Átök sem stuðla að framförum: Hugleiðing um af hverju það hjálpar ekki alltaf að „halda friðinn“

Þýðing: Anna Karen Hafdísardóttir

Hugtökin friður, framfarir og átök eru erfið og eiga sér margar mismunandi hliðar. Auðvitað er mikilvægt að standa vörð um það sem þér finnst rétt, en á sama tíma getur það líka verið rót margra átaka (því fólki kemur ekki saman um hvað sé „rétt“). Í nútímanum er friður hugsjón - því miður er hann ekki raunin, og þó að við ættum öll að láta í okkur heyra hvað varðar okkar eigin réttlætiskennd, er ekki alltaf öruggt að hefja upp raust sína.

Stóra samhengið

Mörg lönd hafa komið á fót lögum sem vernda frelsið til þess að koma saman, frelsið til þess að tjá sig og skoðanafrelsi. Hugmyndin felst í því að þessi réttindi geti átt sér stað á friðsælan hátt og að hægt sé að tjá þau án þess að nokkur annar hljóti skaða af. Mikilvægt er að nefna í þessu samhengi að kröfugöngur og mótmæli hafa átt gífurlegan þátt í framförum mannkynsins.

Án mótmæla, og þeirra átaka sem gjarnan fylgja þeim, væru mörg félagsleg vandamál enn óleyst (í þessu samhengi koma upp margar hreyfingar eins og Black Lives Matter, Stonewall-uppþotin og Súffragetturnar), og mótmæli eru enn lykilþáttur í að koma á fót breytingum í heiminum hvað varðar félagslegar áskoranir sem enn á eftir að leysa (til dæmis mótmæli vegna stríðsins í Úkraínu og mótmælin sem eru að eiga sér stað í Íran tengd réttindum kvenna). Í mörgum tilfellum, eins og raunin er með Íran, hafa yfirvöld brugðist við friðsælum mótmælum með of mikilli hörku, sem veldur því að svörun almennings verður ofbeldisfyllri og mótmælin eru gjarnan máluð upp sem uppþot. Þeir aðilar sem eru andsnúnir mótmælunum reyna svo í kjölfar átaka að skilgreina mótmæli sem uppþot og gera þar af leiðandi lítið úr þeim.

Það eru í sannleika sagt of margar áskoranir sem blasa við heiminum um þessar mundir til þess að hægt sé að mótmæla þeim öllum - oft líður mér eins og ég sé of lítilvæg til þess að geta gert eitthvað í málunum. Stundum eru mótmæli og kröfugöngur ekki endilega leiðin fram á við, heldur. Á meðan sum mótmæli eru nauðsynleg og auðvitað réttmæt, finnst mér erfitt að skilja hreyfingar sem koma í veg fyrir starfsemi neyðarþjónustu, sérstaklega þegar kemur að því að hindra aðgengi sjúkrabíla. Mótmæli ættu aldrei að valda saklausu fólki skaða - það hljóta að vera til betri leiðir. Einnig er vert að nefna að ef ég ætlaði mér að mæta á öll mótmæli helguð málefnum sem ég hef sterkar skoðanir á, hefði ég ekki tíma til þess að koma neinu öðru í verk - fólk er merkilega virkt þegar kemur að víðfeðmu úrvali málefna (til dæmis loftslagsmálum, rasisma og ofbeldi beindu að hinsegin fólki og konum) og það er aðdáunarvert, en við höfum mismikinn tíma til þess að láta gott af okkur leiða, og svo höfum við skyldum að gegna gagnvart okkur sjálfum, og við verðum að tryggja að við brennum ekki út.

Persónulega samhengið

Hefurðu einhverntímann setið við matarborðið eða verið í vinnunni þegar einhver segir eitthvað ósmekklegt, og viðbrögð þín einkennast af því sem þér hefur verið kennt hvað varðar það að halda friðinn? Ég veit að ég hef upplifað þær aðstæður. Friðarþráin má ekki skyggja á þrána í framfarir og jafnrétti, og já - þetta á við um mótmæli, en líka hversdagsleikann. Markmið mitt með þessari grein er ekki að leggja til að lesendur hendi öllu frá sér og leggi sig í hættu með því að mæta á mótmæli eða rífast við ókunnuga á götunni sem kunna að hafa aðrar skoðanir. Ég hef hins vegar verið að reyna að temja mér nokkra hluti til þess að gera heiminn að aðeins betri stað, án þess að endilega mæta á mótmæli:

1)      Að styðja við fyrirtæki rekin af minnihlutahópum, innlend fyrirtæki og þau fyrirtæki sem eiga við um mín gildi. Þetta er aðeins dýrara en að styðja kapítalísku maskínuna sem Amazon er, og stundum þarf ég að leita þangað þegar ég finn ekki eitthvað, eða þegar mig bráðvantar eitthvað og hef ekki efni á dýrari möguleikum. Þetta er bæði góð leið til að styðja við aðra hópa samfélagsins (frekar en að peningurinn fari beint í vasa stórra fyrirtækjaeigenda), en ég elska líka að sjá fjölbreytnina í vöruúrvalinu, hönnuninni og þjónustunni sem lítil fyrirtæki bjóða upp á - allt ofantalið er mun einstakara en fjöldaframleitt drasl í boði stærri fyrirtækja. 

2)      Ég er að reyna að fræða sjálfa mig með því að fylgjast með samfélagsmiðlum skapandi fólks sem tilheyrir minnihlutahópum, og að tryggja fjölbreytni í minni eigin neyslu á menningu og miðlum með því að leggja áherslu á verk hinsegin fólks og fólks sem er ekki hvítt. Þetta styður bæði við skapandi fólk sem tilheyrir minnihlutahópum, en hefur líka vakið mig til umhugsunar með því að sýna mér annað sjónarhorn en ég er vön, og vakið athygli mína á málefnum sem ég vissi áður lítið um. 

3)      Ég er að vinna í því að stuðla að breytingu á þeim sviðum sem eru mér möguleg - ég tíni rusl þegar ég sé það, slekk ljósin meira og borða minna kjöt, auk þess að hjóla, labba, nota almenningssamgöngur og vera meðvituð um plastnotkun og hraða tísku.

4)      Ég held ekki friðinn - ef ég heyri einhvern segja eitthvað sem angar af kvenfyrirlitningu, rasisma eða hómófóbíu, reyni ég að svara því. Búningsklefatal og óviðeigandi brandarar valda fólki vanlíðan og stuðla að samfélagslegri samþykkt niðurlægjandi orðræðu og virðingarsnauðu viðmóti. Mér tekst þetta ekki alltaf, ég er ekki alltaf nógu hugrökk til að bjóða fólki birginn hvað varðar úreltu hugmyndir þeirra um samfélagið, en ég geri mitt besta!

5)      Að kjósa! Við eigum mörg kost á því og búum yfir réttinum til að kjósa, og með því að nýta okkur kosningaréttinn getum við tekið þátt í því að gera heiminn að betri stað. 

Markmiðið

Friður ætti ekki að vera markmiðið - hlutirnir eiga það til að staðna þegar friður ræður ríkjum. Framfarir ættu að vera markmiðið. Að halda friðinn þýðir að viðhalda núverandi aðstæðum, og það er ekki alltaf af hinu góða. Kannski eru mótmæli ekki eitthvað sem þú tengir við, en ekki halda friðinn bara til þess að halda friðinn. Auðvitað skiptir öryggi höfuðmáli og ég er ekki að ýja að því að fólk ætti að leggja sjálft sig í hættu, en ég hef allavega fengið nóg af því að „halda friðinn“ við matarborðið. Að byrgja inni tilfinningar mínar, í staðinn fyrir að ræða þær á yfirvegaðan hátt, veldur því gjarnan að þær vella upp á yfirborðið (og hrófla við mínum innri friði), svo héðan í frá ætla ég að segja fjandinn hafi friðinn; ef eitthvað angrar mig, langar mig að tala um það.*

 

*á ábyrgan og öruggan hátt 😊