Úr bókinni Dagatal – Sögur á einföldu máli eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur

Fyrri sagan er á getustig 2 en sú seinni á getustigi 4.

 Sól og sítróna

Ég lauk stúdentsprófi að vori, vann yfir sumarið og fór svo út um haustið. Ég fór í spænskunám á Suður-Spáni. Við byrjuðum á að læra grunnorðaforða, meðal annars árstíðirnar, mánuðina og litina.

            „Getið þið nefnt eitthvað sem er gult á litinn?“ spurði kennarinn.

            „El limón - sítróna,“ sagði einn nemandinn.

            Kennarinn leit á mig. Ég sagði það fyrsta sem mér datt í hug.

            „El sol – sólin,“ sagði ég.

            Kennarinn hló.

            „Nei, sólin er rauð,“ sagði hann.

            Ha? hugsaði ég. Er sólin ekki eins á litinn á íslensku og spænsku?

            Næst rifjuðum við upp mánuðina og árstíðirnar.

            Kennarinn bað mig um að nefna vetrarmánuð. Það fyrsta sem mér datt í hug var nóvember. Þá snjóar oft á Íslandi. Það má samt deila um það hvort það sé haust eða vetur í nóvember. Ég vildi ekki taka neina áhættu.

            „Diciembre – desember,“ sagði ég. Jólin eru í desember svo það er klárlega kominn vetur þá.

            Kennarinn hló aftur.

            „Nei, desember er haustmánuður.“

            Hann hafði greinilega ekki upplifað dimman og snjóþungan desembermánuð á Íslandi.

Ég sá auglýsingar um Festival de otoño þegar líða fór að jólum. Hausthátíðina átti að halda dagana 4. til 9. desember. Kennarinn hafði haft rétt fyrir sér. Desember er haustmánuður á Suður-Spáni. Veðrið hélt áfram að vera milt og laufin féllu af trjánum.

 

Í fjörunni

Kaldur vindur berst frá hafinu. Ég geng í grýttri fjörunni. Á milli steinanna sé ég eitthvað sægrænt. Ég beygi mig niður. Þetta er bandspotti. Rusl. Ég næ í spottann, tek hann með mér. Ég stikla á steinum. Það reynir á jafnvægið. Nokkrir steinanna vagga undir fótunum á mér.

Ég sé eitthvað hvítt blakta í vindinum. Þetta er plastpoki. Við hliðina á honum er lítið, blátt prik. Sleikjóprik kannski. Ég sting því ofan í pokann, þennan líka fína ruslapoka. Svo fatta ég að þetta er ekki sleikjóprik. Þetta hefur verið eyrnapinni. Bómullin er farin af endunum. Pinnanum hefur sennilega verið sturtað niður í klósett. Svo hefur hann endað hér.

Í þaranum sé ég glitta í eitthvað blátt. Ég held fyrst að þetta sé annað prik og beygi mig eftir því. En þetta er ekki rusl. Þetta er brot úr bláskel. Skelin er náttúrulega blá. Ég kem auga á brúsa sem er í laginu eins og sósubrúsi frá E. Finnsson. Það hefur kannski verið kokteilsósa í honum. Eða remúlaði. Hvernig ætli hann hafi endað hér?

Næst finn ég brot úr plastfötu. Á brotinu er mynd af jarðarberi. Einu sinni hefur sennilega staðið á henni Jordbær Sultetøy en nú stendur bara Jord- og -tetøy. Ég velti fyrir mér hvort að það sé hægt að kaupa þessa sultutegund á Íslandi. Ég held ekki.

Við næsta stein er málmbrúsi. Stafirnir utan á honum tilheyra stafrófi sem ég get ekki lesið. Brúsinn er illa farinn. Hann hefur sennilega ferðast langt. Getur verið að þetta hársprey – eða hvað þetta nú er – hafi flotið til Íslands alla leið frá Austur-Evrópu?

Ég sest á stein. Horfi út á hafið. Brimið er fallegt, stórar bylgjur kastast upp á ströndina. Hljóðið er notalegt, róandi.

Karítas Hrundar Pálsdóttir is the author of two books for Icelandic language learners: Árstíðir – Sögur á einföldu máli (2020) og Dagatal – Sögur á einföldu máli (2022) which will be out next week. Dagatal is an independent sequel of Árstíðir which has been well received and taught at various education levels in Iceland and abroad. The books consist of 91–101 short and accessible stories about customs and traditions in Iceland. The stories are written especially for readers with Icelandic as a second language (they are on difficulty level A2 to B2 according to the European Framework for Language). They therefore support both linguistic- and cultural literacy.

 

More at, @arstidir_sogur on Instagram and

https://www.utgafuhus.is/products/arstidir-karitas-hrundar-palsdottir

Árstíðir is available as paperback, e-book and audiobook where twelve individuals with various backgrounds read the stories to show the variations of Icelandic. 

CultureRitstjórn