Til laugar: Umfjöllun um sýninguna Sund í Hönnunarsafni Íslands
Ég gerði mér ferð í Hönnunarsafn Íslands í Garðabænum fyrsta mars síðastliðinn, sem fyrir tilviljun var einnig fyrsti sólríki dagur ársins. Svona dagar eiga það til að skjóta upp kollinum snemma í mars, sólin fagnar því að líta loksins sextugustu og sjöttu breiddargráðuna og sendir sólargeisla sína niður á klakann til að ylja landsmönnum. Hún er þó allfljót á sér, hopar gjarnan undan vetrarkuldanum og lætur ekki sjá sig aftur fyrr en í maí eða júní. Ég læddist þó upp stigann í Hönnunarsafninu með sumarið á bakvið eyrað og bar sýninguna Sund sem breiðir úr sér á efri hæð safnsins augum.
„Sundlaugarnar eru samfélagshönnun: þær hafa mótað samfélag, menningu og líkama fólksins í landinu í meira en öld.“
Sýningin opnaði í Hönnunarsafninu 1. febrúar þessa árs og mun standa til 25. september. Hún segir sögu íslenskrar sundmenningar frá „sundvakningunni“ í upphafi tuttugustu aldar og allt til dagsins í dag. Innihaldi sýningarinnar er miðlað áfram á fjölbreyttan hátt, með texta, teikningum, myndum og myndskeiðum. Rauði þráðurinn í gegnum sýninguna er þó, eins og vera ber á sjálfu hönnunarsafninu, mismunandi svið hönnunar sem hafa mótað upplifun okkar Íslendinga af sundlaugum. Sýningin skiptist niður á þrjú svæði sem eru skýrt afmörkuð með litum og hafa yfirskriftirnar: Læra, Leika og Njóta. Svæðin þrjú segja hvert frá einu tímabili í íslenskri sundmenningu ásamt því að ramma vel inn mismunandi hliðar hennar.
„Einungis hálft prósent landsmanna voru syndir og fjöldi drukknaði ár hvert.“
Fyrst er gengið inn í gult rými tileinkað listinni að læra. Nú til dags tökum við því sem sjálfsögðum hlut að kunna að synda. Þetta var þó ekki ávallt raunin og fyrsti hluti sýningarinnar greinir frá upphafi sundkennslu á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Fræðslan er sett fram á skemmtilegan máta, til að mynda með söguágripi fyrsta kvenkyns sundkennarans hérlendis og frásögnum nemenda af miður góðri notkun sundprika í skólasundi. Á þessu svæði má einnig finna „hljóðsturtur“, en sé staðið undir sturtuhausnum og skrúfað frá streyma niður á kollinn frásagnir fólks af sundferðum sínum. Meðan ég gekk á milli veggja og las um sundkennslu á fyrri öldum varð mér hugsað til Seljavallalaugar undan Eyjafjöllunum. Hún er nú vel þekkt, einkum meðal erlendra ferðamanna, en ég tengi hana fyrst og fremst við föður minn sem lærði þar sundtökin sem barn fyrir tæpri hálfri öld síðan. Ég á sælar sumarminningar þaðan en við fjölskyldan fikruðum okkur ósjaldan upp í fjalladalinn, skiptum yfir í sundfötin í gluggalausum útiklefunum og syntum nokkrar ferðir í heitri lauginni á meðan sólin endurspeglaðist á yfirborði vatnsins.
„Heiti potturinn varð strax hringiða samfélagsins.“
Það kom mér skemmtilega á óvart að sjá einmitt mynd af Seljavallalaug þegar ég gekk inn í næsta rými, en í þetta sinn var það ljósblátt. Myndin, sem hangir á vegg ásamt fleiri sams konar myndum af öðrum sundlaugum er tekin úr dróna hátt fyrir ofan laugina. Í þessu nýja rými er áhersla lögð á leik en um miðbik síðustu aldar var sú hugsun fyrirferðarmikil í sundmenningunni. Nú voru flestir Íslendingar syndir og það mátti að minnsta kosti eina sundlaug í hverju plássi.
Í þessu rými standa þrír hlutir upp úr. Sá fyrsti var hönnunarsaga mismunandi sundlauga. Það tímabil sem bláa herbergið fjallar um má lýsa sem gullöld íslensks sundlaugararktitektúrs. Á þessum tíma fengum við laugar á við Sundhöll Reykjavíkur, Skeiðalaug í Brautarholti og auðvitað rúsínuna í pylsuendanum: Árbæjarlaug. Í þessum laugum mætist það helsta í íslenskri menningu og list. Næsta verk sem vert er að minnast á eru myndbandsklippur sem teknar voru í Sundhöll Reykjavíkur á fimmta áratug síðustu aldar. Klippurnar sýna fjölda fólks þar sem þau spóka sig í sólinni eða stinga sér til sunds í lauginni. Sýningin greinir einmitt frá því hvernig sundlaugar urðu einn helsti samkomustaður samfélagsins. Þangað fór fólk til að sýna sig og sjá aðra en fyrst og fremst til að spjalla í heita pottinum. Við könnumst öll við að sitja í pottinum og hlusta á samræðurnar sem eiga sér þar stað. Listasamlagið Allsber gerir það svo sannarlega, en Hönnunarsafnið hefur veitt þeim viðveru í anddyri safnsins. Þar sitja þær nú flesta daga og búa til fallega keramikbolla en á þá skrifa þær frasa sem þær hafa heyrt í heita pottinum.
Í bláa rýminu fangaði að lokum athygli mína lítill og látlaus glerkúpull. Inni í honum er búið að festa hina einu sönnu sundlykt. Þegar ég lyfti kúplinum og klórlyktina bar að vitum mínum fluttist ég samtímis um stað og stund. Allt í einu var ég stödd í héraðssundlaug Hvalfjarðarins síðastliðið sumar. Ég sat á bakka heita pottsins og baðaði mig í hlýrri sumarsólinni. Við vinirnir sátum öll saman, þunn eftir útilegu gærkvöldsins en slógum á verstu verkina með kaffibolla sem fékkst úr kaffikönnu við bakka laugarinnar. Svona eiga íslensk sumur að lykta, af kaffi og klór.
„Boðorðið að njóta: njóta verunnar í vatninu, njóta líkamlegrar upplifunar, njóta samverunnar við aðra.“
Þriðja og síðasta rýmið er sægrænt og nú erum við komin yfir á tuttugustu og fyrstu öldina. Hér er megináherslan sú að njóta. Eðlilega er þá fjallað um Bláa lónið, þá laug sem Ísland er hvað þekktast fyrir. Á einum veggnum hanga sundföt eftir íslenska fatahönnuði þar sem greint er frá tískusveiflum í íslenskum sundfatnaði síðastliðna áratugi. Á veggnum andspænis sundfötunum er áhugaverð uppstilling af nýtískufyrirbrigði í íslenskri sundmenningu en það er flot. Það felur það í sér að fólk setji upp flothettur og fleiri sambærileg hjálpartæki og láta sig fljóta á yfirborði vatnsins. Þetta er ákveðið form hugleiðslu sem hefur sótt í sig veðrið í seinni tíð. Í enda rýmisins, og jafnframt lok sýningarinnar, er uppstilling tileinkuð heitu lauginni á Akranesströnd, Guðlaugu. Enn og aftur sveimuðu að mér sólsveipaðar minningar. Ég stend í svörtum sandinum á Akranesströnd. Hafgolan strýkur mér blíðlega um bakið og sólin yljar mér meðan öldurnar flæða yfir fæturna. Augu mín renna hægt yfir strandlínuna og stöðvast loks á lauginni þar sem hún kúrir í varnargarðinum. Ég reyni að taka inn augnablikið og fanga kyrrðina sem felst í því að hlusta á ölduganginn. Ég gat enn heyrt í þeim þar sem ég stóð við enda sýningarinnar fyrsta sólardaginn í mars. Ég gekk út úr Hönnunarsafninu með bros á vör, búin að læra margt, leika mér og njóta vel.