Háskólanám í fjarnámi erlendis

Þegar ég byrjaði í háskólanámi sá ég fyrir mér að ég myndi verja tímunum saman á Þjóðarbókhlöðunni þegar kæmi að BA skrifum. Ég get samt ekki sagt að það hafi verið mjög spennandi tilhugsun að eyða miklum tíma þar inni.

Ég er hins vegar með ferðabakteríuna á háu stigi og lét mig dreyma um að sameina fjarnámið sem mannfræði við HÍ býður upp á og ferðalög. Á fyrsta ári eyddi ég fyrri hluta vorannar í litlu þorpi í Portúgal og lærði á brimbretti um helgar. Stefnan var tekin á Marokkó seinna um önnina en þar sem þetta var í byrjun árs 2020 komst ég ekkert næstu tvö árin vegna Covid. Nú, á síðustu önninni í HÍ er ég í BA skrifum á Miðjarðarhafsströnd Tyrklands. Í fjarnámi er allt sem þarf tölva og wifi, í BA skrifum bætist bara við leiðbeinandi og andlegur stuðningur.

Háskólanám á bakpokaferðalagi getur verið krefjandi þó það sé á sama tíma algjör lúxus. Suma daga, þegar veðrið er gott og margt annað að gera en að sitja við skrif, komast ekki nema fimm orð á blað eða tæplega það. Aðra daga eru þau aðeins fleiri. Það er kannski helsti ókosturinn við háskólanám erlendis í fjarnámi, að finna sjálfsagann til þess að halda sér við efnið þegar það er margt spennandi að gera í kringum man.

Aðrir ferðalangar sem ég hef hitt á þessu ferðalagi vinna sína vinnu í fjarvinnu og nota tækifærið til þess að ferðast á meðan, en ég hef hitt færri háskólanema í fjarnámi. 

Með Covid kom fjarvinna og fjarnám og eru mörg sem hafa haldið áfram í fjarvinnu þó Covid fari minnkandi - mun fjarnám í háskólum feta í sömu spor? Að sjálfsögðu getur ekki allt háskólanám verið alfarið kennt í fjarnámi en það er næs að hafa möguleikann á því í þeim greinum sem það er hægt.

Á meðan á þessu ferðalagi hefur staðið hef ég lært í flugvélum, á flugvöllum, í rútum og á umferðarmiðstöðvum, tjaldstæði, fullt af kaffihúsum, hostelum og stundum í bílferðum, á Spáni og í Tyrklandi.

 

Hér eru nokkur ráð fyrir fólk sem er að spá í fjarnámi erlendis:

1. Finndu þér stað til þess að læra á. Það getur verið almenningsbókasafn, næs kaffihús, „co-working space“ eða hvar sem er í rauninni. Í „co-working space-um“ er hægt að leigja skrifborð í einhvern ákveðinn tíma og oft er boðið upp á ótakmarkað kaffi yfir daginn. Ég er t.d. í „co-working space“ núna í Fethiye, Tyrklandi þar sem kettir (og fólk) koma og fara allan daginn. Á slíkum stöðum er oft hægt að kaupa tímabilspassa, dags-, viku-, mánaðar- eða lengri, allt eftir hentugleika. Almenningsbókasöfn úti í heimi eru oft ótrúlega flott og geta veitt mikinn innblástur til þess að læra.

2. Ekki ferðast of hratt. Það tekur tíma og orku að koma sér á nýja staði og þó það að sjá nýja staði sé ein ástæða þess að fólk ferðast, þurfa háskólanemar mikla orku í námið. Kosturinn við það að ferðast hægt er líka sá að maður kynnist staðnum betur og fólkinu sem þar býr.

3. Það getur verið sniðugt að finna vinnu á Workaway, WWOOF, Worldpackers eða á svipuðum síðum, sérstaklega ef þú ferðast hægt, og til þess að ferðasjóðurinn endast lengur. Ef þú gistir á hostelum er líka hægt að spurja hvort þú getir fengið vinnu hjá þeim – oft eru þau með sjálfboðaliða sem vinna í nokkra tíma á dag, gista frítt og nota frítímann til að skoða sig um. Flestir staðir munu biðja um að þú eyðir a.m.k. tveim vikum – mánuð á staðnum.

Njóttu í botn, þetta er draumastaða fyrir þau sem hafa gaman af náminu sínu og því að ferðast. Ferðalög geta líka kennt manni heilmikið, rétt eins og háskólanám.