Innlit á Stúdentagarðana
Myndir: Snædís Björnsdóttir
Við á Stúdentablaðinu erum alltaf mjög forvitin um það hvernig fólk innréttar heimili sín, sér í lagi á Stúdentagörðunum þar sem ekki er hægt að mála eða reka nagla í vegg. Við fengum því að líta inn í tvær íbúðir stúdenta á görðunum og spyrja heimilisfólkið spjörunum úr um innréttingarnar, húsmunina og heimilispuntið.
Innlit til Rakelar Önnu Boulter
Rakel Anna er á öðru ári í bókmenntafræði. Hún flutti inn í íbúð á Stúdentagörðum í september 2021.
Fannst þér áskorun að innrétta íbúðina eftir þínum persónulega stíl og gera rýmið að þínu eigin? Áttu ef til vill einhver góð ráð til stúdenta um það hvernig megi nýta rýmið vel og gera það persónulegt?
„Ég hugsaði mikið um þetta og var rosa spennt fyrir því að fá íbúðina mína afhenta. Þegar ég fékk hana afhenta var ég búin að teikna upp helling af hugmyndum og íhuga ólíkar leiðir til að innrétta hana. Það voru þónokkrir hlutir sem ég var búin að ákveða, eins og að hafa bekk upp við vegginn í staðinn fyrir að hafa fleiri stóla. En mér fannst ekkert erfitt að gera íbúðina að minni eigin, það kom mjög náttúrulega. Kannski líka af því að ég er með mjög ákveðinn stíl. Ég á mjög mikið af hlutum sem ég á einhverja persónulega tengingu við eða sem eru svolítið extra. Ef ég ætti að gefa einhver góð ráð þá væri það að fylla veggina, það gerði ótrúlega mikið fyrir mig. Og að setja mottu á gólfið. Svo, af því að fjölskyldan mín býr öll á Akureyri, þá finnst mér notalegt að hafa alls konar krúttlega hluti í kringum mig.
Áttu þér einhvern uppáhaldshlut eða húsgagn í íbúðinni eða eitthvað sem þú gætir alls ekki skilið við þig?
„Ég á helling af uppáhaldshlutum, en ég held að ég geti skilið flest við mig. Það eru ýmsir hlutir hér sem ég á sterka persónulega tengingu við, eins og málverkin sem eru fjölskyldugripir og máluð af bræðrum pabba. Ef ég myndi flytja út eða ákveða að búa í ferðatösku þá færu málverkin í geymslu hjá mömmu og pabba og þau væru algjörlega síðasti hluturinn sem færi í Góða hirðinn. Ég held að ég gæti komið öllum hlutunum sem mér þykir sérstaklega vænt um fyrir í einum kassa. Ég vil eiga lítið af dóti og geta flutt út hvenær sem er og gefið eða hent dótinu mínu. Ég á marga fína hluti en hef ekki of sterka tengingu við þá.“
Hvaðan koma flestir hlutirnir þínir?
„Ég held að ég hafi keypt öll húsgögnin mín í Góða hirðinum nema rúmið mitt og bókahilluna, sem eru keypt í Ikea. Og mikið af smærri hlutunum sem ég á eru líka keypt í Góða hirðinum.“
Er einhver óvenjulegur hlutur í íbúðinni eða einhver hlutur sem á sér sérstaka sögu?
„Ég gæti örugglega talað endalaust um þetta en ég skal reyna að gera það ekki. Ég er með svona lúmska söfnunaráráttu fyrir furðulegustu hlutum. Ég safna til dæmis litla dæminu sem maður togar í þegar maður opnar bjórdós. Svo safna ég líka allskonar kindereggjafígúrum. Síðan eru litlu hurðirnar sem ég hef sett á veggina og í gluggakistuna. Málverkin mín eiga sér líka sérstaka sögu, þetta eru málverk eftir alla bræður pabba.“
Áttu einhvern uppáhaldsstað í íbúðinni?
„Ég sit oftast við borðstofuborðið þegar ég er að læra og mér finnst það mjög góður staður. Svo elska ég að ýta sófaborðinu í burtu og dansa á mottunni minni. Það er eiginlega uppáhaldsrýmið mitt. Stundum set ég eldhúsbekkinn jafnvel inn í búr og þá stækkar rýmið, fiskabúrið mitt, enn meira. Ég kalla íbúðina mína gjarnan fiskabúrið. Svo er ég með tilvísun úr Gatsby skrifaða á gluggann á móti rúminu og þegar sólin skín inn um gluggan þá varpar hún textanum á vegginn. Þá er rúmið mitt uppáhaldsstaðurinn minn. Útsýnið hér er líka svo gott, ég elska líka að vera á efstu hæð. Það er algjör lúxus að vera svona hátt uppi. Mér finnst ég sjá yfir Reykjavík um leið og ég er inni í henni líka. Á kvöldin get ég horft yfir á Hörpuna og þegar það eru ljósasýningar á framhliðinni á henni þá get ég fylgst með þeim. Mér finnst það mjög fínt.“
Katrín Björk Kristjánsdóttir og Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir
Katrín er að læra félagsráðgjöf og Guðný er í meistaranámi í markaðsráðgjöf. Þær fluttu inn í íbúð á Stúdentagörðum í ágúst 2020.
Fannst ykkur áskorun að innrétta íbúðina og gera hana að ykkar eigin?
Katrín: „Þegar við vorum að innrétta íbúðina vorum við ekki með neina ákveðna strategíu. Við höfum haft þetta bara þannig að ef við sjáum einhverja fallega hluti þá kaupum við þá, oft bara eitt og eitt í einu, og þetta hefur þróast smám saman með okkur. Við erum búin að sanka að okkur hlutum yfir smá tíma.“
Guðný: „Það var alls ekki erfitt að innrétta íbúðina en það tók smá tíma. Við fengum marga fína hluti gefna en svo finnst okkur líka gaman að búa til hluti sjálfar. Málverkið sem hangir yfir sófanum máluðum við til dæmis sjálfar. Okkur fannst gaman að búa til eitthvað sjálfar og gera íbúðina þannig að okkar.“
Eigið þið ykkur einhvern uppáhaldshlut eða húsgagn? Eða mynd?
Guðný: „Ég myndi segja að það væri guli steikarjárnspotturinn. Það er gaman að hafa smá lit.“
Katrín: „Já, hann verður smá appelsínugulur þegar hann hitnar, eins og hann roðni smá. En ef ég ætti að velja eitthvað eitt, þá held ég að það yrðu lamparnir hérna í íbúðinni, ég er nefnilega mikill ljósaperri og vil alltaf hafa kósí stemningu. Lýsingin gerir ótrúlega mikið fyrir íbúðina.
Eigið þið einhvern óvenjulegan hlut eða hlut sem á sér sérstaka sögu?
Guðný: „Við eigum til dæmis einn vasa sem við keyptum á nytjamarkaðinum Frú Blómfríður á Akureyri. Þetta var þegar við fórum í litla hringferð þarsíðasta sumar, aðallega um Norðurlandið. Við vorum búnar að heyra um þennan nytjamarkað svo við kíktum þangað og þá öskraði þessi vasi á okkur. Síðan ferjuðum við hann hingað alla leið frá Akureyri, þannig að það má segja að við höfum haft mikið fyrir því að fá hann hingað inn.“
Katrín: „Svo er myndin af okkur líka einn uppáhaldshluturinn okkar. Hún var tekin á síma á gamlárskvöld 2020 og litla frænka mín teiknaði hana í gegn og litaði.“
Eigið þið ykkur einhvern uppáhaldsstað í íbúðinni?
Katrín: „Ég held að það sé sófinn okkar.“
Guðný: „Sérstaklega þar sem við vorum að fá Apple TV. Ég er reyndar líka mikið í eldhúsinu, en það er nú ekki langt frá sófanum.“
Katrín: „Þetta er mjög hentugt af því að Guðnýju finnst mjög gaman að elda, og mér finnst mjög gaman að sitja í sófanum. Af því að það er svona stutt þarna á milli þá getum við verið á sama stað.“