunni!“

Kerfið fór í gang. Nú hafði hún varað samstarfskonu sína við, og Selma tók sér stöðu. Hún bretti upp ermar og stillti sér upp eins og nauti tilbúnu að mæta nautabana. Hún fylgdist grannt með skápnum og skápurinn starði á móti. Hún heyrði í Fötmu í næsta herbergi, fálmandi eftir vopni á meðan sólin læddist inn um opnar garðdyrnar og lýsti upp rykið sem virtist líka bíða í ofvæni. Selma starði -

Skyndilega opnaðist skápurinn með látum, og hendurnar á Selmu smullu á málmi áður en líkaminn skall á gólfið og litlu mátti muna að hún rúllaði inn í ofninn. Veran hafði leitað skjóls undir stærsta pottinum í eldhúsinu, halinn gægðist enn undan og potturinn færðist staðfastlega nær útganginum eins og undir honum leyndist stærðarinnar skriðdreki.

„Veran er með kássupottinn! Ekki hleypa henni út.“

Þessi tiltekni pottur hafði fylgt búgarðinum frá örófi alda og var af slíkri stærðargráðu að jafnvel stærstu hermennirnir gátu notað hann til að baða sig, svo risavaxinn að blóðsúthellingarnar sem höfðu átt sér stað yfir eignarrétti pottsins gætu ekki fyllt hann - þetta var pottur til þess gerður að brauðfæða hundruði gesta og þessi ókunna vera var við það að hafa hann á brott með sér. 

Fatma laumaðist inn í herbergið og sá Selmu rísa á fætur á sama tíma og veran í skjóli koparflykkisins færðist nær garðdyrunum. Kústurinn dundi á pottinum og veran skrækti hátt. 

„Ég næ henni, ég næ henni, þú kemst sko ekkert!“ Fatma stóð vörð við glerhurðina og mundaði kústinn eins og sveðju.

Það söng í koparpottinum eins og bjöllu, sem hringdi og hringdi í takt við högg Fötmu. Með hverju höggi heyrðist skrölt innan úr pottinum og öskur frá verunni. Potturinn seig alveg niður í gólf til að verja hana höggum, og veran hélt áfram að ýta sér lengra og í átt að flóttaleið sinni. 

„Hún er enn að hreyfast - gerðu eitthvað, Selma!“

Augu Selmu fylgdust grannt með á nýjan leik. Hún leit yfir eldhúsið og sá nokkrar pönnur, skörung fyrir eldinn, hnífa, gaffla og matinn sem hún hafði verið að undirbúa. Loks virti hún marmaraeldhúseyjuna grannt fyrir sér.

„Selma, hvað ertu að gera?“ sagði Fatima. Selma klifraði upp á eyjuna og stóð þar teinrétt. Í fyrsta sinn hafði hún fullkomið útsýni yfir yfirráðasvæði sitt í allri sinni dýrð.

„Selma, ekki, farðu niður. Einhver á eftir að sjá þig!“

Selma stökk af eyjunni og um leið flugu hnífapör, salat og sósa um allt. Í miðju lofti æpti hún herópi og minnti helst á drukkinn fálka þegar hún baðaði út höndunum. Þetta var hennar eldhús og hér réði hún ríkjum. Hún skall á pottinum og þyngd hennar tryggði að hann hreyfðist ekki meir.

Selma sat sigri hrósandi ofan á pottinum. Undir henni barðist veran um og reyndi að finna smugu til þess að komast undan, en það var enga smugu að finna. 

„Já! Já!“ sagði Fatma og faðmaði Selmu að sér. Selma lyfti handleggjunum, kreppti hnefana og rak upp fagnaðaröskur. 

„Hvað nú?“ sagði Fatima svo.

Selma leit niður á pottinn sem hún sat á. Hún leit helst út fyrir að hafa verpt risastóru, appelsínugulu eggi. Hún sá vígalegan svipinn á andliti sínu endurspeglast í yfirborði pottsins.

„Dömur mínar, er allt með felldu hér inni? Ég heyrði öskur.“

„Já, það er allt í fínu lagi, Efendi Şükrü, við misstum bara dálítið,“ sagði Fatma og veifaði handleggjunum í örvæntingu.

Selma smellti fingrum og einbeitti sér. Hún lækkaði róminn og hvíslaði: 

„Ég lyfti pottinum og þú bolar henni út með kústinum, ókei?” 

„Ókei, ókei.“

„Tilbúin?“

„Já, já, ég er tilbúin.“

„Þrír, tveir –“

Þær heyrðu kúgunarhljóð innan úr pottinum og klær fyrirbærisins skrapast eftir gólfinu. 

„Azelia hjálpi mér, er það að deyja?“

„Ég vona það, einbeitum okkur nú. Á þremur: þrír… tveir… einn!“ Fatma sneri pottinum við og grænn vökvi skvettist yfir skóna hennar. Smágerða veran, sem helst minnti á eðlu, sat nú bogin í baki og ældi út miklu magni af grænu slími. Skórnir hennar Selmu bráðnuðu eftir að hafa komist í snertingu við slímið og vökvinn brenndi húðina á tánum hennar. Hún æpti, rann til á gólfinu og þeytti pottinum til hliðar. Fatma sveiflaði kústinum sem lenti á handfangi pottsins, sem rann í átt að glerdyrunum á meðan Fatma sjálf skall í gólfið. Loftið fylltist af glitrandi glerbrotum og potturinn endasendist inn í garðinn. 

„Dömur mínar, hvað er á seyði hér inni?” sagði Şükrü og gekk inn í eldhúsið. Selma var berfætt á öðrum fæti og reyndi í örvæntingu að klæða sig úr hinum skónum, Fatma sat í hrúgu af glerbrotum og salati, brauðið í ofninum var farið að brenna og fylla herbergið af illa lyktandi reyk, og í garðinum glitti í pott sem hraðaði sér í burtu.

D. Douglas Dickinson