Mannréttindafræðsla í boði lögfræðinema

SAMTÖK EVRÓPSKRA LAGANEMA (ELSA) standa nú fyrir fræðslustarfsemi um mannréttindi í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Arndís Ósk Magnúsdóttir framkvæmdarstýra mannréttindafræðslu ELSA á Íslandi hitti Stúdentablaðið og sagði frá átakinu.

Auk Arndísar gegnir Sverrir Páll Einarsson stöðu forseta ELSA á Íslandi og Kjartan Sveinn Guðmundsson er framkvæmdastjóri fræðslustarfa en félagarnir hafa einnig í hyggju að gefa út fræðslutímarit og halda málþing um mannréttindi. ELSA eru alþjóðleg samtök sem voru stofnuð árið 1981 en ELSA á Íslandi var endurvakið árið 2018.

Sjálfboðaliðar sem vilja leggja sitt af mörkum

„Verkefnið á sér alþjóðlega fyrirmynd,‟ segir Arndís. „ELSA á meginlandinu er nú þegar að fara í skóla og fræða nemendur um mannréttindi og réttarríkið og við höfum ákveðið að taka upp þráðinn hér á Íslandi. Við byrjuðum núna í vetur en þetta gengur þannig fyrir sig að við fáum með okkur hóp af laganemum sem eru fræðarar, heimsækjum framhaldsskólanema í kennslustundir og höldum gagnvirk fræðsluerindi.‟

„Draumurinn væri að fara í alla framhaldsskóla landsins en nú erum við að einbeita okkur að höfuðborgarsvæðinu og við tökum alla bekki fyrir. Við erum með 10-15 fræðara á okkar snærum, laganema úr öllum áttum.‟ Verkefnið er ekki tímabundið átak heldur áframhaldandi verkefni sem mun halda áfram næstu árin.

„Við reynum að varpa ljósi á grundvöll stjórnskipunar: réttarríkið, lýðræði og mannréttindi. Síðan fá nemendur eintak af mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þeir læra í gegnum sögur og myndir að beita þessum réttarheimildum.‟

Jafningjafræðsla getur verið áhrifaríkari

Fræðsla um mannréttindi á vegum skólanna er mjög misjöfn eftir skólum og kennurum en sjálfboðaliðar hjá ELSA vilja ganga úr skugga um að allir fái viðunandi fræðslu. „Aðalnámskrár gera nú þegar ráð fyrir jafnréttisfræðslu í skólum landsins en það er allur gangur á því hvort þessi fræðsla sé að skila sér til nemenda,‟ segir Arndís.

„Það er ekki nóg að hafa einhverja löggjöf um mannréttindi. Lagabókstafurinn er lítils virði ef ekki er til staðar almenn þekking og meðvitund um þessi réttindi í samfélaginu. Við þurfum að læra um þau og virða þau, þá verður mannréttindavernd fyrst virk. Það er okkar von að með þessu framtaki náum við að virkja hana betur að þessu leyti.‟

„Það er líka mikilvægt að rýmið sé öruggt og að nemendur finni að þau hafi frelsi til að tjá sig heiðarlega án þess að vera dæmdir. Þess vegna höfum við trú á að jafningjafræðsla, þar sem nemendur fá að kynnast þessum hlutum með fólki á svipuðu aldri, sé öflugt tól í þessu samhengi. Það er lítill aldursmunur á milli háskólanema og framhaldsskólanema þannig að valdahlutföllin verða öðruvísi og það ríkir meiri traust.‟

Unglingarnir uppgötva réttlætiskenndina

„Þeir framhaldsskólanemar sem ég hef hitt eru oft á því stigi að þau eru að uppgötva réttlætiskenndina innra með sér og það hefur verið ótrúlega gaman að eiga í samtali við þá.‟

Nemendur eru mjög áhugasamir um fræðsluna en spurningarnar sem brenna mest á nemendum eru mjög misjafnar eftir skólum, að sögn Kjartans Sveins Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fræðslustarfa hjá ELSA. „Það sem kom mér mest á óvart er að þeir hafa ótrúlega mikinn áhuga á stóru myndinni,‟ segir Arndís. „Þeir eru ekki aðeins að hugsa um praktísku hliðina heldur eru þeir að velta fyrir sér siðferðislega grundvöllinn á bak við mannréttindi og eru djúpt hugsi um það. Þau eru fræðilegri og dýpri heldur en ég hafði ímyndað mér!‟