Hótel Saga á þrykk
Í námskeiðinu Á þrykk vinna nemendur í ritlist og hagnýtri ritstjórn og útgáfu saman að gerð nýrrar bókar. Þema bókarinnar í ár er Hótel saga og nemendur eru um þetta leyti í óða önn að skrifa frumsamið efni og búa til útgáfu. Stúdentablaðið ræddi við þau Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur, Birgittu Björk Bergsdóttur og Einar Kára Jóhannsson um útgáfuferlið og bókina sem er nú í bígerð. Þær Heiða Vigdís og Birgitta Björk eru báðar ritlistarnemar en Einar Kári er annar tveggja kennara námskeiðsins og þar að auki útgefandi, bókmenntafræðingur og einn stofnenda bókaforlagsins Unu útgáfuhúss.
Í miðri hringiðunni
Þegar viðtalið er tekið er útgáfuferlið rétt hálfnað. „Við erum akkúrat í miðri hringiðunni núna,“ segir Heiða og Birgitta tekur undir það. Framundan er mikil vinna við ritstjórn, prófarkalestur, hönnun og umbrot bókarinnar. „Það eru mörg smáatriði sem þarf að huga að, til dæmis þarf að velja pappír og velta fyrir sér stærð á texta og staðsetningu textans á blaðsíðunni,“ segir Birgitta. Það er því í mörgu að snúast á skömmum tíma. „Við erum í rauninni að koma okkur saman til að skapa eitt sameiginlegt listaverk á mjög stuttum tíma. Og það felst í öllum praktísku atriðunum líka, við erum að skapa texta en um leið erum við að skapa peninga og stemningu,“ segir Heiða og vísar í útgáfuferlið, fjármögnun bókarinnar og markaðssetningu hennar.
Híbýli ótal sagna
Ólíkt útgáfum síðustu þriggja ára, sem allar hafa verið smásagnasöfn, er í þetta sinn að finna í bókinni jafnt sögur og ljóð. „Í raun eru einu formlegu reglurnar sem höfundarnir fylgja reglur um orðafjölda,“ útskýrir Einar Kári. En hvaðan kemur þema bókarinnar, Hótel Saga? „Þegar við vorum að velja þemað var hótelið mikið í fréttum, því hafði nýlega verið lokað og Háskóli Íslands var um þetta leyti að kaupa bygginguna,“ segir Heiða. Það lá því beint við að fjalla um þetta sögufrægu hús. „Hótelið er fullt af sögum sem segja má frá ólíkum sjónarhornum. Það er til að mynda hægt að skrifa um konunga og drottningar, útigangsfólk, þjónustufólk, tónlistarfólk, djammara, starfsfólk, drauga, vitsugur, flugur… og myglu.“ „Og persónugervingar á allskonar hlutum og hótelinu sjálfu,“ bætir Birgitta við. Í bókinni er þar að auki að finna sögur um ást og ofbeldi, leynilega ástarfundi og erfidrykkjur. Svo er líka mikið um að sögupersónur fái sér veitingar á Grillinu, veitingastaðnum sem áður var á efstu hæð hótelsins. Á hótelinu er ennþá starfandi hárgreiðslustofa og þar má einnig finna pósthús, heilsulind, banka, bókabúð og bókaforlag. Byggingin er þannig einstakur heimur út af fyrir sig og um leið uppspretta ótal frásagna. Hún var áður í eigu Bændasamtakanna, þá oft nefnd Bændahöllin, og saga hennar einkennist því einnig af mikilli pólitík.
Sérstök stemning drýpur af veggjum hótelsins
Í gegnum útgáfuferlið hafa nemendur farið í ýmsar rannsóknarferðir um bygginguna. „Við höfum ráfað mikið um tómt hótelið og fylgst með fólki bera út húsgögn og merkja allskonar hluti sem eiga að fara á uppboð. Þetta er stundum svolítið eins og að labba um hálfgert draugahús,“ segir Heiða. „Það er einhver sérstök stemning sem drýpur af veggjunum,“ bætir Einar Kári við. Hann hefur orð á því að hingað til hafi hótelið sem slíkt ekki hlotið stóran sess innan íslenskrar bókmenntasögu. „Það er eitthvað útlenskt við hótelið. Það var byggt á ákveðnum tíma í sögunni svo að við gætum verið þjóð á meðal þjóða og boðið drottningum að dvelja þar þegar þær heimsæktu landið.“
Áskorun að skrifa glænýja texta á skömmum tíma
Þema bókarinnar í ár er skýrt afmarkað sem veldur því að höfundar hennar verða að skrifa nýtt efni frá grunni til birtingar. Að mati Birgittu og Heiðu er þetta ein helsta áskorunin við gerð bókarinnar. „Á þessum stutta tíma frá janúar til mars þurfum við að skrifa eitthvað alveg nýtt, ljúka við það og senda frá okkur,“ segir Heiða og bendir um leið á að það séu ýmsir kostir við það að ferlið gangi svona hratt fyrir sig. „Þetta er á vissan hátt gott fyrir egóið, við höfum bara þennan ákveðna tíma til að vinna þetta og eftir það er ekki hægt að breyta neinu.“ Það er þó tvennt ólíkt að skrifa texta sem þú veist að á eftir að birtast á prenti innan skamms og að skrifa fyrir sjálft þig eða skúffuna. „Þú veist að það sem þú ert að skrifa á eftir að koma út í bók og því fylgir ákveðin pressa,“ segir Birgitta. „Það eina í stöðunni er því að „droppa egóinu“. Þú getur ekki verið að pæla of mikið í því hvað fólki eigi eftir að finnast,“ segir Heiða.
Ritlistin veitir ungum höfundum svigrúm til að skrifa
Námskeiðið Á þrykk sýnir kannski fyrst og fremst fram á það hve samstarf rithöfunda og ritstjóra er mikilvægt við gerð bókar. Þá má ekki heldur gleyma aðkomu hönnuða, umbrotsaðila, prófarkalesara og útgefenda. „Maður heyrir oft gamlar hugmyndir um að rithöfundar sitji bara einir úti í horni og skrifi,“ segir Heiða. Þetta er þó síður en svo alltaf raunin. Birgitta samsinnir þessu. „Námið er mjög mikilvægt upp á tengslanetið. Við hittumst oft á kaffihúsum og skrifum saman þó að hver sé að vinna í sínu.“ Í ritlistinni fá nemendur þannig ekki einungis svigrúm til að skrifa, eins og Einar Kári bendir á, heldur fá þeir einnig tækifæri til að deila textunum sínum með öðrum og ræða skrifin.
Flest þekkja ef til vill atriðið í skáldsögu Einar Más Guðmundssonar Englar alheimsins (1993) sem segir frá því þegar þrír vistmenn á Kleppi gera sér ferð á veitingastaðinn Grillið á Hótel sögu. Kvikmynd var gerð eftir skáldsögunni og kom hún út árið 2000 í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Óhætt er að segja að þessi sena sé meðal þeirra þekktustu í íslenskri bókmennta- og kvikmyndasögu. Eftirfarandi er tilvísun úr bókinni.