Nýja persónufornafnið, málfræðin og samfélagið: Viðtal við Eirík Rögnvaldsson

Á síðustu árum hefur hýryrðasmíð í íslensku verið áberandi í samfélaginu. Orð sem ná yfir skilgreiningar á innri og ytri sjálfsvitund allra hópa samfélagsins eru lykilatriði í því að móðurmál okkar sé áfram nothæft og hýryrði, nýyrði sem ná yfir skilgreiningar á hinseginfólki, hafa verið stór hluti af réttindabaráttu hinseginfólks.

Mynd: Aðsend

Eitt útbreiddasta hýryrðið er án efa persónufornafnið hán, sem vísar til kynsegin fólks, þ.e. fólks sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns, eða skilgreinir sig með öðrum hætti utan karlkyns/kvenkyns kynjatvíhyggjunnar.

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í málfræði við Háskóla Íslands og höfundur margra rita um íslenska málfræði. Stúdentablaðið ræddi við hann um tilkomu nýja persónufornafnsins hán, en þessi breyting á tungumálinu er óhefðbundin þar sem nýyrðasmíð á sér sjaldnast stað í lokuðum orðflokkum. Nafnorð eru t.d. opinn orðflokkur og bæta sífellt við sig nýjum orðum eftir þörfum nútímasamfélags. Fornöfn eru hins vegar fá og til þess að breyta þeim eða bæta við þau þarf að eiga sér stað sameiginlegt, samfélagslegt átak.

Eiríkur komst fyrst í kynni við nýja fornafnið um 2013 – 2014, og viðurkennir að hafa haft sínar efasemdir til að byrja með.

Ég var dálítið fastur í því viðhorfi að fornöfn væru lokaður orðflokkur, og að það væri ekki hægt að einfaldlega bæta við fornöfnum í málið. Árið 2015 var ég hins vegar fenginn til þess að vera í dómnefnd nýyrðasamkeppni Samtakanna '78. Þar var alls konar fólk með ólíkar kynhneigðir og kynvitundir sem ég hafði einfaldlega ekki hugmynd um að væru til.

 

Á degi íslenskrar tungu árið 2015 hélt nemendafélagið Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum, almennum málvísindum og táknmálsfræði, viðburð þar sem Samtökin '78 ræddu mikilvægi hinsegin orðaforða, en Eiríkur segir að sú samkoma hafi endanlega breytt viðhorfi sínu.

María Helga Gunnarsdóttir, sem var áður formaður Samtakanna '78, og Alda Villiljós, nýyrðasmiður orðsins hán, settu okkur rækilega í þessi spor. Hvar er maður staddur ef maður sjálfur og fólkið í kringum mann getur ekki talað um mann á móðurmálinu, ef það eru ekki til orð til sem eiga við um mann – það er mikil útilokun og jaðarsetning sem felst í því.

 

Árið 2016 gerði Eiríkur persónufornafnið hán hluta af kennsluefni sínu í beygingarfræði, og tók þátt í líflegri samfélagsumræðu um málfræðilegt réttmæti þess að gera svo stórtækar breytingar á málinu.

Sumir hafa verið á þeirri skoðun að í fyrsta lagi sé ekki hægt að bæta við enn einu fornafni, og að í öðru lagi þurfi þess ekki – við erum með fornafnið það og sumum finnst að það ætti bara að duga. Það upplifa sumir hins vegar sem niðrandi, og því er ekki hægt að neita að það á við um dauða hluti í hugum okkar flestra. Hán er í rauninni bara hvorugkynsfornafn sem við bætum við til að ná yfir skilgreiningu á lifandi manneskju. Það og hán skipta þannig með sér verkum.

 

Mynd: gpride.org

Sum hafa einnig bent á að ekki sé til ábendingarfornafn sem samsvari hvorugkyni, en í karlkyni notum við sá og í kvenkyni sú. Því gangi ekki upp að bæta þriðja fornafninu inn í málið. Eiríkur bendir á að svona stórtæk breyting á tungumálinu þurfi ekki að gerast öll í einu.

Þetta er svolítið dæmigert fyrir rök sem er beitt í þessu sambandi, að við getum ekki farið að breyta þessu því það gangi ekki upp í þessu og hinu samhengi, en mér finnst vera mistök að krefjast þess að allt sé leyst í einu lagi – svipað eins og að segja að við getum ekki tekið við öllum flóttamönnum sem hingað vilja koma og þar með ættum við ekki að taka við neinum. Það er vissulega rétt að ekki er til kynhlutlaust ábendingarfornafn ennþá, en þangað til svo verður hefur mér fundist fín lausn að nota einfaldlega hán (sá – sú – hán). Réttu orðin verða til með tímanum og koma þá eðlilega frá fólki sem tilheyrir þessum hópi samfélagsins, því þetta snýst auðvitað um að fólk hafi eitthvað að segja um hvernig talað er um það.

 

Sumum finnst stórtæk breyting sem þessi vera afbökun á íslenskunni, en Eiríkur segir að þrátt fyrir þá mótstöðu sem er til staðar munu hán og fleiri hýryrði verða eðlilegur hluti af málinu með tímanum.

Eins og með annað í samfélaginu, er þetta spurning um að komast yfir ákveðinn þröskuld. Þetta er alveg eins og viðurkenning á samkynhneigðum á sínum tíma, þegar fleiri voru komin út úr skápnum og yfirlýst samkynhneigð manneskja var komin í flesta vinahópa og fjölskyldur þá breyttist viðhorf fólks, því þá fer það að þekkja þessi hugtök af eigin raun.

 

Fyrir þau sem eru þeirrar skoðunar að ekki eigi að handstýra málinu, segir Eiríkur að ef velja þarf milli málnotenda og málkerfis, verði málið að víkja.

Sumum finnst að tungumálið eigi ekki að breytast neitt, en önnur eru á þeirri skoðun að tungumálið eigi að fá að þróast án þess að fólk sé að hafa meðvituð afskipti af því. Sannleikurinn er hins vegar sá að málið er alltaf að breytast og þróast, og við erum alltaf að skipta okkur af því. Þegar öllu er á botninn hvolft er lífsnauðsynlegt fyrir tungumálið að þjóna samfélaginu í heild sinni, og ég get ekki séð að viðbót við málið sé neitt skemmdarverk. Réttlætingin fyrir því að tala íslensku verður að vera sú að hún nái yfir alla hópa þjóðarinnar. Þó að auðvitað sé mikilvægt að vernda málið okkar á öllum sviðum, verða málnotendur alltaf rétthærri en tungumálið. Ef íslenskan dugir ekki til þess að ná utan um einhvern hóp málnotenda, þá er það málið sem verður að breytast.