Babúska
ÉG Á MARGAR MINNINGAR af mér frá Rússlandi, hlaupandi eftir óralöngum göngum og íburðarmiklum, víðfeðmum sölum í stórkostlegu listasafni Vetrarhallarinnar í St. Pétursborg. Safnið telur 1500 herbergi og er annað stærsta listasafn heims.
Á fyrstu önn leikstjóranámsins í Pétursborg mætti ég vikulega í höllina á fyrirlestra í listasögu. Á þeim sex árum sem ég bjó í borginni kynntist ég mörgu góðu fólki sem er mér kært. Rússneskt fólk er upp til hópa góðhjartað og talað er um sérstöðu rússnesku sálarinnar sem ég fékk að kynnast að einhverju leyti. Rússneska sálin er djúpvitur og hlý en til að átta sig á henni er gott að skilja tungumálið sem, að mínu mati, er fallegasta og ríkasta tungumál heims. Rússnesk tunga, líkt og rússneska sálin, er margslungin og flókin.
Ekki var hjá því komist að kynnast viðardúkkunni sem innfæddir kalla matriosku eða ráðskonu. Útbreiddur misskilningur aðkomumanna er að kalla hana babúsku sem þýðir amma eða gömul kona. Dúkkurnar koma í ótal stærðum og gerðum þó svo að hin klassíska, rauða, blómótta og búldulega matrioska, sé vinsælust. Algengt er að mála á þær frægt fólk og pólitískar persónur. Forsetar Rússlands og fyrrverandi leiðtogar Sovétríkjanna koma í ótal mismunandi útgáfum. Strengjabrúðan Medvedev, leppforseti Pútíns, telst það ómerkilegur að hann fær ekki sína dúkku.
Sá forseti sem hefur valdið hverju sinni er oft stærsta og feitasta dúkkan með hina leiðtogana staflaða innvortis. Hún rúmar þá alla ásamt sögu og menningu landsins. Táknmynd matrioskunnar er marglaga laukur sem táknar ekki aðeins frjósemi heldur geymir hún einnig aflokuð leyndarmál Rússlands. Þrátt fyrir að dúkka Stalíns sé lítil, þá voru glæpir hans það ekki og hefur hann fleiri mannslíf á samviskunni en Hitler. Þegar nýir valdníðingar taka við, þá verða brot þeirra sem áður komu oft smávægileg og hverfa inn í sögubækurnar. Feita matríoskan af Pútín er endurreist járntjald sem komandi kynslóðir munu fá að súpa seyðið af. Með tímanum verður sorgum þeirra og þjáningum þjappað inn í minni dúkku, því það veit Guð að Pútin er ekki síðasti harðstjórinn til að stjórna Rússlandi. Í gegnum aldirnar hefur landinu verið stjórnað af mikilli hörku af húsbændum sem ríktu með járnhnefa. Skert tjáningarfrelsi, brot á mannréttindum og viðurlögin við því að mótmæla á götum úti eru skelfileg. Í dag eru þegnarnir sveipaðir dulu og útilokaðir frá vestrinu. Innilokaðir í köldu holrými matrioskunnar sem er úttroðin syndum feðranna.
Eftir að Úkraínustríðið braust út hefur verið klippt á samskipti mín við vini mína í Pétursborg. Um afdrif sumra samnemenda minna sem komu bæði frá Rússlandi og Úkraínu veit ég ekki. Hvort þeir hafi verið þvingaðir til að berjast og deyja fyrir föðurlandið í þessu tilgangslausa stríði milli náskyldra frændþjóða veit ég ekki heldur. Það er líkt og vinir mínir hafi verið dregnir inn í matríoskuna og henni smellt aftur.
Þeirra vegna hef ég ekki samband. Ég vil ekki koma þeim í meiri vandræði en þeir eru í nú þegar. Allt sem þeir segja eða skrifa er hægt að nota gegn þeim ef það samræmist ekki pútínskum rétttrúnaði. Whats-App samtölin sem ég hef átt við örfáa þeirra hafa verið erfið og eflaust hleruð. Hvernig byrjar maður að tala um stríð, eða í mínu tilviki ekki um stríð, við fólk sem er að lifa og hrærast í þessum hörmungum? Hvernig er hægt að tala um hversdagslega hluti, að það sé allt gott að frétta úr Reykjavík, þegar blákaldur raunveruleiki þeirra er þyngri en tárum taki?
Erfitt er að spá fyrir um hvort að ég fái nokkurn tíma aftur að spóka mig um glæsta sali Vetrarhallarinnar eða um stræti Nevsky Prospekt á björtum sumarnóttum. Það er sorglegt ef rússneska sálin og öll sú ríka flóra lista og menningar sem Rússland hefur upp á að bjóða verði læst inni í iðrum harðstjórans um ókomna tíð, fjarri umheiminum. Þetta eru áhyggjur forréttindapíu sem hefur blessunarlega aldrei kynnst stríði frá fyrstu hendi. Ég vil halda í vonina um að í náinni framtíð munu dúkkurnar opnast hver af annarri og hleypa út listinni, fólkinu og rússnesku sálinni. En það er kannski ekkert annað en barnsleg og grunnhyggin ósk Kötju Vladimirovnu frá herlausa landinu.